Stuðmenn öreigans

Nýlega kom út fyrsta breiðskífa hinnar fornfrægu pönkhljómsveitar Mosa frænda, Óbreytt ástand. Mosi frændi, sem er sjálfsagt þekktust fyrir lagið Katla kalda, lá lengi í dái en reis upp að nýju fyrir einhverjum árum síðan. Hljómsveitina skipa Aðalsteinn Þórólfsson (bassi og rödd), Ármann Halldórsson (trommur og söngur), Björn Gunnlaugsson (gítar, trommur, rödd og munnharpa), Gunnar Ólafur Hansson (hljómborð, básúna og söngur), Magnús J. Guðmundsson (gítar og söngur) og Sigurður H. Pálsson (söngur, gítar og klarinett). Meðlimir leggja flestir eitthvað til lagasmíða og svo eru tvær ábreiður að finna á plötunni. Upptökur voru í höndum Curvers Thoroddsens.  

Einhvern tímann lýsti Björgvin Halldórsson því yfir að Sniglabandið væru Stuðmenn fátæka mannsins. Ef sú sýn hans stenst þá er Mosi frændi Stuðmenn öreigans. Það sem ég meina með því er að sem pönkhljómsveit, sem Mosi frændi þykist vera, er þessi hljómsveit í raun alveg handónýt. Þetta er hópur af gömlum menntskælingum sem hefur aldrei almennilega tekist að vaxa upp úr menntaskólahúmornum og telst frekar skemmtihljómsveit að upplagi, en geta bara ekki spilað eins vel eða samið jafngóð lög og Sniglar eða Stuðmenn.

Þetta er hörð atlaga, ég geri mér grein fyrir því. En hún á rétt á sér. Mér er pönkið fyllsta alvara og mér finnst þessir gaukar ekki hafa neinn skilning á því hvað pönk er. Það skásta sem ég get sagt um Óbreytt ástand er að hún er sjálfsagt aðeins skárri en svanasöngur The Clash, Cut The Crap.

Platan hefst svo sem þokkalega með laginu Ekkert hef ég lært. Textinn er ágætur og allt í lagi með þó óeftirminnilegt lagið. En strax í næsta lagi fara þeir alveg með það með því að gera framhald af Kötlu köldu þar sem Atli viðurkennir að vera sjálfur vinur sinn sem söng fyrra lagið. Nú er hann orðinn að illmenni sökum þess að Katla braut hjarta hans og stefnir á eyðileggingu heimsins. Hann er orðinn vondari en Voldemort og kaldari en Katla. Titillagið á ágæt móment, mér virðist það að nokkru byggt á lagi Neil Youngs, Cowgirl In The Sand en lagahöfundur bætir við sínum eigin hugmyndum sem stundum ganga upp og stundum ekki. Textinn er stundum góður og stundum ekki. Hann hefur talsvert til síns máls en svo hættir maður að trúa að þessum mönnum sé alvara með reiðinni þegar þeir ljúka laginu á því að vitna í auglýsingafrasa Jóhanns Péturs essasú. Andskotinn hafi það.

Lögin Útrásavíkingurinn snýr aftur og Hanzki Kannski eru þannig gerð að manni dettur helst í hug að þar séu á ferðinni pönkparódíur. Í alvöru talað þá voru grínpönklög Ladda meira pönk en þetta. Það er skömm af þessu. Svo kemur meiri aulahúmor í titli lagsins Hversvegna eru stúlkur aldrei einar, Einar. Strákar þetta er ekkert fyndið. Verst finnst mér hvernig það er farið með ábreiðurnar tvær, Ó Reykjavík Vonbrigða og Creep Q4U. Málið er að ég get ekki verið viss um hvort þeim er alvara með meðferð sinni á lögunum eða ekki. Mér finnst alltaf hálfpartinn eins og þeir séu að grínast og mér hefur alltaf fundist mikilvægt að menn sýni verkum annara virðingu – annað er bara ódýrt flipp á kostnað annara, tónlistarlegt einelti kannski?

Síðasta lag plötunnar, Prinsessan á Mars er líka besta lag hennar. Þ.e. þangað maður hlustar á textann. En hann er sunginn til einhvers sem höfundi þykir lítið til koma og til að styrkja þá skoðun sína bendir hann þeim sem hann hatar svo á að draumadísin hans kjósi frekar að vera með einhverjum sænskum ræfli með lítið typpi sem rétt passar í þrönga píkuna hennar. Ja hérna. Maður á bágt með að trúa að hér séu á ferð menn um fimmtugt.

Mér finnst rosalega leiðinlegt að þurfa að skrifa svona neikvætt um þessa plötu. Mig langaði mikið til að þetta væri góð plata. Eintakið mitt af Kötlu köldu var ein af fáum vínylplötum sem komu með mér þegar ég flutti yfir hafið, þó þetta væri léttvægt lag þá bara gat ég ekki látið hana frá mér. En svona er þetta stundum og maður fær ekki alltaf það sem maður vill. Þrátt fyrir nokkrar ágætar hugmyndir nær Mosi frændi ekki að gera úr efniviðnum góða plötu og það skrifast helst á leiðinda grín sem verður til þess að hlustandinn getur alls ekki tekið hljómsveitina alvarlega.