Við spurningunni afhverju maður ætti að leggja stund á heimspeki eru ýmis góð og gild svör. Hægt væri að tína til ástæður eins og að ástundun heimspekinnar þjálfi gagnrýna hugsun sem er sérhverju lýðræðissamfélagi lífsnauðsynleg.[1] Einnig væri hægt að halda því fram að heimspekihefðin sé ein ríkasta og mikilvægasta hefð hugsunar í mannkynssögunni, sú sem hefur lagt hvað mest af mörkum til sjálfsskilnings okkar og því – þrátt fyrir að við lifum á tímum sem leggi mun meiri áherslu á praktískar og efnahagslegar niðurstöður frekar en djúpa íhugun – er nauðsynlegt að einhverjir haldi þessari hefð á lífi með því að lesa og kynna hina helstu hugsuði heimspekisögunnar.
Þessar ástæður eru góðar.
Önnur er sú að heimspekin auki lífsgæði okkar. Að með því að íhuga helstu leyndardóma tilvistarinnar leggur heimspekin okkur í té viss verkfæri sem við getum notað til að kljást við hina djúpstæðu óvissu og angist sem er nauðsynlegur fylgifiskur hennar. Það er ekki þar með sagt að heimspekin veiti okkur endanleg svör. Eins og frægt er enda flestar samræður Platons á því að viðmælendur Sókratesar – og hann sjálfur – eru engu nær um skilgreiningu á viðfangsefninu sem lagt var upp með. En íhugunin og leitin sjálf er markmiðið, ekki niðurstaðan, og sú leit dýpkar skilning okkar á tilvistinni og gerir okkur að betri manneskjum sem eru sáttari við hlutskipti sitt.
Þetta er önnur góð ástæða.
En ekki er öll heimspeki jafn jákvæð gagnvart tilvistinni og hlutskipti mannsins. Það er önnur hefð innan hennar sem tekur allt annan pól í hæðina og kollvarpar helstu grundvallar hugmyndum okkar um lífið. Þessa hefð mætti kalla svartsýnisheimspeki og vil ég ræða helstu fylgjendur hennar í eftirfarandi texta.
Schopenhauer & Zapffe
Þegar rætt er um svartsýni (pessimism) í heimspeki er Arthur Schopenhauer iðulega fyrsta nafnið sem kemur upp og því er nauðsynlegt að fjalla stuttlega um hann í byrjun.
Eins og frægt er taldi Schopenhauer mannlega þrá vera þjáningu. Undirliggjandi allri tilvistinni er viljinn sem skeytir engu um mannlega löngun eða von. Maðurinn er strengjabrúða frumspekilegs afls sem engin leið er að beisla. Hér er ástæðan fyrir orðspori Schopenhauers sem svartsýnis heimspekingi. Samkvæmt honum verður ekki hjá því komist að flest það sem við teljum mikilvægt, og nánast allar réttlætingarnar sem við notum til að útskýra gjörðir okkar, einkennist af tilgangsleysi, sjálfsblekkingu, mýtum sem við sköpum til að róa samvisku okkar, eða hreint og beint lygum sem við þó gleypum af því að við viljum ekki vita sannleikann.
Til að varpa ljósi á mannleg samskipti kemur Schopenhauer með dæmi um tvo broddgelti.[2] Að nóttu til verður svo kalt að broddgeltirnir neyðast til þess að hjúfra sig upp að hvor öðrum til að halda á sér hita. Hins vegar er þetta vandasamt þar sem ef þeir fara of nærri hvorum öðrum endar það í óbærilegum sársauka af augljósum ástæðum. Þeir geta þó heldur ekki haldið sér alveg frá hvorum öðrum af hættu við að krókna úr kulda. Þannig reyna þeir í sífellu að færa sig á milli tveggja slæmra kosta, í leit að einhvers konar jafnvægi sem sjaldan eða aldrei finnst. [3]
Ef Schopenhauer hefði sett endapunkt hér myndi hann verðskulda orðspor sitt sem frægasti svartsýnis heimspekingur sögunnar. En býður þó upp á von. Samkvæmt honum getur listin – og aðeins listin – brotið tímabundið hlekkjarnar sem viljinn klófestir okkur í. Í gegnum fagurfræðilega upplifun sleppum við í skamma stund undan viljanum og öðlumst frelsi frá honum. Þannig spilar listin sérlega mikilvægt hlutverk hjá Schopenhauer, það er ekki ýkjur að segja að listin – og fagurfræðileg upplifun okkar á henni – sé í raun og sanni tilgangur lífsins, eina merkingarbæra athöfnin sem við getum sagt að sé frá sjálfum okkur komið – óháð viljanum.
