Hinn óáhugaverði hugarheimur kvenna

Um daginn var ég eitthvað að sóa lífi mínu í að skruna eirðarlaust niður Facebook-vegginn minn, eins og maður gerir, og rakst þá á athugasemd íslenskrar útvarpskonu við bloggfærslu íslensks bókaútgefanda, sem gaf áður út bækur á Íslandi en gefur nú út bækur í Danmörku, og sæg af háðslegum kommentum sem hlykkjuðust niður af skrifum útvarpskonunnar. Hér var um að ræða núning milli afar klárs fólks – einnar klárustu útvarpskonu þjóðarinnar, að mínu mati, og manns sem gefið hafði út margar frábærar bækur á Íslandi – og því skautaði ég leifturhratt í gegnum bæði Facebook-þráðinn og bloggfærsluna, á þann yfirborðskennda og flausturslega hátt sem ég hef vanið mig á að nota þegar ég hraðles dót í símanum mínum. Og ég hikstaði á sama atriði og útvarpskonan: Ef marka mátti þessa hraðsoðnu yfirferð mína á bloggfærslu bókaútgefandans, þá gaf hann lítið fyrir bækur ítalska rithöfundarins Elenu Ferrante, þar sem þær lýstu „hugarheimi kvenna“ og hann væri, sem karlkyns lesendi, eðlilega miklu spenntari fyrir hugarheimi karla. Mér fannst þetta athyglisverð, og raunar býsna sláandi fyllyrðing, einkum í ljósi þess að ég hafði gjörsamlega hakkað í mig hverja einustu bók Elenu Ferrante, samtals sjö talsins, af sjaldgæfri innlifun, og þær voru nú á meðal uppáhaldsbóka minna – og samkvæmt fæðingarvottorði er ég karlmaður, eða að minnsta kosti einhvers konar afbrigði karlmanns. En þegar ég les skáldskap, þá er ég auðvitað bara manneskja, og þess vegna er svo frábært að lesa skáldskap; eina stundina erum við hvít, ítölsk kona í skáldsögu sem spannar stóran hluta 20. aldarinnnar; þá næstu erum við svört kona í ljóði sem lýsir hlutskipti þræla í Suðurríkjunum á 19. öld; nokkru síðar erum við svo japanskur karlmaður sem leitar logandi ljósi að týndri konu og horfnum ketti í smásögu eftir Haruki Murakami; og svo framvegis. Að lesa er að vera opinn fyrir því að breytast í hvaða manneskju sem er, og því fannst mér sú hugmynd, sem var undirliggjandi í bloggfærslu bókaútgefandans, að karlmenn væru einhvern veginn sólgnari í að lesa bækur sem lýstu hugarheimi karla, í rauninni ganga þvert á reynslu mína af því að vera lesandi; þegar ég les skáldskap er ég vissulega Sverrir Norland, hvítur, íslenskur karlmaður fæddur árið 1986 í smábænum Reykjavík, á Íslandi, en í krafti frásagnarlistarinnar breytist ég einnig í Elenu, aðalpersónu Napólí-fjórleiks Elenu Ferrante, rétt á meðan ég les bækurnar hennar, og þar með stækka ég og víkka sem manneskja, sem er aftur einmitt ástæða þess að lesandi fólk er svo oft víðsýnt og samúðarfullt fólk og hefur þann dýrmæta hæfileika að setja sig í annarra manna spor. Og það steiktasta var að þessi kynjamiðaða hugarheimapæling kom frá bókaútgefanda (manni sem ég var afar þakklátur fyrir að hafa gefið út fjöldamargar frábærar bækur á Íslandi); eðlilega uppskar þetta háðsglósur frá nokkrum greindum, lesandi konum á samfélagsmiðlasíðu útvarpskonunnar. Og fáeinar athugasemdir frá þeim sem báru blak af bókaútgefandum (allt karlmenn).

Og þetta sat í mér næstu daga: „Hugarheimur kvenna“, „hugarheimur karla“. Um hvað er rætt, akkúrat? Er í alvörunni einhver grundvallarmunur á þessu tvennu?

