Ameríski draumurinn í ljósi breska sósíalrealismans 

American Honey

Ein af áhugaverðustu myndum síðasta árs var American Honey eftir bresku leikstýruna Andrea Arnold. Það er ekki beint hægt að segja að hún hafi ekki fengið næga athygli, en frá því að Fish Tank kom út bíða gagnrýnendur með eftirvæntingu eftir hverri nýrri mynd frá henni. American Honey fékk þó ekki einróma lof gagnrýnenda, þrátt fyrir að jákvæð gagnrýni hafi verið í meirihluta (hún var t.d. í fimmta sæti á lista Sight and Sound yfir bestu myndir 2016).

Það er alltaf hætta á að virkilega góðar myndir týnist í verðlaunamyndaflóðinu í lok hvers árs, af ýmsum ástæðum. American Honey var einmitt talin vera líkleg til að gera stóra hluti á því sviði, en svo var eins og það fjaraði undan henni á leiðinni og aðrar góðar myndir tóku fram úr. Ég er ekki viss um að ég muni þessa atburðarás rétt, en einhvern veginn hef ég þann grun að myndin hafi farið framhjá mörgum þar sem hún var ekki tilnefnd til Óskarsverðlauna. Ef það er rétt hjá mér er það mikil synd þar sem Arnold reiðir fram einhverja athyglisverðustu rannsókn á stéttabaráttu, fátækt, kúgun kapítalismans og ameríska draumnum sem þessi gagnrýnandi hefur séð í einhvern tíma. I, Daniel Blake er þá auðvitað undanskilin, en þrátt fyrir að mynd Loach sé ólík American Honey um margt, eru þær báðar mikilvægt innlegg í hefð bresks sósíalrealisma, ásamt því að tala sterkt inn í nútímasamfélag og stéttabaráttu.

Arnold lætur myndina gerast í miðvesturríkjum Bandaríkjanna. Stéttaskiptingin sem Arnold tókst á við í fyrri mynd sinni Fish Tank, er að sjálfsögðu til staðar í Bandaríkjunum eins og í Bretlandi, þótt hún sé ekki eins sýnileg og viðurkennd – í Bretlandi er ríkari hefð fyrir strangri og flókinni stéttaskiptingu og félagslegri kúgun, sem lifir enn góðu lífi, en var áður fyrr svo fáguð og úthugsuð að margir sjá hana í dag í einhverjum óskiljanlegum rómantískum blæ (sjá Downton Abbey). Raunar mætti segja að hinn frægi ameríski draumur sé hugsjón sem þjónar gagngert því hlutverki að breiða yfir stéttaskiptinguna og félagslegt óréttlæti. Nema hvað American Honey býður upp á óvenjulegt sjónarhorn á stéttaskiptingu og kúgun, en í aðalhlutverki er hópur unglinga á eða nálægt botni samfélagsins, sem á litla sem enga möguleika til að bæta hag sinn, krakkar sem eru gleymdir og yfirgefnir, og auðveld fórnarlömb tækifærissinna.

Það tekst einstaklega vel upp hjá Arnold að nota einungis tvo alvöru leikara í aðalhlutverkunum (LeBeouf og Keough). Allir hinir, þar á meðal aðalpersónan, eru krakkar sem hún fann út á götu í svipuðum aðstæðum og bauð hlutverk. Þetta raunsæi gefur myndinni vissan hráleika sem ekki hefði fengist með hefðbundnum leikurum. Þegar krakkarnir koma t.d. fyrst í ríkramannahverfin eru viðbrögðin raunveruleg – þau höfðu í alvörunni aldrei séð slík hverfi áður. Háværu samtölin, rifrildin og fíflalætin eru einnig mjög sannferðug og stór hluti af vel heppnuðu andrúmslofti myndarinnar.

Aðalpersóna myndarinnar, sú sem myndavélin fylgir hvert fótmál, er Star (Sasha Lane), ung stúlka sem elst upp við fátækt, vanrækslu, misnotkun og vonleysi í krummaskuði. Hún kynnist í byrjun myndarinnar Jake (Shia LaBeouf sem verður að segjast eins og er að er magnaður í henni, afhverju er hann aftur svona hataður?), ungum manni sem vinnur við að keyra um miðvesturríki Bandaríkjanna með hópi af öðrum ungum krökkum og selja tímaritaáskriftir milli húsa – aðallega í ríkum hverfum. Jake sannfærir Star um að slást í hópinn þar sem hún kynnist þá Krystal (Riley Keough), yfirmanninum sem útvegar áskriftirnar og hirðir stærstan hluta ágóðans af allri sölu – sem er ekki auðveld vinna,  tímaritaáskriftir eru ekki beinlínis eftirsótt markaðsvara í nútímanum.

