Sönn ást (á bókmenntum!)

Ég á það til að fyllast einhvers konar kvíða eða spennu þegar ég á að skrifa um verk eins og hér um ræðir, Orlando eftir Virginiu Woolf sem Soffía Auður Birgisdóttir hefur þýtt og Opna gefur út. Oftast er það þó mjög vægt og stafar af aðdáun á því stórvirki bókmenntanna sem maður stendur frammi fyrir og áhyggjum af að maður muni ekki gera því nægjanlega góð skil. Í þessu tilfelli stafar það þó líka af svolítið annarri ástæðu, þeirri að höfundurinn sem hér um ræðir er Virginia Woolf. En hún er ekki einungis einn allrabesti rithöfundur allra tíma og besti kvenkynsrithöfundurinn myndi ég segja (það væri þó einnig hægt að færa rök fyrir George Eliot og Jane Austen), heldur var Woolf einnig og ekkert síður brilliant gagnrýnandi sem hafði svo einstaka hæfileika í að lesa bókmenntaverk að manni líður bara hálf fáránlega að ætla að þykjast gagnrýna bækur hennar.

Sýn hennar á bókmenntalestur er þó orðinn okkur nokkuð framandi í dag, en Woolf taldi ekki einungis lestur vera skapandi iðju „sem krefst sjaldgæfustu eiginleika ímyndunaraflsins, innsæis og dómgreindar“ heldur varð hann að byggja á sannri ást á bókmenntum. Sem sagt: fyrir henni var sannur lestur eitthvað sem hinn almenni lesandi (e. the common reader) gerði einungis og alfarið ánægjunnar vegna (ekki „til gagns“!).

Þessi ást á bókmenntum sem hún hafði tjáir hún með hvað skýrasta og áhrifaríkasta hætti í Orlando. Hún er oft kölluð lengsta ástarbréf bókmenntasögunnar, en þá er átt við að bókin hafi verið ástarbréf Woolf til Vita Sackville-West, rithöfundar sem hún átti í ástarsambandi við. Sackville-West var þannig að einhverju leyti fyrirmynd Woolf fyrir titilpersónuna. Hún er þó mun flóknari en svo. Því Orlando virðist eiga lítið sameiginlegt með Sackville-West sem var víst bæði frekar lélegur rithöfundur og lesari. Ég tel frekar að það sé mest Woolf sjálf sem er að finna í persónunni, ásamt öðrum persónum í bókmenntasögunni og ég ræði betur neðar. Ég tel það þannig vera einstaklega lélega og misvísandi lýsingu á bókinni að kalla hana ástarbréf til Sackville-West. Því Orlando er vissulega ástarbréf –  en til bókmennta og lestrar fyrst og fremst.

Af þeim fimm ótrúlegu skáldsagna meistaraverkum sem Woolf skrifaði (Mrs. Dalloway, To the Lighthouse, Orlando, The Waves og Between the Acts) er To the Lighthouse kannski best og mikilvægust í bókmennta- og hugmyndasögulegu samhengi, sem eitt langmikilvægasta verk módernismans (væri þó hægt að færa rök fyrir Between the Acts einnig). Orlando er hins vegar langskemmtilegust og aðgengilegust. Ef einhverjum langar að lesa Woolf en er í vafa um hvar best væri að byrja þá er það hér. Engin spurning.

Orlando er, eins og flest verk Woolf, mjög tilraunakennd. Hvort hún flokkist beinlínis undir tilraunaskáldsögu (e. experimental novel) má þó deila um, en hún er satíra á ævisagnaformið þar sem rakin er ævi titilpersónunnar – og á sama tíma enskra bókmennta –  sem í byrjun er táningspiltur af aðalsættum á tímum Elísabetar I. Englandsdrottningar. Það á þó eftir að breytast eins og frægt er, en í gegnum þriggja alda viðburðarríkt ferðalag komumst við ekki einungis að því að persónan er greinilega ódauðleg, heldur skiptir hún einnig um kyn í miðjum klíðum.