Að lesa bækur þegar maður er með flensu

Nýlega kom út á íslensku þriðja bókin í Napólí-fjórleik Elenu Ferrante, Saga af nýju ættarnafni. Það er Brynja Cortes Andrésdóttir sem þar snarar „hugarheimi kvenna“ á milli tungumála og það beint úr ítölsku. Ég hef því miður aðeins lesið fyrstu bókina í íslenskri þýðingu Brynju, og sú þýðing var afar léttleikandi og læsileg. Ef ég man rétt íslenskaði Brynja einnig nýlega Ef að vetrarnóttu ferðalangur eftir Italo Calvino, og fékk fyrir þá þýðingu, held ég, einhvers konar verðlaun; „Íslensku þýðingarverðlaunin“ eða eitthvað svoleiðis (það eru veitt svo mörg verðlaun í samtímanum að það er erfitt að halda yfirsýn um þau öll); og það þrátt fyrir að Italo Calvino hafi vitaskuld verið fastur í „hugarheimi karla“ og Brynja sé vitaskuld læst inn í „hugarheim kvenna“. Það má því teljast hálfgert kraftaverk að Brynju hafi tekist að þýða Ef að vetrarnóttu ferðalangur og það raunar svo vel að hún hlaut verðlaun fyrir verkið. Í tilviki Elenu Ferrante spillir varla fyrir að Brynja Cortes er kona, og Elena Ferrante er einnig, eftir því sem best er vitað, kona, og því er afar vel til fundið að fá Brynju (konu) til þess að lýsa á íslensku þeim hugarheimi kvenna sem er sérgrein Elenu Ferrante (annarrar konu), rétt eins og það liggur í hlutarins eðli að karlmönnum er í lófa lagið að þýða bækur eftir karlmenn milli tungumála, enda vandfundinn sá kvenkyns þýðandi sem býr yfir nægri athyglisgáfu til að halda einbeitingu við að flytja „hugarheim karla“ milli tungumála, enda vekur „hugarheimur karla“ ekki áhuga kvenna, ef frá er talin Brynja Cortes Andrésdóttir, og „hugarheimur karla“ höfðar bersýnilega einungis til karla, og því réttast að láta karla þýða bækur eftir karla, og konur þýða bækur eftir konur. Allt er í veröldinni tvískipt og þar er mannshugurinn að sjálfsögðu engin undantekning.

Ég kynntist bókum Elenu Ferrante fyrst fyrir nokkrum árum, þegar ég bjó í París, og las þá enska þýðingu, Days of Abandonment, veikur heima í hægindastól, á iPad, og fannst það algjörlega sturluð upplifun; í textanum var einhver ofsi sem fékk mig, sárveikan flensusjúklinginn, til að svitna af æsingi á spjaldtölvuskjáinn og lifa mig svo sterkt inn í sögu af konu, sem hálfpartinn missir vitið þegar elskhugi hennar yfirgefur hana fyrirvaralaust fyrir aðra konu, að líkamshitinn hjá mér, sem var alltof hár fyrir lesturinn, hækkaði um minnst heila gráðu í viðbót. Eflaust skýrir þetta að einhverju leyti hvers vegna ég, hrjúfur karlmaðurinn, heillaðist svo mjög af bókum kvenmanns um „hugarheim kvenna“: Ég var með bullandi hita og óráði þegar ég las Days of Abandonment í fyrsta skipti og hugarheimur minn þar með lítillega bjagaður; þar hefur orðið einhver sjaldgæf skörun við hugarheim kvenna. Hvernig sem því leið, þá angraði ég kærustuna mína með stöðugum yfirlýsingum um að hún yrði að lesa þessa bók næstu daga og vikur; þegar við vöknuðum á morgnana bauð ég ekki góðan dag heldur sagði: „Þú þarft að lesa Elenu Ferrante,“ og fyrir háttinn, um leið og við höfðum slökkt ljósin, hvíslaði ég: „Lestu Elenu Ferrante.“ Ég þaut einnig í gegnum Troubling Love og The Lost Daughter, og svo las ég auðvitað Napólí-fjórleikinn þegar hann tók að koma út á ensku – bækur sem hafa nú slegið í gegn í hinum enskumælandi heimi, einkum í kjölfar þess að James Wood, bókmenntagagnrýnandi The New Yorker, skrifaði mikla lofrullu um höfundinn, en James Wood er, líkt og nafnið bendir til, karlmaður, og því undraði ég mig lengi vel á því hvers vegna þessar bækur höfðuðu svo mjög til hans, enda hlýtur hann að kjósa heldur að lesa um „hugarheim karla“ (til að mynda bækur eftir Tolstoy). Ég velti vöngum um þetta lengi vel, en svo rambaði ég loks á skýringuna: James Wood hlýtur einnig að hafa verið með flensu fyrst þegar hann las Elenu Ferrante.