Reyndar finnst mér þessi vara – tímaritaáskriftir sem ekki nokkur maður hefur minnsta áhuga á –  vera fullkomið dæmi til að varpa ljósi á kapítalíska neysluhyggju og tilheyrandi sölu-,markaðssetningar- og auglýsingabransa. Eru ekki langflestar neysluvörur einmitt eitthvað drasl sem við höfum enga þörf á? Það krefst heils hers af há- og sérmenntuðu fólki í fullri vinnu hjá gígantískum fyrirtækjum sem velta hundruðum milljarða og beita alls konar flóknum sérþróuðum aðferðum sem eru nánast orðin að sjálfstæðri vísindagrein til að sannfæra okkur um annað. Eru sögurnar sem krakkarnir búa til í sölunni ekki bara frumstæðari útgáfa af sama fyrirbæri? Leikstjórinn fékk hugmyndina að myndinni eftir að hafa lesið blaðagrein um slíka sölu og unga fólkið sem vann við hana, svo hugmyndin er ekki komin frá henni – en hún hlýtur þó að hafa séð hvernig þessi vonlausa athöfn varpar áhugaverðu ljósi á kapítalisma og neysluhyggju almennt.

Myndin hefur annars mjög lauslegan söguþráð. Við fylgjumst með Star og Jake fara í söluferðir, hefja ástarsamband með meðfylgjandi drama, og lenda í ýmsum ævintýrum og hættum, ásamt föruneyti sínu.

En í henni rannsakar Arnold ýmis þemu í ljósi þeirra togstreita sem eru alltaf undir yfirborðinu en brjótast fram í vissum lykilsenum á áhrifamiklan hátt. Ein aðaltogstreitan er á milli annars vegar sorglegrar og vonlausrar efnahags- og félagslegrar stöðu krakkanna sem við fylgjumst með (það fyrsta sem Krystal spyr Star er hvort einhver muni sakna hennar), rútan sem þau keyra um í er gömul drusla og allar senur inn í henni einkennast af yfirþyrmandi innilokunarkennd – en hins vegar geisla krakkarnir af lífi og gleði í einstaklega fallegum náttúrulegum umhverfum. Þessi andstæða undirstrikar á kraftmikinn hátt kúgun samfélagstengslanna sem þau eru föst í og firringu þeirra frá lífsmátum sem bjóða upp á meiri heilindi.

Krystal sem rekur áskriftasöluna er ein áhugaverðasta persónan. Í fyrsta lagi þarf að nefna að persónan er leikin af barnabarni Elvis Presley – sterk skilaboð í sjálfu sér því hvað er amerískara en Kóngurinn? Hún er fengin til að tjá holdgervingu hins arðrænandi kapítalista sem hirðir allan ágóða af vinnunni og sér vinnufólkinu einungis fyrir lágmarksframfærslu. Það á þó aðeins við þá sem standa sig ásættanlega, en allir eiga alltaf von á að vera skildir eftir og annar fenginn í staðinn. Nóg er af umframvinnuafli.

Í lykilatriði kallar Krystal Star á sinn fund þar sem hún stendur í bikiníi með fána Suðurríkjasambandsins á meðan að Jake ber brúnkukrem á læri hennar. Það er ýmislegt áhugavert á seyði í þessu atriði. Í fyrsta lagi sýnir Krystal svo ekki verður um villst hver ræður og hversu vanmáttug þau eru gagnvart henni. Þessum tökum sem hún hefur mætti lýsa sem ígildi eignarhalds, sem er áhugavert vegna fána Suðurríkjasambandsins – Star er dökk á hörund sem gefur senunni skuggalegar vísanir. Ef ég les senuna rétt er Arnold að undirstrika að mörkin milli „frjáls“ vinnuafls í kapítalísku samfélagi og þrældóms eru ekki nærri því eins skýr og greinileg og almennt er talið. Hún leggur enn meiri áherslu á þetta í gegnum Jake, sem þrátt fyrir að vera hvítur, er samt á hnjánum að þjóna húsbónda sínum án mótmæla á meðan að hún virðir hann varla viðlits. Svo flækir Arnold málin enn meira á snilldarlegan hátt með því að láta Jake vera að bera á Krystal, hvíta kúgarann, brúnkukrem! Þetta er ekki hægt að skilja öðruvísi en vísun í menningarnám. Kúgunin nær langt út fyrir einfalda baráttu um vinnukjör – kapítalisminn ræðst einnig á sjálfa samsemd og menningu hinna kúguðu og gleypir hana með húð og hári. Þessi hugmynd er ef til vill undirstrikuð með hiphop tónlist sem heyrist mikið og hátt í gegnum alla myndina.