Schopenhauer er frægasti svartsýnis heimspekingur sögunnar. Ég tel þennan titil þó vera óverðskuldaðan. Því ef heimspeki hans er tekin alvarlega leiðir hún einmitt til mikillar róar, sáttar, jafnvel gleði yfir því að hinstu leyndarmál tilvistarinnar séu leyst, og meðferðin við angistinni skýr: fagurfræðileg upplifun. Schopenhauer er vissulega neikvæðari í garð tilvistarinnar samanborið við aðra fræga heimspekinga, t.d. Kant, Aristóteles eða Hegel. En heimspeki hans skilur okkur þó eftir með eitthvað tilefni til bjartsýni og vonar. Þessi von er einmitt það sem síðari svartsýnis heimspekingar gagnrýndu hann helst fyrir.
* * *
Peter Wessel Zapffe er heimspekingur sem – þrátt fyrir að vera ekki alveg óþekktur – er hluti af tilvistarstefnunni sem hefur ekki fengið þá athygli sem hann á skilið. Því þrátt fyrir að Zapffe virðist við fyrstu sýn vera langt frá t.d. Sartre, Heidegger og Camus, þá byrja þeir allir á sama upphafspunkti: manninum sem veru sem kastað er inn í framandi umhverfi. Zapffe tók tilvistarstefnuna í áttir sem þeir hefðu verið ósammála, en heimspeki þeirra opnaði dyrnar að möguleika sem Zapffe tók óhræddur út á endastöð.
Í frægasta riti sínu, Om det tragiske[4], setur Zapffe fram gríðarlega neikvæðu heimspeki sína. Samkvæmt honum er mannskepnan mistök náttúrunnar, slys sem hefði aldrei átt að verða. Ástæðan er sú að mannskepnan er gangandi þversögn. Maðurinn öðlaðist á vissum tímapunkti fyrir mörg þúsund árum meðvitund, eiginleika sem vestrænir heimspekingar eru vanir að lofsama og – eftir Descartes og nýöldina sérstaklega – beina þeir þá oftast athyglinni að skynseminni. Í heimspekisögunni hefur skynsemin verið helsti bjargvættur mannsins; sá eiginleiki sem skilur okkur frá dýraríkinu og gerir okkur kleift að lyfta okkur upp á hærra plan íhugunar og þekkingarleitar.
Þetta er svo sem rétt. En fyrir Zapffe er meðvitundin fyrst og fremst tragísk örlög – byrði sem maðurinn einn þarf að bera. Ólíkt dýrunum þá upplifir maðurinn sig utangátta og heimilislausan. Meðvitundin hefur gert hann brottrækan úr garði náttúrunnar – eins og dæmisagan úr fyrstu Mósebók tjáir einnig. Meðvitundinni fylgja óhjákvæmilega djúpar langanir eftir merkingu, viðurkenningu og svörum við spurningum um tilvistina sem hún getur ekki uppfyllt. Á sama tíma á hann ekki heima á meðal dýranna, þrátt fyrir að vera dýr sjálfur. Hann er því alltaf að reyna að vera eitthvað annað en hann er og getur í rauninni ekki annað vegna meðvitundarinnar og skilningsins sem er álög sem honum myndi farnast mun betur án. Á þennan hátt er hann gangandi þversögn, slys, afleiðing stökkbreytingar sem voru mistök og hafa gert líf mannskepnunnar að botnlausum hryllingi. Hann skilur hvorki sjálfan sig né hlutverk sitt á jörðinni og er því sífellt plagaður af djúpri angist.