Ég ætla í rauninni bara að láta þetta duga um basic söguþráð bókarinnar, því það er ekki í neinu plotti sem snilldin liggur. Það liggur öllu heldur í kómedíu, persónusköpun og framsetningunni á hinum ýmsu tímabilum enskra bókmennta – sem Woolf hefur augljóslega mikið dálæti á. Hún er raunar mest í essinu sínu og reiðir fram einhverja bestu kafla bókarinnar þegar hún sleppir algjörlega tökum á söguframvindunni og gefur sköpunargáfu sinni lausan tauminn. Það sem einkennir verkið öðru fremur er þessi mikla uppfinninga- og gamansemi, hálf-manísk sköpunargleði mætti jafnvel segja. Þó ekki á neinn óreiðukenndan hátt eins og mætti kannski ætla af slíkri lýsingu, en hún er á sama tíma meistaralega úthugsuð og skipulögð. En vegna þessa er Orlando bókmenntaverk sem á fáa sinn líka.

Það væri þá aðallega Don Kíkóti. Titilpersóna Woolf á margt sameiginlegt með ódauðlegri sköpun Cervantes, ekki síst ástinni á bókmenntunum sem er svo mikil að persónan lifir í sólipsískum fantasíuheimi.Þótt allar bækur séu alltaf í vissum skilningi um aðrar bækur fyrst og fremst, í gegnum áhrif og þess háttar, þá er sú staðreynd í nánast öllum tilvikum dulbúin í gegnum skáldskapinn. En í Orlando setur Woolf, eins og Cervantes, ekki upp neinn slíkan vegg eða hulu. Bókin er því milliliðalaust um bókmenntir og ástina á lestri.

Woolf nefnir sjálf ýmsa áhrifavalda sína í innganginum, sleppir þó að nefna Austen sem er áhugavert, kannski voru þau einfaldlega svo mikil og augljós að hún taldi enga ástæðu til þess. Af þeim er Laurence Sterne auðvitað mjög mikilvægur. En hvernig Woolf leikur sér á listilegan og gamansaman hátt með form skáldsögunnar og ævisöguna sem bókmenntagrein á augljóslega Tristram Shandy hans mikið að þakka. Aðrir áhrifavaldar sem hún sleppir að nefna eru rússnesku meistararnir (sérstaklega Tsjekhov, en einnig Tolstoj og Dostojevskí) og Henry David Thoreau sem hafði mikil áhrif á fagurfræði hennar.

Sú fagurfræði á þó Walter Pater, sem hún nefnir síðast, mest að þakka. Woolf gerir fagurfræðilega afstöðu Pater að sinni. Sá aesthetisismi gengur í rauninni ekki út á neitt annað en bara hreina og klára tilbeiðslu á listinni. Listin fyrir Woolf eru trúarbrögð. Hún skeytir litlu um háfleygar kenningar eða stórar heimspekilegar, trúarlegar eða siðfræðilegar hugmyndir. Snilld hennar liggur í djúpum og næmum skynjunum og tilfinningum, en í gegnum slíkan fókus nær hún brilliant og leiftursnöggum innsýnum inn í fyrirbæri eins og minningu og tíma – helstu þemu hennar. En slíkt er einungis hægt að tjá í gegnum listina. Fagurfræði hennar er svo róttæk að mannleg tilvist virðist einungis vera réttlætanleg og öðlast merkingu  í gegnum listina – fyrir utan listina er ekkert sem vekur áhuga hennar (apocalyptic aesthete heyrði ég hana einhvern tímann kallaða). Þar er hún auðvitað ansi nálægt Nietzsche.

Það er þess vegna sem mér finnst hálf einkennilegt að Virginia Woolf sé svo vinsæl meðal femínista. Því ég veit í rauninni um fátt sem er meira framandi femínískri gagnrýni en aesthetisismi Woolf.