Á meðan að Jake samsamar sig hugmyndafræði kapítalismans (hann klæðir sig eins og bisniss maður í söluferðunum og spyr á einum stað hvort hann líti ekki út eins og Donald Trump – sú vísun gefur myndinni aukavídd í dag sem Arnold gat ekki séð fyrir á meðan á tökum stóð). Eins og áður segir hefur enginn áhuga á að kaupa tímaritaáskriftir – svo Jake (og hinir krakkarnir) eru í rauninni ekki að selja þær heldur sjálf sig. Þau ljúga upp alls konar dramatískum sögum um fjölskylduerfiðleika, sjúkdóma, o.fl., í þeirri von að ríka fólkið vorkenni þeim og kaupi (sem er mjög tragíkómískt, því krakkarnir hafa jú allir sannar sögur af alvöru eymd og erfiðleikum en þær virðast ekki fá hina ríku til að opna veskið). Jake er einstaklega góður í þessu og leitast við að kenna Star. Hún neitar þó að taka þátt í svindlinu og ljóstrar upp allan sannleikann um lygina í fyrstu söluferð þeirra.  Jake og Krystal reyna að sannfæra hana um að taka þátt í leiknum – sem stendur auðvitað bara fyrir leik kapítalismans – en hún neitar að gefa sig.

Fyrsta salan hennar kemur þegar vörubílstjóri býður henni upp í bílinn til sín að spjalla. Áhorfandinn fyllist strax væntingum um að eitthvað hræðilegt sé í vændum, en ótrúlegt en satt er bílstjórinn ekki einungis vingjarnlegur heldur einnig áhugamaður um tímarit sem hann kaupir af henni. Star vinnur því einn sigur gegn kerfinu með því að selja á sama tíma og hún heldur sjálfsvirðingu sinni og heiðarleika.

Annað lykilatriði hefst þegar að Jake og Star lenda í heiftarlegu rifrildi í einni söluferð og hún hoppar upp í bíl með þremur fullorðnum mönnum sem bjóðast til að kaupa af henni ef hún kemur með þeim í grillveislu. Eins og áður er þessi sena einnig full af spennu, sérstaklega þegar Star byrjar að drekka í miklu óhófi. Hún endar samt óvænt á því að Jake birtist með byssu sem hann miðar að mönnunum á meðan að hann og Star ræna þá. Eftir að þau hafa flúið og eru að keyra öskrar Star af gleði nokkuð áhugaverð orð: „I feel like I’m fucking America!“

Þetta tel ég vera lykilatriði. Nú virðist hún í fyrsta skiptið orðin gerandinn í eigin lífi – eftir heila ævi af því að láta kúga sig og svindla á sér – og vekur það með henni mikla gleði. Það er áhugavert að þetta kemur eftir að hún hefur framið glæp. Að hennar mati virðist allt umhverfi hennar einkennast af svindli á einn eða annan hátt. Hún vill ekki blekkja fólk til að græða pening fyrir Krystal, og láta þannig svindla á sér, en sú dökka sýn sem Arnold reiðir hér fram samanstendur af samfélagi fólks sem tekur aðra eða er tekið. Á sama tíma er engin heiðarleg leið upp í fyrri flokkinn. Þú þarft að blekkja, svíkja, eða niðurlægja þig sjálfan eða aðra til að komast þangað. Samfélagið samanstendur því af einstaklingum sem eru allir að reyna að svindla hvor á öðrum á allan mögulegan hátt til að komast ofar í göggunarröðina, og ameríski draumurinn er að vera sá sem svindlar á öðrum, því fleirum því betra.

