Hjá fjölskyldu minni hefur sú hefð skapast að um aðventuna fáum við okkur heitt kakó og smákökur þegar kveikt er á aðventukransinum. Börnin þrjú eru oft orðin nokkuð þreytt þegar athöfnin á sér stað seinni partinn á sunnudögunum fyrir jól og oft ærslasöm þegar við dælum í þau sykrinum. Það vill þannig oft verða að við þurfum á öllu okkar að halda við að halda ærslunum innan þolanlegra marka.
Nú vill svo til að ég tók að mér að rita pistil um Hátíð, nýja jólaplötu Hildu Örvars, og ákvað því að setja hann á í Spotify annan sunnudag aðventu og allt datt í lúnalogn áður en fyrsta lagið var búið. Börnin voru róleg allan tíman sem við sátum við borðstofuborðið og þegar börnin eru róleg þá eru foreldrarnir ánægðir. Hið sama endurtók sig þriðja sunnudag aðventu.
Á Hátíð fær Hilda í för með sér bróður sinn Atla Örvarsson hljómborðsleikara og tónskáld. Kristján Edelstein gítarleikara, Einar Val Scheving trommuleikara, Eyþór Inga Jónsson á Orgel og harmóníum, Gretu Salóme fiðluleikara, Ásdísi Arnardóttur á selló, Flaithri Neff leikur á írskar flautur og svo syngja Ívar Helgason og fyrrnefndur Atli raddir. Stephen McLaughlin, Kristján Edelstein og Kristinn Sturluson sáu um upptökur.
Á plötunni eru tíu lög sum þeirra eru lög sem eru Íslendingum þegar að góðu kunn en önnur eru það ekki, koma annar staðar að og hafa fengið nýja íslenska texta. Það er alltaf ánægjulegt þegar ný lög bætast í jólalagaflóruna. Svo líkur plötunni á áramótalaginu Nú árið er liðið.
Það fer ekki á milli mála hver er stjarna plötunnar. Rödd Hildar er forgrunni og það er ekki að furða Þar sem söngur hennar er mjög fagur, hún hefur góða stjórn og nægan karakter til að bera heila plötu ein síns liðs. Flutningur hljóðfæraleikaranna er hnökralaus, smekklegur og vandaður en satt best að segja alveg merkilega viðburðarlítill og að mestu laus við allt sem mætti kalla listfengi. Þetta á sérstaklega við gítarleikinn sem er yfir höfuð svo generískur að það hefði hreinlega mátt sleppa honum í flestum þeim lögum sem gítarinn kemur fyrir.
Hljóðheimurinn á verkinu er að mínu mati of slípaður. Áður en ég fékk nokkrar upplýsingar um hverjir gerðu hvað á hvað og notaðist við streymið á Spotify hélt ég satt best að segja að sum lagana væru spiluð á hljóðgervla. En, því er ekki fyrir að fara. Hvert einasta lag er flutt af færum hljóðfæraleikurum á lífræn hljóðfæri. Ég verð að segja eins og er að ég skil ekki alveg af hverju það er gengið þetta langt í hljóðvinnslu.
Efnið á plötuna er vel valið og ekki hægt að finna illa samið lag á henni. Ég er hrifnastur af laginu Þá jólin koma. Bæði er lagið gott og írsku áhrifin í útsetningunni eru skemmtileg. Umslagið er vel úr garði gert og ég hafði sérstaklega gaman af upphleyptu hrímrósunum á því. Allir textar og ljóð fylgja með í þar til gerðum bæklingi.
Hildu tekst það sem hún ætlaði sér með þessari útgáfu, að skapa jólaplötu sem hljálpaði hlustendum að slaka á í jólaerlinum. Hún á örugglega eftir að rata oft ofan á geislann þessi jól sem og um jól komandi ára.