Bentu í austur, bentu í vestur

Ég er mættur í nudd í fjallaborginni Baguio á Filippseyjum. Guðrún hafði pantað fyrir okkur bæði á sama tíma. Hún er á bekknum við hliðina, einungis þunnt tjald á milli, og ég sé í kollinn á henni framundan tjaldinu. Svei mér þá ef þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég fer í nudd erlendis og eftirvæntingin hríslast um mig.

Að baki eru strembnir dagar í krefjandi borg, Manila, þar sem ég hafði verið á ráðstefnu. Þennan morgun höfðum við vaknað fyrir fimm til að losna við mesta umferðarþungann og komast á skikkanlegum tíma á rútustöðina. Það tókst, okkur til mikils léttis vorum við komin á stöðina um klukkan hálfsex og nægur tími til að ná sexrútunni. En þó að klukkan væri ekki meira og enn myrkur var þarna ys og þys sem miður dagur væri. Við vorum ekki fyrr komin út úr leigubílnum með farangurinn en starfsmaður á plani segir við okkur: „Other Victoria Liner.“ Og það fékkst staðfest í miðasölunni skömmu síðar: Leigubílstjórinn hafði farið með okkur á ranga stöð jafnvel þótt starfsmenn hótelsins hefðu útlistað fyrir honum áfangastaðinn á tagalog-tungu innfæddra. „Ég trúi þessu ekki!“ segir Guðrún sem hafði sinnt samskiptunum að mestu og er þeim mun svekktari. Undireins erum við lent í klónum á öðrum leigubílstjóra sem hefur séð ráðleysið í fasi okkar. „Ég treysti honum ekki,“ segir Guðrún þar sem við eltum hann í gegnum öngþveitið á planinu, minnug varnaðarorða innfæddra. Samt eltum við hann yfir götuna og að bílaplani milli akreinanna. Þar vísar hann okkur á leigubíl sem við setjumst upp í. Við erum komin út í umferðina, sem eykst með hverri mínútunni, þegar við áttum okkur á því að í bílnum er engan gjaldmæli að finna. Þess í stað er bílstjórinn klóki með verðhugmynd: 300 pesóa. Guðrún heldur nú ekki, við hefðum bara borgað 100 frá hótelinu, hvort hann vildi að við færum úr? Þá bauð hann 200 og við samþykktum það með semingi, þetta voru jú ekki nema 600 krónur eða svo. Gaurinn skilaði okkur samt á réttu stöðina á nokkrum mínútum og því náðum við rútunni klukkan sex eftir allt saman, vorum komin upp í fjallaborgina um klukkan hálftvö.

Flóttamaður frá Sýrlandi hafði leiðbeint okkur að hótelinu sem við höfðum pantað herbergi á eftir ábendingu frá ráðstefnuhaldaranum. Sýrlendingurinn var með lítinn dreng með sér og mér fannst hann allt að því óþægilega hjálpsamur. Netbókunin hafði ekki skilað sér en við fengum herbergiskytru eigi að síður. Sem við göngum frá hótelinu okkar áleiðis að miðbænum tekur Guðrún eftir nuddstofu, fer inn og þegar hún kemur út aftur segist hún hafa pantað handa okkur nudd seinnipartinn. „Í mínu boði,“ segir hún kankvís.

Það er tilhlökkunarefni að láta líða úr sér á bekknum eftir gönguna um miðbæ Baguio. Þetta er borg sem Manilabúar flýja gjarnan upp til á heitum sumardögum, ekki síst hinir efnameiri, og meðan Bandaríkjamenn réðu ríkjum á eyjunum fluttu þeir á tímabili stjórnarráð sitt þangað upp eftir til að forðast hitann á láglendinu. Mengunin er þó síst minni en í Manila, reykspúandi jeepneyar fylla göturnar svo stybban ætlar mann alveg að drepa. Daginn eftir huldum við meira að setja vitin. Upphaflega höfðum við ætlað að fara lengra í norður, alla leið að hrísgrjónastöllunum frægu í Banaue, en sökum þess að fellibylur hafði gengið yfir þann hluta eyjarinnar nokkrum dögum áður var okkur ráðið frá því, vegirnir væru slæmir og hætta á aurskriðum. En Baguio væri í lagi og það stendur heima. Borgin launar líka ferðalagið, magnað hvernig hún hangir utan í þokumistruðum hæðum og svo eru þarna áhugaverð söfn og kennileiti eins og við komumst að daginn eftir.