Slík mistök eru ekki einsdæmi í náttúrunni. Zapffe tekur dæmi af löngu útdauðri tegund af elg sem þróaði svo stór og þung horn að þau drógu höfuð hans niður til jarðar og gerðu honum ókleift að lifa. Maðurinn er bara annað dæmi um slík mistök af náttúrunnar hendi.
Ef Zapffe hefur rétt fyrir sér og tilvistin er botnlaus hryllingur þá vaknar þó vissulega upp sú spurning hvernig í ósköpunum svo margir geti komist í gegnum lífið í sæmilegri sátt – eins og vissulega er raunin. Svar hans er að mannskepnan hefur í grófum dráttum fjórar aðferðir til að takast á við hlutskipti sitt: einangrun, akkering, truflun og tilfærsla. Hann kallar það einangrun þegar við einfaldlega bælum niður eða útilokum neikvæðar hugsanir og tilfinningar. Akkering er þegar við bindum okkur föst við vissa hugmynd sem kemur í framhaldinu til með að stýra athöfnum okkar og sjálfsskilningi. Hugmyndirnar sem hann nefnir í þessu samhengi eru: Guð, kirkjan, ríkið, siðfræði, örlög, lífslög, fólkið og framtíðin. Við getum einnig einbeitt öllum okkar kröftum á eitthvað eitt markmið og komið þannig í veg fyrir að hugsun okkar beinist inn á við. Þetta nefnir hann truflun. Síðasta aðferðin er það sem hann kallar tilfærslu en þá er orku beint í jákvæðari farveg með því að gefa henni útrás í gegnum til dæmis listsköpun eða heimspeki. Zapffe er meðvitaður um og viðurkennir að hann beiti sjálfur þessari aðferð með því að skrifa verk sín. En tilfærslan er jafnframt sjaldgæfasta aðferðin sem maðurinn beitir til að þola örlög sín.
Engu skiptir hvaða aðferð af þessum fjórum maðurinn reiðir sig á, niðurstaðan er ávallt sú sama. Hann er enn sem fyrr fórnarlamb aðstæðna sinna og það er engin leið fyrir hann að hefja sig upp fyrir ástand sitt. Það er aðeins ein útgönguleið: sjálfsvíg og vildi Zapffe meina að nútíma aðferðafræði sem gangi út á að koma í veg fyrir sjálfsmorð og sannfæra fólk um að lífið væri þess virði að lifa væri hrein villimennska. Sjálfsvíg er að hans mati fullkomlega eðlilegt og rökrétt svar við hryllingi tilvistarinnar. Af þessum ástæðum aðhylltist Zapffe and-natalisma, stefnu sem gengur út á að maðurinn eigi ekki að eignast fleiri börn og á hann þannig skipulega og kerfisbundið að vinna að eigin útrýmingu til að forða komandi kynslóðum frá hinni óumflýjanlegu þjáningu sem er nauðsynlegur fylgifiskur tilvistarinnar.
Einnig væri hægt að kalla þessa stefnu neikvæða nytjastefnu þar sem – ólíkt nytjastefnunni sem leitast við að auka hamingju sem flestra – markmiðið er öllu heldur að minnka þjáningu eins mikið og mögulegt er. Ef þessu markmiði er fylgt út á endastöð er aðeins ein niðurstaða.