Þá er oft fókusað á magnað verk hennar A Room of One’s Own, frekar en skáldsögurnar. Þar ræðir hún vissulega bág kjör og kúgun kvenna. Á sama tíma virðist hún hins vegar telja feðraveldið á einhvern undarlegan hátt vera nauðsynlegt þar sem sköpunargáfan eða einhver mikilvægur hluti hennar kemur frá hinu kyninu. Hún virðist meina að það sé ekki feðraveldið heldur Fyrri heimsstyrjöldin sem var vandamálið og setti allt úr skorðum. Ég átta mig ekki alveg almennilega á hvert hún er að fara með það, en það er þó einhver undarleg togstreita í verkinu sem gerir miklum vandkvæðum bundið að skilja það sem feminískt rit í einhverjum nútímaskilningi. Hún ræðir vissulega algjöra nauðsyn þess að konur hafi yfir að ráða eigin svæði til að þroskast og dafna – sitt eigið herbergi (sem hún meinar bæði bókstaflega og í bókmenntakanónunni). Það herbergi átti þó að hennar mati fyrst og fremst að nota til að lesa bókmenntir, að þróa með sér þá eiginleika sem sannur lestur krefst. Það myndi svo vonandi leiða til skrifa og bókmennta eins og hún skrifaði sjálf. Pólitísk, menningarleg og önnur róttæk gagnrýni og barátta var eitthvað sem hún var mjög áhugalaus um.

Hetja hennar var Jane Austen, en hún segist í einni ritgerð sinni dást fyrst og fremst að því hvernig hún gat risið upp yfir aðstæður sínar og skrifað með fullkomnu hlutleysi (e. disinterestedness) „án haturs, án biturleika, án ótta, án gagnrýni, án predíkunar“ – sjaldgæfur hæfileiki sem er aðeins á færi þeirra allra bestu og hún hafði sem takmark. Þessi löngun eftir og stefna í átt að einhverjum punkti handan félagslegs og sögulegs samhengis og utanaðkomandi áhrifa, hvort sem sá staður var einungis hugsjón eða eitthvað leiðarmark sem hún taldi að væri raunverulega hægt að komast fyllilega á, gæti varla verið meira á skjön við kenningar og stefnur innan femínisma og kynjafræði, hvort sem það er intersectionality, stand-point, eða annað.

Hvað þá sýn hennar á bókmenntir og smekk. Ég get varla ímyndað mér hvernig hún myndi bregðast við þessum algengu árásum í dag á Shakespeare og aðra kanónuhöfunda. Hvað þá hversu lítið fagurfræði er almennt höfð í heiðri í dag. Það væri heldur betur eitthvað. Tökum bara þessar hugleiðingar Orlando sem dæmi (sem koma fram eftir að hún skiptir um kyn):

Fyrsta skylda skáldsins er að standast slíkar freistingar, var niðurstaða hennar, því þar sem eyrað er forsalur sálarinnar getur ljóðlist spillt og eyðilagt markvissar en girndin eða byssupúðrið. Starf ljóðskáldsins er þar af leiðandi mikilvægara en nokkurt annað, hélt hún fram. Orð þess ná þangað sem aðrir komast ekki. Kjánalegt kvæði eftir Shakespeare hefur gert meira fyrir hina aumu og syndugu en allir prestar og prelátar í veröldinni

(bls.143)

Þarna er það auðvitað Orlando sem talar, frekar en Woolf, en hún tjáir ekkert ólíkar skoðanir í ritgerðum sínum.

Með aðalpersónu sem skiptir um kyn og framsetningu á kyni og kyngervi virðist Orlando þó bjóða upp á ýmsa feminíska- eða kynjafræðilestra. Það er auðvitað ekkert að þeim í sjálfu sér, það er eflaust ýmislegt áhugavert að hafa úr því. Mér finnst þó augljóst að undirliggjandi þessu – og öllu öðru í bókinni – er bókmenntir og lestur ofar öllu. Sú erótík og ást sem er til staðar hjá Orlando, hvort sem það er til rússnesku prinsessunnar Sasha eða absúrd skipstjórans Marmaduke, er augljóslega sólipsískar fantasíur einu raunverulegu persónu bókarinnar, sem er eins konar ódauðlegur, enskur, tvíkynja Don Kíkóti. Raunar myndi ég ganga enn lengra. Í ljósi endisins mætti raunar kannski kalla verkið sjálft útópíska fantasíu. Hvort sem að það er réttlætanlegt eður ei þá er Orlando fyrst og fremst gamansamur og ótrúlega frumlegur ástaróður til bókmenntalesturs – einn sá allra besti í mannkynssögunni. Skilningar á verkinu sem missa af eða líta framhjá því eru að missa af miklu.