En málin flækjast svo í því atriði myndarinnar sem er erfiðast áhorfs, þar sem Star hefur árangurslaust reynt að selja olíuverkamönnum tímarit allan daginn – en endar með að selja sjálfa sig einum af mönnunum – sem leiðir svo til endaloka sambands þeirra Jake. Þetta atriði vekur upp ýmsar óþægilegar spurningar. Því Star hefur ekki játað sig sigraða og gefið sig Krystal á vald – hún neitar að taka þátt í því alveg til loka myndarinnar. En samt lætur hún tilleiðast að selja sjálfa sig? Hvernig má það vera? Þetta má einnig túlka á ýmsan hátt, en ég gat þó ekki skilið þetta öðruvísi en, eins og í atriðinu með vísuninni í þrælahald, er Arnold á svipaðan hátt að draga fram hversu lítill munur er á sölu á vinnuafli í kapítalísku samfélagi og beinni sölu á afnoti á líkamanum (en frjálshyggjan sér einmitt engan mun þar á og boðar því lögleiðingu vændis sem atvinnugrein eins og hver önnur). Munurinn er þó töluverður að mati Star. Í seinna tilvikinu ræður hún ferðinni sjálf og þarf ekki að þóknast neinum yfirmanni sem skipar henni fyrir verkum til þess eins að arðræna hana. Jake aftur á móti sér ekkert athugavert við hið fyrra en gengur af göflunum yfir hinu seinna. Einhverjum finnst kannski slíkur samanburður gera lítið úr hryllingi vændis. Það er þó engan veginn ætlun leikstjórans, atriðið er hryllilegt. En, líkt og með vísunina í þrælahald í fyrri senu, þá varpar hún áhugaverðu ljósi á kúgunina sem á sér stað í fyrirkomulagi þar sem einstaklingur neyðist til að selja öðrum vinnuafl sitt   – eitthvað sem er okkur svo eðlilegt og sjálfsagt að við tökum oftast ekki eftir henni.

Annað dæmi um svipaða áherslu leikstjórans er þegar Star – í skýjunum eftir fyrstu söluna – fer út úr vörubílnum og er á leið til Krystal að afhenda henni peningana. Þá gengur hún framhjá vagni sem er fullur af kálfum á leið til slátrunar. Enn annað er það að samkeppni ríkir um hver selur mest. Þeir tveir sem selja minnst þurfa hinsvegar að slást eins og skylmingarþrælar hinum til skemmtunar – sú líking er kannski ekki eins frumleg og margt annað í myndinni en kemur þó punktinum vel til skila.

Í lok myndarinnar ná Star og Jake einhverjum sáttum án þess þó að taka saman aftur. Í partýi sem líkist helst einhverri samkomu frumbyggja (tengslin við náttúruna og frumstæðari lifnaðarhætti sem þegar hefur verið minnst á), afhendir Jake Star skjaldböku. Myndin endar á því að hún tekur skjaldbökuna niður að vatni, sleppir henni lausri, fer sjálf á kaf ofan í vatnið í langan tíma, og kemur svo upp aftur og dregur djúpt andann. Endirinn er nokkuð opinn. Þrátt fyrir að vera jákvæður er ljóst að Star er ekki að fara að lifa hamingjusöm til æviloka – enn sem komið er allavega. Hún hefur áttað sig á að hún á ekki samleið með hópnum og óvissan með litlum möguleikum tekur við. En hún hefur þó haldið tryggð við sjálfa sig – hún sveik ekki prinsipp sín og stóðst þannig þrýsting kapítalísks samfélags að því leyti. Það er vissulega lítill sigur í hinu stóra samhengi, en mikilvægur.

Að því leytinu til eru American Honey og I, Daniel Blake nátengdar. Báðar fjalla þær um nútíma baráttuna við að viðhalda reisn og sjálfsvirðingu í ómanneskjulegu samfélagi gegnsýrt af hugmyndafræði sem spillir mannlegum tengslum, útilokar aðra lífsmáta og heimtar ekki aðeins drjúgan hluta af tíma manneskjunnar – heldur hluta af sjálfi hennar einnig. Myndirnar tækla þessi þemu frá ólíkum sjónarhornum og löndum en þær eru (eða geta verið) mikilvæg framlög kvikmyndalistarinnar til stéttabaráttu nútímans. Það er ekki hægt að halda því fram að það sé neitt offramboð í dag á myndum sem bjóða upp á eins djúpa og frumlega samfélagsgreiningu og harða gagnrýni eins vel og hér er gert. En slíkar myndir, þegar þær koma, eru mjög mikilvægar. Kannski meira nú en nokkurn tímann áður.