Okkur hafði fyrst verið boðið jurtate. Síðan vorum við leidd niður í kjallara þar sem okkur var fenginn baðsloppur og einhver vöndull. Ég spurði stúlkuna hvort við ættum að fara úr öllu og hún jánkaði því. Þegar við höfum afklæðst förum við fram á bleikum sloppunum með vöndulinn í hendinni. „These are disposable underwear,“ segir stúlkan hálfvandræðalega og bendir á óopnaðan vöndulinn í hendinni. Guðrún spyr hvort við eigum að fara í nærhaldið og enn er jánkað. Við hunskumst þá aftur inn í skiptiklefann og togum þessar örbrækur flissandi upp í klyftir. Því næst erum við leidd inn í nuddherbergi þar sem tveir bekkir standa hlið við hlið og tjald að hluta til á milli eins og þokuslæða á milli fjalla. „Sir, face down,“ segir nuddkonan smávaxna og lyftir lakinu eftir kúnstarinnar reglum. Ég rétti henni sloppinn og leggst. Hún er fagmannleg á svipinn, ákveðin en samt ímynda ég mér að henni sé skemmt yfir vestræna karlinum sem er lagstur þarna á bekkinn í þessu skondna nærhaldi, risastór í samanburði við hana og snjakahvítur í þokkabót.

Það er eitthvað við það að láta ókunnuga manneskju snerta sig. Þá máist út skilsmunurinn á okkur og hinum, hinu persónulega og hinu ópersónulega. En um leið getur hann verið ítrekaður. Nautnin er sársaukablandin á köflum og allur gangur á því hversu vel manni tekst að slaka á. Stundum tekst mér alls ekki að yfirvinna óþægilega mikla meðvitund um nærveru annarrar manneskju, er stöðugt að velta fyrir mér hvað henni finnist nú um þann ófullkomna líkama sem liggur þarna eins og slytti og hvað hún lesi úr honum. Fyrir æfðum höndum er maður eins og opin bók, veikleikarnir feitletraðir. Í þokkabót er kúnninn hið illræmda fyrirbæri miðaldra hvítur karl sem mörg af fræðum samtímans keppast við að finna löst á; hann þykist allt mega, allt geta og öllu ráða.

Svo veit ég ekki fyrr til en nuddkonan smávaxna er komin upp á bekkinn. Ég finn fyrir hnénu á henni milli fóta. Ég verð allur ein spurning þar sem ég ligg þarna á grúfu, þessu hef ég ekki lent í áður. Ekki minnkar furðan þegar hún tekur að nudda með hröðum strokum upp eftir lærunum og inn undir örbrækurnar. Í hverju er ég lentur?

Hún heldur vel áfram, nuddar með þéttingsföstum strokum sem eru þaulæfðar. Þótt ég njóti nuddsins eftir viðburðaríkan dag verð ég ofurmeðvitaður um að þarna mætast austrið og vestrið. „Þetta eru viðskipti,“ segir Guðrún eftir á. „Já, en hún tók bara þriðjung eða fjórðung af því sem tekið er fyrir sambærilega þjónustu heima,“ segi ég. Guðrún bendir á að það segi ekki alla söguna, við séum stödd í austurlensku hagkerfi. Mér finnst ég samt vera holdtekning vestrænnar heimsvaldastefnu, vera skör hærra í stigveldi þjóðanna þótt aumur Íslendingur sé og að nuddkonan sé líka meðvituð um það. Hún reyni nú að geðjast mér á þann hátt sem hún haldi að þessi vestræni maður búist við af henni. „Þetta eru klárar stelpur,“ segir Guðrún og telur allt eins líklegt að þær geri út á þetta.