Konur eru amatörar

Enginn veit með vissu hver Elena Ferrante er í raun og veru og því hafa í áranna rás sprottið upp ófáar samsæriskenningar um að hún hljóti, svo fær rithöfundur sem hún er, að vera karlmaður. Að teljast megi nær óhugsandi að höfundur sem lýsir „hugarheimi kvenna“ á svo margslunginn og magnaðan hátt, sé í raun og veru kona; þ.e. að það blasi hreinlega við að til þess að lýsa hugarheimi kvenna með svo innsæisþrungnum hætti þurfi að kveða til flinkan karlmann. Ítalski höfundurinn Dominico Starnone, sem ólst einmitt upp í Napóli, hefur til dæmis árum saman þurft að sverja af sér ásakanir um að hafa ritað bækur Elenu Ferrante undir fölsku flaggi.

Ég las Ferrante um svipað leyti og ég las bækur annars höfundar, sem náð hefur alþjóðlegum árangri á síðustu árum, þ.e. hins norska Karl Ove Knausgård. Hann ritaði sex binda verk um sjálfan sig, Min kamp 1-6, samtals um 3.600 blaðsíður, og það er á margan hátt áhugavert að bera þann hugarheim karla sem hinn afar sjálfhverfi, en um leið ótrúlega ritfæri, Knausgård dregur upp á sínum sirka 3.600 blaðsíðum, við þann sirka 2.000 blaðsíðna hugarheim kvenna sem Ferrante – kona sem lýsir réttindabaráttu og átökum kvenna við karla í ítölskum fátæktarhverfum – færir okkur í Napólí-fjórleiknum. Í nýlegri grein, sem Siri Hustvedt birti á vefsíðunni Literary Hub og nefnist „Knausgård skrifar eins og kona“, lýsir Hustvedt pallborðsumræðum sem hún átti við Knausgård. Hún nýtti tækfærið til að inna hann eftir því hvers vegna aðeins ein þeirra hundruða vísana í verk annarra rithöfunda, sem lesandinn rækist á í Min kamp–syrpunni, væri vísun í verk eftir konu (Juliu Kristeva), og ekki stóð á svörum Knausgård: „Engin samkeppni,“ sagði hann. (Þ.e. „No competition.“) Punktur. Hustvedt furðaði sig á þessu svari, en tíminn var því miður einmitt hlaupin frá þeim og hún náði ekki að rekja garnirnar úr Knausgård hvað þetta atriði snerti; þ.e. hvort hann liti svo á að kvenhöfundar væru bara einhverjir amatörar.

