Fjögur textakorn

VEFSTÓLAR

Upp úr kjallaranum voru teymdar tíu brúnar konur og fólk greip um andlit sín í hryllingi. Þær báru hlekki um ökklana eftir að hafa verið tjóðraðar með keðjum við vefstóla. Þær voru færðar á lögreglustöð hvar þeim voru gefnar bollasúpur og teppi lögð um axlir þeirra. Teppin höfðu þær ekki ofið sjálfar heldur aðrar brúnar konur, hlekkjaðar við aðrar vefstóla í fjarlægu landi. Eftir að árangurslaust hafði verið reynt að taka skýrslur af konunum voru þær á ný teymdar út í lögreglubíla og þeim ekið að háreistri byggingu. Þangað inn voru þær svo teymdar og þær hlekkjaðar við heitavatnsofna og handrið. Þá kom það sér vel að hafa ekki losað hlekkina af þeim til að byrja með, heldur aðeins að losa þá af bölvuðum vefstólunum.

ÁIN

Í sveit nokkurri á Norðurlandi er á. Yfir ána liggur vegur svo þar er brú. Hverja nótt skolar áin brúnni á brott. Og hvern dag er brúað á ný. Ávallt á þessum sama stað, ávallt með sama lagi. Öllum hlutaðeigandi fellur þetta vel. Þeir sofa vel ofar í sveitinni. Skrölta svo hvern morgun niður að brúarstæðinu, grípa verkfæri sín og taka til við að brúa. Í þessari sveit er lífið gott þrátt fyrir tíð flóð.

SKEMMAN

Börnin voru dregin fram úr rúmunum, klædd í skó og leidd um bæinn á náttfötunum að skemmunni þar sem björgunarsveitin geymdi jeppann sinn og sleðana. Þegar þangað var komið var gengið úr skugga um að þau væru þar öll. Jú, öll nema Anna Möllu sem var inni á Akureyri hjá ömmu sinni. Við svo búið var þeim smalað inn í skemmuna. Sum þeirra grétu, þreytt og ringluð, í hamaganginum. Enginn hinna fullorðnu sagði neitt. Börn æptu nöfn foreldra sem ekki svöruðu. Þegar börnunum hafði öllum verið stjakað inn í skemmuna var henni lokað og læst að utan með hengilás. Síðan lagðist fullorðna fólkið á bakið á jörðina og horfði til himins. Þau virtust ekki heyra köll barnanna innan úr skemmunni, eða höggin á hurðina og rúðurnar. Börnin reyndu að brjóta rúðurnar með verkfærum en plastið var of seigt og þau ekki nógu sterk. Hamagangurinn stóð langt fram undir morgun þegar síðustu börnin voru orðin svo örmagna af gráti, hrópum og slætti að þau lognuðust útaf. Um hríð var alger ró yfir þorpinu. Einstaka mávur gargaði niðri við höfn. Svo kom póstbíllinn. Þá stóð fullorðna fólkið upp. En það opnaði ekki skemmuna. Hún var ekki opnuð framar. Einn góðan veðurdag var þorpið horfið. Sisvona, ekkert nema tóftir. Hengilás í grasinu.

Í MATSAL Á TOGARA

Hvaða djöfulsins vitleysisgangur er þetta? spyr fyrsti vélstjóri hryssingslega og bítur í kleinu. Hristir höfuðið dálítið. Hann er grannur karl með sinabera framhandleggi. Enginn, svarar bátsmaðurinn í afsökunartóni. Mér finnst þetta bara fallegt. Hann heldur um kaffifant og virðir fyrir sér hendurnar. Ætlarðu kannski að fara að mæta í pilsi á dekkið? Vélstjórinn hnussar til áherslu. Nei, segir bátsmaðurinn, ég ætla ekkert í fjandans pilsi út á dekk! Honum rann eldsnöggt í skap því hann klæðir sig ekkert upp í kvenföt og hvern andskotann kemur það strákunum við þótt hann finni ró í því að lakka neglurnar. Enn hnussar í vélstjóranum sem nú bryður mjólkurkex. Háseti skrúfar upp í útvarpinu. Fréttir, tilkynnir hann feginn. Karlarnir hlusta á fréttirnar, þaraf einn með sægrænsanserað naglalakk.