Ligotti og hryllingssagan
Zapffe hefur nýlega fengið heldur óvæntan liðsauka úr bókmenntaheiminum. Thomas Ligotti, sem hefur hingað til aðallega verið þekktur sem hryllingssagnahöfundur, gaf nýlega frá sér einskonar heimspekirit, The Conspiracy Against the Human Race, þar sem hann lofar Zapffe í hástert og er ritið tileinkað honum. Ligotti tileinkar sér afstöðu Zapffes svo til óbreytta en styður hana með dæmum úr ýmsum áttum, til dæmis heimspeki, bókmenntum, vísindum og austrænum trúarbrögðum.[5]
Ligotti ræðir sérstaklega heimspekinginn Thomas Metzinger og nýlega kenningu hans um að sjálfið sé blekking sem eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. Samkvæmt Metzinger hefur enginn, hvorki fyrr né síðar, nokkurn tímann haft sjálf. Við höfum öllu heldur það hann kallar fyrirbærafræðileg sjálf (phenomenal selves), sem birtast í vitund okkar. En þetta sjálf er ekki áþreifanlegur og fastur hlutur. Öllu heldur er það ferli, það sem hann kallar „gagnsætt sjálfs-módel.“ Það sem hann á við með að það sé gagnsætt er að við sjáum í gegnum þetta módel, sem kemur einmitt í veg fyrir að við skiljum það til hlítar og því höfum við ávallt talið okkur hafa eitthvað sem við köllum sjálf.[6] Ligotti telur þessa kenningu styrkja og staðfesta afstöðu Zapffes þar sem hún sýnir fram á að við séum föst í blekkingu sem engin leið er út úr. Metzinger er þannig á sömu bylgjulengd og Zapffe þar sem þeir halda því í rauninni báðir fram að mannskepnan sé þversögn sem gangi um sannfærð um að hún sé eitthvað sem hún er ekki. Nauðsynlegt er þó að taka fram að Metzinger sjálfur deilir ekki svartsýni Zapffes um stöðu mannskepnunnar.
Ligotti vill einnig meina að viss tegund af hryllingssögum hafi löngum tjáð sömu lífsafstöðu og Zapffe setti fram. Hann gerir þó greinarmun á tvenns konar hryllingssögum. Fyrsta flokknum væri hægt að lýsa á þann veg að hann fjalli um hrylling í heiminum. Það er að segja, einhver óvænt ógn – oft yfirnáttúruleg – birtist allt í einu og setur heiminn úr skorðum. Takmarkið er að þá forðast og/eða útrýma þessari ógn svo heimurinn komist aftur í fyrra horf. Þessi ógn er oftast morðóður geðsjúklingur, vampírur, uppvakningar, varúlfar, stökkbreyttar manneskjur, skrímsli af öllum stærðum og gerðum, o.s.frv. Þessar sögur þekkja allir, hvort sem það er í bókmenntum eða kvikmyndum.
Hinn flokkurinn er sjaldgæfari og fjallar – í staðinn fyrir hrylling í heiminum – um heiminn sem hrylling.
Mikilvægur undanfari slíkra sagna er Edgar Allan Poe. Sögur hans – eins og allir sem hafa lesið hann kannast við – snúast einna helst um að vekja upp ákveðna dökka og drungalega stemmingu. Oftast er engin hefðbundin ógn í sögum eins og The Pit and the Pendulum, The Fall of the House of Usher og The Masque of the Red Death, og jafnvel þegar sú er raunin verður andrúmsloft sagna hans þó ekki smættað niður í hana – það er heimurinn sjálfur sem er drungalegur og fullur af skelfingu. Í verkum hans birtist þannig ákveðin sýn á heiminn. Einnig enda þær nánast ávallt á neikvæðan hátt og skilja lesandann eftir í ákveðnu svartsýnis, skelfingarástandi.
