Tsai Ming-liang er malasískur/kínverskur/tævanskur leikstjóri sem hefur hlotið verðlaun á helstu kvikmyndahátíðum heims. Meðal mynda hans eru Vive L’Amour (1994), What Time Is It There? (2001) og Stray Dogs (2013). Hér eru þrjár ástæður fyrir því að ég elska myndirnar hans:
1
Munið þið eftir atriðinu í Good Will Hunting þar sem Robin Williams segir „It‘s not your fault“ og Matt Damon segir „I know“ og Robin Williams segir aftur „It‘s not your fault“ og Matt Damon segir „I know“ og svo endurtekur Robin Williams sig aftur og aftur? Og fyrst lætur Matt Damon eins og Robin Williams sé eitthvað skrítinn, svo fer Matt Damon að hlæja en Robin Williams heldur áfram að endurtaka sömu setninguna. Og svo verður Matt Damon reiður. Og Robin Williams segir aftur og aftur með nákvæmlega sama hætti: „It‘s not your fault.“ Og svo fer Matt Damon að gráta. Stundum líður mér eins og ég sé Matt Damon og Robin Williams sé Tsai Ming-liang.
2
Rammarnir eru svo fallegir að það er erfitt að hætta að horfa á þá. Enda gefst tími til þess – skotin í myndum Tsai Ming-liang eru færri og lengri en gengur og gerist. Hvert atriði er oftast bara ein taka. Öllu er gefinn tími, áhorfandanum er treyst til að halda athygli. Það er aldrei „svindlað“ með því að koma nokkrum skotum fyrir í einni töku (eins og þegar persóna gengur úr víðmynd í nærmynd og breytir þannig einni töku í tvö skot). Þetta er ekkert flókið. Bara eitt skot sem við dveljum nógu lengi við til að taka allt inn. Og það lítur út eins og málverk.
3
Hægar myndir um hversdagslegt líf gæti hljómað eins og dans á jarðsprengjusvæði tilgerðar. Reynslan hefur gert okkur tortryggin gagnvart svoleiðis myndum. En sem betur fer býr Tsai Ming-liang yfir eiginleika sem aftengir þessar sprengjur: hann er fyndinn. Þótt skotin séu eins og málverk eru þau ekki búin til úr málningu heldur filmu og filman heldur áfram að ganga. Og allt í einu brotnar uppstillta málverkið upp. Eitthvað fyndið eða skrítið gerist. Einhver gengur óvænt inn í rammann, einhver gengur óvænt út úr honum, einhverjum mistekst að framkvæma einfaldar og hversdagslegar athafnir.
Myndir Tsai Ming-liang eru hægar. Þær lýsa hversdagslegum og við fyrstu sýn ómerkilegum hlutum. Fólk borðar, pissar og ráfar um. En þegar Tsai Ming-liang dvelur við þessi augnablik tekst honum að afhjúpa hversu skrítið er að vera manneskja. Í Stray Dogs standa karl og kona í algjörri þögn og horfa á listaverk. Flottur rammi, hugsar maður. Svo líða fimm mínútur af nákvæmlega sama skoti. Vá, skrítin ákvörðun. Svo líða tíu mínútur. Haha! Steik. Svo eru fimmtán mínútur liðnar og allt í einu fer maður að hugsa um hvað sambönd eru í eðli sínu ómöguleg og að fólk eyði lífi sínu í að reyna að tengjast en er eins og seglar sem reynt er að þrýsta saman á eins pólum. Og hvað við þráum hvert annað mikið. Og hvað allt er í eðli sínu ómögulegt. Og að maður verði aldrei hamingjusamur við að ná yfirborðskenndu markmiði eins og að finna maka, atvinnu eða peninga því undir öllu leynist eitthvert óleysanlegt vandamál sem fylgir því að vera til. Og hvað það er sorglegt en líka fallegt, og líka fyndið en samt alveg hræðilegt. Og þá grætur maður eins og Matt Damon í Good Will Hunting.