Til að forðast allan misskilning þá er þetta engin gagnrýni á femínisma eða kynjafræði. Síður en svo. Mér hefur bara oft fundist Woolf vera einkennilegur samherji þar og að femínískir lestrar á henni (þeir sem ég hef lesið, hef auðvitað ekki lesið þá alla) missa oft af hinni sönnu róttæku snilld hennar – en hún liggur í skáldsögunum fyrst og fremst, ásamt bókmenntagagnrýni hennar (þótt það megi stundum ýmislegt út á hann setja – ekki síst hvað henni fannst um Joyce!)

Þýðingin er svo einnig mjög vandlega unnin og á skilið mikið hrós. Þetta getur ekki hafa verið neinn hægðarleikur. Woolf er auðvitað mjög lýrískur rithöfundur (The Waves t.d. er í rauninni meira prósaljóð heldur en skáldsaga). Það ásamt frægum stíl hennar sem einkennist af mjög lúmskum húmor og íroníu, hlýtur að hafa gert það að verkum að þýðingarvinnan var hausverkur – svo ekki sé meira sagt. Það er oft sagt um Woolf að hún hafi verið fullkomlega ófær um að skrifa lélega setningu. Er þar engu logið (ég er sannfærður um að orð Orlando „…allt gullið í Perú getur ekki veitt honum aðgang að fjarsjóði hinnar vel formuðu hendingar“ er eitthvað sem Woolf trúði í raun og veru). En þessari (að því er virðist) áreynslulausu snilld sem skrif hennar einkennast af nær þýðandinn vel.

Við getum sem dæmi borið saman lykilhluta bókarinnar, þar sem Woolf gefur merki um hvað bókin fjallar um fyrst og fremst:

Hann fékk snemma áhuga á bókum. Þegar hann var barn kom það fyrir að vikapiltur fann hann við lestur þótt liðið væri að miðnætti. Þegar kertið var tekið af honum fór hann að rækta ljósorma til að þjóna sama tilgangi. Þegar ljósormarnir voru teknir af honum hafði hann næstum því kveikt í húsinu með eldiviði. En svo við komum okkur beint að kjarna málsins, og látum skáldssagnahöfundum eftir að fara nánar í hina krókóttu sauma, þá var hann aðalsmaður sem var illa haldinn af ást á bókmenntum.

(bls. 68)

The taste for books was an early one. As a child he was sometimes found at midnight by a page still reading. They took his taper away and he bred glow-worms to serve his purpose. They took the glow-worms away, and he almost burnt the house down with a tinder. To put it in a nutshell, leaving the novelist to smooth out the crumpled silk and all its implications, he was a nobleman afflicted with a love of literature.

Þetta er til fyrirmyndar.

Það eina sem ég hef í rauninni út á að setja við þessa útgáfu er blessaða kápan. Nú var myndin alveg góð, og ég er alveg jafn hrifinn af Tilda Swinton og aðrir. En væri ekki hægt að sýna smá meiri metnað þegar slíkt verk er annars vegar?

Orlando er eitt allra skemmtilegasta meistaraverk heimsbókmenntanna sem hefur mikið að segja okkur í dag. Einn mikilvægasti boðskapur þess fer þó ekki nógu hátt. En það er mikilvægi lesturs og bókmennta, í raun og sanni eldheita ástin til þeirra. Og ekki bara bókmenntanna heldur skáldskaparins. Það er eitthvað sem við þurfum nauðsynlega að heyra í dag. En fyrir Woolf skipti skáldskapurinn ekki bara máli. Hann skipti einfaldlega öllu máli.