Poe hafði ákveðna kenningu um bókmenntir. Samkvæmt honum á höfundurinn að hafa alveg skýrt í huga sér nákvæmlega hvaða áhrifum hann er að reyna að ná fram í lesendanum. Öll sagan, hvert einasta orð, á að miða að því að vekja upp þessi áhrif. Allt sem kemur því ekki við þarf að fara. Það er þess vegna sem Poe taldi smásöguna vera betri vettvang fyrir skrif sín heldur en skáldsöguna. Þegar lesandinn getur lesið alla söguna í einni setu þá hefur höfundurinn meira tak á honum, sem Poe taldi að yki áhrifin. Í ljósi ævi Poes, en hún einkenndist einna helst af vonbrigðum, harki, örbirgð, látnum ástvinum og veikindum, kemur það ekki á óvart að sögur hans beri merki um svartsýna lífsafstöðu hans. Hryllingur, geðveiki, sjúkleiki og dauði eru þar fyrirferðarmest.
Í einu frægasta ljóði sínu, The Conqueror Worm, lýsir Poe leikriti „vonar og ótta“; tragedíu þar sem strengjabrúður elta vofu í hringi en ná henni aldrei. Síðan birtist rautt skrímsli sem étur brúðurnar. Í lokin kemur í ljós að leikritið nefnist „Maðurinn.“ Hetja þessa leikrits er maðkurinn.
Helsti áhrifavaldur Ligottis er þó H.P. Lovecraft. Lovecraft var raunar svo áhrifamikill að hann skapaði nánast sjálfur heila undirgrein bókmenntanna: furðusögur (weird fiction), og skrifar Ligotti einnig meðvitað innan þeirrar greinar. Í sögum eins og The Call of Cthulhu, The Dunwich Horror og The Dreams in the Witch House, leitast Lovecraft einnig – eins og Poe – við að skapa visst andrúmsloft óvissu, ótta og skelfingar. Ótti þessi beinist alltaf að hinu óþekkta, þess sem er rétt úr sjónmáli, og vekja sögur hans þannig upp fleiri spurningar en svör. Þær fjalla oftast um sögupersónu sem slysast inn á braut sem leiðir til einhvers konar forboðnar þekkingar. Leit þessi endar ávallt á annaðhvort dauða eða geðveiki.
Sögur Lovecraft eru vettvangur þar sem hann setur fram sérstaka mýtólógíu sína, mýtólógíu sem væri í rauninni hægt að lýsa sem eins konar and-trúarbrögðum. Á meðan trúarbrögð byggja á von á einn eða annan hátt þá snýst Cthulhu-mýta Lovecrafts öllu heldur um vonleysi. Samkvæmt henni eru ævafornar verur, „hinir gömlu“, undanfarar mannskepnunnar á jörðinni. Þær yfirgáfu þó jörðina fyrir mörg þúsund árum en sögur Lovecraft fjalla oft um endurkomu þeirra í náinni framtíð – sú endurkoma táknar endalok mannskepnunnar. Maðurinn veit um tilvist þessara vera í gegnum brot úr fornum ritum og munnmælasögum, en hann hefur rangtúlkað verurnar sem hliðhollar manninum og því tilbiður hann þær sem Guði. Sannleikurinn er hins vegar sá að þær skeyta í besta falli engu um manninn, og í versta falli eru þær fjandsamar honum. Þessi mýta Lovecrafts tjáir þannig mjög neikvæða sýn á stöðu mannsins í alheiminum, alheim sem er honum fjandsamlegur og alveg sama um vonir hans og þrár. Það er einmitt þessi þekking sem leiðir til geðveiki aðalpersóna sagna hans – sannleikurinn um hlutskipti sitt er of mikið fyrir manninn að bera.
