Gyða Valtýsdóttir gaf út á síðasta ári geisladiskinn Epicycle sem hefur verið vel tekið. Hún vann íslensku tónlistarverðlaunin í opnum flokki fyrir vikið. Platan inniheldur nálganir Gyðu á níu verkum frá því sem mætti kalla hinn klassíska geira. Allt frá elstu skrifuðu laglínu sem þekkt er til framúrstefnu verka Harry Partch.
Gyðu til aðstoðar er helst að nefna fjölhljóðfæraleikarann Shahzad Ismaily sem sjálfsagt er best þekktur fyrir veru sína í hljómsveit Marc Ribot, Ceramic Dog. Eins er hér að finna framlög frá Hilmari Jenssyni gítarleikara, Michael York á blásturhljóðfæri, Danny Tunick á marimba og Julian Sartorius á trommur.
Nálgun Gyðu og samverkamanna hennar á þessum klassísku verkum er ekki eins og maður á að venjast. Þau leika sér með verkin og taka þau út úr þeim ramma sem maður á að venjast. Þetta er þó alltaf gert með fullri virðingu og í sátt við efniviðinn. Rafmagnsgítarar og hart barðar trommur að hætti rokkara í bland við oft frekar hráar upptökur er ekki nokkuð sem maður á að venjast í klassískri tónlist.
En, þetta gengur upp og það er hvergi veikan punkt að finna á disknum. Hápunktar eru túlkun Gyðu á Seikilos Epitaph (ásamt Hilmari og York) og svo Opus 100 eftir Franz Schubert. Þar eru trommur Sartorius og gítar Ismaily skemmtilega áberandi í verki sem maður hefði ekkert sérstaklega ímyndað sér að slíkt gæti átt sér samastað. Svo er ekki hægt að horfa fram hjá Ancient Modes I & II eftir Harry Partch.
Gyða er ekki fyrst manna til að nútímavæða klassísk tónverk. Ég ólst upp við Classical Gas plötuna og svo plötur hljómsveitarinnar Sky þar sem hinn ágæti klassíski gítarleikari John Williams tók sér rafmagnsgítar í hönd og reyndi að gera klassíska tónlist aðgengilegri fyrir eyru rokkara. Þetta gekk upp og ofan hjá sveitinni sem og gerði sólóplata Williams Bridges. Þrátt fyrir góða spretti þá var eitthvað í nálgun hans sem náði oft alls ekki til mín. Hann féll kannski í of mikla fágun og var léttari en efnið bauð upp á. Gyða fellur aldrei í þá gryfju. Fagurfræðileg nálgun hennar er stöðug og alvarleg eins og efnið býður upp á.
Þessi sólóplata Gyðu er vel heppnuð og vel að verðlaununum komin. Að mínu mati er þetta líklegast besta platan sem kom út á Íslandi á síðasta ári og þær voru margar góðar. Ég bíð spenntur eftir næstu plötu.