Það er ekkert út á nuddið að setja, það er frábært og ljóst að stúlkan kann til verka. Úr fangbrögðum hennar þykist ég geta lesið svolítið aðra afstöðu til líkamans en maður á að venjast heima en ekki biðja mig að koma þeirri afstöðu í orð. Eins og stúlkan sem nuddar Guðrúnu spyr hún öðru hverju hvort ég sé „ókei“, stundum spyrja þær nánast í sömu andrá líkt og þær séu á sjálfstýringu, og ég umla mitt jákvæði. Ég heyri að Guðrún segir sinni að hún megi taka fastar á sér. Ég er helst á því að biðja mína um að nudda betur á mér hálsinn, í ljósi hálsáverkans, en finn mig ekki í því, bæði af því mér finnst óþægilegt að segja henni fyrir verkum og af því að ég veit ekki hvort hún kann á slíkan áverka. Eftir á að hyggja má spyrja hvort ég hafi ætlað henni minni þekkingu en vestrænum nuddara.

Sir, face up now, segir nuddarinn nú og flýtir sér að breiða yfir augun á mér eins og hún vilji ekki að ég sjái framan í hana, hvað þá að ég geti náð augnsambandi. Guðrún biður um að tónlistin verði lækkuð aðeins. Ég hafði hugsað það sama.

Svo er tekið til óspilltra málanna aftur. Enn strýkur stúlkan upp undir brækurnar og svo nuddar hún líka kviðinn, nokkuð sem nuddarar á Íslandi hafa aldrei gert við mig. Ég þakka mínum sæla fyrir að vera ekki þrjátíu árum yngri og átta mig í leiðinni á því að ég á allt eins von á einhverju af henni sem rekja má til hugmynda minna um austrið. Hef ég gert mig sekan um óríentalíska hugsun? Ef svo er hef ég sýnt fram á að kenningar Edwards Said um sýn Evrópumanna á nýlendur sínar í austri séu ekki bara orðin tóm. Said taldi að þeir hefðu í rauninni skapað sína eigin útgáfu af Austurlöndum með því að lýsa þeim á vestrænum forsendum án þess að taka mikið mið af viðhorfum þess sem horft er á. Austurlönd Evrópumanna eru því viss skáldskapur. Austurlandabúar eru hinir og þeir eru ekki eins merkilegir og við. Þetta er þó ekki saklaus skáldskapur því að hann getur haft svipaða verkan og karllæg sýn á heiminn: augnaráðið eitt getur haft áhrif á þann sem horft er á, breytt viðkomandi með væntingum sínum og jafnvel þröngvað honum til athafna sem eru honum á móti skapi. Mér verður hugsað til viðtals sem ég tók einu sinni við indverskættuðu skáldkonuna Bharati Mukherjee. Hún er glæsileg kona, fremur dökk yfirlitum og sagðist iðulega hafa verið álitin vændiskona þegar hún bjó í Kanada, landi sem stærir sig af fjölmenningarlegu viðhorfi.

Samt gerir nuddkonan smávaxna í rauninni ekkert sem orkar tvímælis, hún býður mér ekkert umfram venjulegt heilsunudd. Það er bara ég sem hef dregið ályktanir út frá þreifingum hennar upp undir nærhaldið og klifri hennar upp á bekkinn.

„Sir, it is finished.“

En auðvitað var því ekki lokið í raun og veru. Ég átti eftir að vinna úr þessari reynslu: venjulegu líkamsnuddi sem varð að andlegri opinberun og kom upp um mig í leiðinni.

 

Birtist áður á Facebooksíðu höfundar.