Sem er athyglisvert í ljósi þess að lykillinn að velgengi bóka Knausgård er einmitt, að mínu viti (og líkt og Siri Hustvedt bendir réttilega á), sá að hann skrifar „eins og kona“ – ef við gefum okkur að sú fullyrðing hafi einhverja merkingu. (Með öðrum orðum: Bækur hans fjalla að stórum þræði um tilfinningar (sérsvið kvenna) – en það gera bækur Dostojevskí raunar einnig.) Í öðrum pallborðsumræðum, sem fóru fram á Norsku og bandarísku bókmenntahátíðinni í Noregi, á milli James Wood (þ.e. gagnrýnandans sem hampaði Elenu Ferrante í The New Yorker) og Knausgårds, lýsir sá síðarnefndi því í svolítið þjökuðu máli hvernig hann hafi í uppvexti sínum liðið fyrir að ná ekki að uppfylla hina norrænu karlmennsku-ímynd. Knausgård telur að það sem sé flókið sé „kvenlegt“, en hin klassíska karlmennskuhugmynd byggist hins vegar á einfaldleika, og þar vísar hann sjálfsagt til staðalímyndarinnar um hinn þögla, sterka. Og þar er einmitt komin fram svolítið skemmtileg þverstæða; metnaðarfullur höfundur, sem hefur margsinnis tekið fram í viðtölum að hann vilji takast á við flókin þemu í verkum sínum (og vera þar með kvenlegur), er þjakaður af minnimáttarkennd yfir því að vera ekki nógu karlmannlegur. (Auðvitað eru til óteljandi dæmi um hallærislega, karlkyns rithöfunda sem myrða naut, drekka óhóflega, fara illa með konur, fagna stríðsbrölti, stunda hnefaleika og önnur slagsmál, af einskærum ótta við að aðalstarfsgrein þeirra, skrifin, séu ekki nógu karlmannleg; Hemingway er auðvitað eitt frægasta dæmið, höfundur með ímynd sem elst hefur alveg sláandi illa.) En Knausgård segir (í þýðingu minni): „Að lesa var kvenlegt – Hvers vegna ertu að lesa? Strákar lesa ekki. Það er passíf, kyrrstæð iðja sem lýtur að tilfinningum. Og sem drengur viltu ekki búa yfir of mörgum tilfinningum, þú ættir ekki að hafa tilfinningar.“

Hugarheimur karla er sem sagt einfaldur og stílhreinn, helst gersneyddur tilfinningum, að minnsta kosti samkvæmt hinni klisjukenndu, gömlu hugmynd. Og þar með er hugarheimur karla varla mjög kræsilegt viðfangsefni í bókmenntum – dugar í mesta lagi í nokkrar njósnasögur eftir Tom Clancy og kannski fáeinar kúreka- og fótboltasögur. (Og auðvitað ekkert að slíkum bókum.) Ef allt væri með felldu ættum við, hinir gáfuðu lesendur heimsins, því einmitt að vera sólgin í að lesa bækur eftir kvenhöfunda; samt eru hillur bókasafna og -búða veraldarinnar að mestu skipaðar bókum eftir karlmenn.

Karlar sem lesa konur

Undanfarin ár hef ég reglulega rekist á greinar þar sem konur benda á að karla vilji ekki lesa bækur eftir konur – og í hvert skipti sprett ég upp úr sætinu og hugsa: Nú skrifa ég grein um allar þær bækur sem ég les eftir konur!

Ég man að fyrir sirka ári las ég til dæmis slíka grein á vefsíðunni Sirkústjaldið og þá gerði ég meira að segja lista yfir þær bækur eftir konur sem ég hafði lesið í sama mánuði; það vill raunar svo vel til að ég þarf ekki nema að rétt teygja vinstri handlegginn upp í hillu eftir minnisbókinni sem geymir þennan lista –