Eins og áður segir skrifar Ligotti meðvitað innan þessarar hefðar. Sögur hans, eins og Songs of a Dead Dreamer og Grimscribe, fjalla einnig um hið ósagða, einhvers hryllings sem er undirliggjandi tilverunni og aðeins hinir hugrökku þora að horfast í augu við, alltaf með neikvæðum afleiðingum. Allri merkingu og tilgangi er kastað út um gluggann. Ef einhver tilgangur er til staðar er hann svo skrýtinn og framandi allri mannlegri hugsun að hann hjálpar okkur ekki neitt hvort eð er. Í nýlegu viðtali við The New Yorker segir Ligotti að það sem hann reyni að tjá í sögum sínum sé að heimurinn stefni ekki í átt að hörmungum, hann sé nú þegar dauðadæmdur.[7]
* * *
Þetta yfirlit ætti að nægja til að sýna fram á að heimspeki og bókmenntir eru ekki alltaf sáluhjálp sem leiðbeinir okkur í að gefa lífinu merkingu og tilgang. Margir hugsuðir hafa verið á öndverðri skoðun og talið hlutskipti okkar vera með öllu vonlaust og einkennast helst af hryllingi. Aðeins hinir hugrökku þora að horfast í augu við það – allir aðrir eru að blekkja sjálfa sig.
Hvað ályktun ættum við að draga af því? Nú geri ég ráð fyrir að flestir vilji hamingjusamt og merkingarbært líf. Væri þá best að sleppa því að lesa þessa rithöfunda?
Ég tel að það myndu vera mistök. Fyrir utan fagurfræðilegt gildi verkanna, sem er töluvert í öllum þeim sem hér hafa verið til umræðu, þá tel ég að svartsýnisheimspekina ætti að líta á sömu augum og efahyggjuna. Alveg eins og að efahyggjan og óttinn við hana hefur í gegnum heimspekisöguna verið uppsprettan að mörgum helstu og áhrifamestu heimspekikenningunum, t.d. hjá Descartes, Kant og Husserl, þá ættu heimspekingar einnig að taka svartsýnisheimspekina alvarlega sem áskorun. Því það er alls ekkert augljóst eða sjálfgefið að lífið sé þess virði að lifa, hafi tilgang og merkingu o.s.frv. Hún er tiltölulega nýleg sú hugmyndafræði að náttúrulegt ástand mannsins sé hamingja og sátt, og allt annað sé frávik eða einhvers konar sjúkdómar. Það er afrek að komast á það stig að líta á tilvistina jákvæðum augum eins og margir, sérstaklega tilvistarspekingarnir, áttuðu sig á. Þessi spurning ætti aftur að vera eitt helsta viðfangsefni heimspekinnar og bókmenntanna og þeir aðilar sem hér hafa verið til umræðu hafa hjálpað okkur að sjá hver vandamálin sem þarf að takast á við eru.
[1] Martha Nussbaum hefur til dæmis fært rök fyrir þessu sjónarmiði. Sjá: Not For Profit: Why Democracy Needs the Humanities frá árinu 2010.
[2] Í ritinu Parerga und Paraliponema.
[3] Freud tók einnig þessa dæmisögu upp og er hún stundum kennd við hann.
[4] Þetta verk, sem var doktorsritgerð Zappfes, er betur þekkt í styttri útgáfu sem nefnist „Den sidste messias“.
[5] Glöggir sjónvarpsáhorfendur kannast e.t.v. við ofangreinda lýsingu á heimspeki Zapffes. Í sjónvarpsþáttunum True Detective fer persónan Rust Cohle (leikin af Matthew McConaughey) með línur sem fengnar eru úr riti Ligottis. Línurnar eru raunar svo keimlíkar skrifum Ligottis að aðdáendur hans hafa sakað höfund þáttanna, Nic Pizzolatto, um ritstuld. Pizzolatto viðurkenndi í kjölfarið að hann væri mjög hrifinn af Ligotti og var undir miklum áhrifum frá honum við gerð þáttanna.
[6] Sjá rit Metzingers Being No One. Fyrir umræðu um, og gagnrýni á kenningu Metzingers sjá: Zahavi, D. (2012) „Hið Margslungna Sjálf: Sjónarhorn reynslu og fræða.“ í Hugur. Henry Alexander Henryson ritstýrði. Björn Þorsteinsson og Jóhann Helgi Heiðdal þýddu.
[7] Vefslóð: http://www.newyorker.com/books/page-turner/the-horror-of-the-unreal?mbid=social_facebook