Allison Bechdel (Dykes to Watch Out for),

Auður Ava Ólafsdóttir (Rigning í nóvember í annað skipti),

Jhumpa Lahiri (The Namesake),

Guðrún Eva Mínervudóttir (Englaryk),

Maylis de Kerangal (Reparer les vivants),

Roz Chast (Can’t We Talk About Something More Pleasant?) –

uppskeran var greinilega afar rík þennan mánuðinn, en aldrei skrifaði ég samt greinina. Hvers vegna ekki? Vegna þess að mér finnst eitthvað ótrúlega hallærislegt við að gorta sig af því að lesa bækur eftir konur, eða var markmiðið hjá mér kannski að stimpla inn í höfuðið á öðru fólki að ég væri svo æðislega fínn og víðsýnn og vel lesinn gaur að ég læsi bækur óháð kyni og uppruna höfundarins? Auðvitað geri ég það! Ég veit svo sem ekki hvernig þessu er farið hjá öðrum lesendum – megnið af þeim lesendum sem ég þekki, þ.e. þeim sem raunverulega lesa mikið af bókum, eru vissulega konur, svo að þar flækist málið ennþá frekar – en næst þegar þetta umræðuefni, þ.e. að karlar lesi ekki bækur eftir konur, ber á góma á kaffistofunni þar sem þú vinnur eða í matarboði hjá vinum þínum, þá skaltu segja: „Já, en Sverrir Norland les reyndar fullt af bókum eftir konur.“ „Já, en hann er líka svo frábær …“ Og þá er málið leyst; nú hef ég loks komið þessu frá mér.

Að öllu gamni slepptu, þá held ég reyndar að það sé enginn sérstakur grundvallarmunur á „hugarheimi“ karla og kvenna í dag, árið 2016. Það er einfaldlega munur á hugarheimi mannfólks eftir aðstæðum þess og uppruna, búsetu, kynslóð, bakgrunni, menntun og öðru þess háttar – öllu því sem þýtur í gegnum huga þess yfir ævina – og verkaskipting kynjanna er ekki eins fastmótuð og hér áður fyrr. Mannsævin er ein löng, samfelld æfing í því að hugsa, óháð því hvort maður er kona eða karl, og hugarheimur sums fólks er víðfeðmur og stór, og hugarheimur annarra smærri, jafnvel skrælnaður af hatri og þröngsýni. Plús að svo líka – ef eitthvað vekur ekki áhuga manns við fyrstu sýn – er oft gott að lesa um það og kynna sér það betur. Vera forvitinn. Og þá lifnar áhuginn.

Og þá kem ég aftur að kveikju þessarar greinar: Bókum Elenu Ferrante. Í þeim dregur höfundurinn, af ótrúlegu öryggi, upp mynd af fjöldamörgum, sprelllifandi persónum, í örlagasögu tveggja vinkvenna sem spannar heilu áratugina – frá miðri síðustu öld og allt til nútímans – og ég hef sjaldan sogast með jafn rækilegum hætti inn í nokkra söguveröld. (Talandi um stóra söguheima: Harry Potter-bækurnar hafa raunar verið á leslistanum hjá mér árum saman og kannski ég taki þær fyrir næst, jafnvel þó að höfundurinn, J.K. Rowling, þekki einungis til „hugarheims kvenna“ og hafi þar með varla mikið að færa mér, karlyns lesandanum, hvað þá í bók sem fjallar um galdrastrák – og þar með „hugarheim galdrastráka“. Markhópurinn hlýtur að vera átakanlega smár.) En nóg um það, Bjartur hefur verið að gefa bækur Elenu Ferrante út á íslensku síðasta árið – en svo skemmtilega vill til að Bjartur er einmitt bókaforlagið sem bókaútgefandinn, sem ég nefndi hér í byrjun, stofnaði – og ég hvet alla, konur jafnt sem karla, til að lesa þær.

Hvers vegna? Jú, vegna þess að það er einmitt svo magnað að setja sig inn í hugarheim sem er svolítið ólíkur manns eigin, og hugleiða í leiðinni allt það hversdagslega ofbeldi sem kvenlíkaminn verður stöðugt fyrir, hversu ósanngjarnt það er að gáfaðar konur fengu lengi vel ekki notið sín í menntastofnunum á meðan meðalgreindir karlar klifu metorðastiga, og kynnast þeirri ógn sem stafar af því að vera sífellt umkringd gröðum, líkamlega sterkari karlmönnum, sem oftar en ekki bera til þín ofbeldisfullar kynferðisþrár. Reyndar mæli ég einkum með því að karlar lesi þessar bækur. Því reyndin er sú að við ættum einmitt að lesa um þann hugarheim sem er ólíkur okkar eigin. Það er galdur bókmenntanna: að veita okkur innsýn inn í hugarheim annarra. Kjarni þeirra og símikilvæg réttlæting tilvistar þeirra. Er það ekki augljóst?