Ég biðst afsökunar fyrirfram. Í þessari grein mun ég fara ansi nákvæmlega í söguþráð nýjustu kvikmyndar Nicolas winding Refn, Neon Demon. Ég mun fara svo ítarlega í gegnum helstu hvörf og minni sögunnar að það er erfitt að ímynda sér að lesandinn hafi nokkra ánægju af kvikmyndinni eftir lesturinn.
(Reyndar upplýsi einnig um endinn á Ilminum eftir Patrick Süskind og Pink Flamingo eftir John Waters. Svona er ég óforskammaður.)
Mér til varna get ég þó sagt þetta: Neon Demon er leiðinleg og banal. Hana skortir allt innsæi og nálgun Refns á umfjöllunarefnið er svo grunnhyggið, bókstaflegt og súrrealískt á sama tíma að það sætir hreinni undrun. Því er hægt að halda því fram með nokkuð góðum rökum að þessi grein gæti á margan hátt aukið á ánægju lesandans, ætli hann sér yfirhöfuð að sjá kvikmyndina. Ég mæli þó ekki með því. Ekki þannig.
En svo Refn fái að njóta vafans, þá er myndin heillandi. Hún sat í undirrituðum. Svo mikið að hann fann sig knúinn til þess að eyða kvöldstund og skrifa þessa grein. Það er torkennilegur galdur í myndinni sem fær mann í það minnsta til þess að gúggla mannætur og dusta rykið af gömlum goðsögnum. Það er kannski eitthvað.
Þið hafið semsagt verið vöruð við.
Að því sögðu
Söguþráður myndarinnar er einfaldur. Sextán ára gömul stúlka, Jesse, leikin af Elle Fanning, sigrar tískuheiminn á undraverðum hraða. Hún er vopnuð sakleysislegri fegurð, eða einhverskonar hugmynd um sanna fegurð, sem gjörspilltur og innantómur tískuheimurinn fellur í stafi yfir.
Ef þetta væri rétt lýsing á söguþræði myndarinnar, værum við líklega með eitthvað áhugavert í höndunum. Því hugmyndin um sanna fegurð í gjörspilltum heimi tískunnar, þar sem allt snýst um öfgar, um eitthvað fallegra, er verðugur efniviður. Það er athyglisvert að skilgreina sanna fegurð í hringiðu æskudýrkunar og fals. Hún er eins og sakleysi fávitans í samnefndri bók Dostojevskís, þar sem Myskin afhjúpar gjörspillta borgarastéttina með eigin hreinskilni og einlægri nálgun. Hún er eins og barnið sem benti á að keisarinn væri nakinn.
En þetta er ekki sú mynd. Inni í söguna blandast tvær fyrirsætur sem eru bókstaflega í líki vampíra. Þarna er líka lesbískur förðunarfræðingur sem vill helst ríða Jesse. Þegar henni er hafnað breytist hún í náriðil. Refn lýsir raunar sjálfur myndinni sem hrollvekju. En ekki eru allt hrollvekjur sem innihalda mannát, þó að mannát sé almennt hrollvekjandi.
En byrjum á vampírunum
Fyrirsæturnar tvær koma snemma fyrir í myndinni. Rétt eftir að jesse er meðtekin í heim tískunnar. Konurnar eru sláandi fallegar. Þær eru þó ólíkar söguhetjunni að því leytinu til að þær eru búnar að breyta sér til þess að viðhalda eilífri æsku. Þær hafa farið til lýtalæknis og þannig glatað sakleysi sínu að mati Refns. Þær hugsa aðeins um framann, um að komast lengra, um að verða frægari og fallegri.
Og þó það sé of snemmt að tala um það, þá eru þær nokkuð sem Norður-Amerísku indjánarnir í Algonquian ættbálknum kölluðu Wendígó.
En meira um það síðar.
Fyrstu samskipti fyrirsætnanna tveggja við hina saklausu Jesse er auðvitað fullkomlega yfirborðskennt og nánast hlægilegt á margan hátt. Þær mæla út fórnarlambið og spyrja hana hvaða karlmanni hún sé að ríða. Hvort hún hafi riðið Yfirhöfuð. Hverjum hún gæti riðið. Hvort hún vilji ríða. Því einhvernveginn þannig skilgreina fyrirsæturnar eigin völd að mati Refns, sem sjálfur skrifar handritið ásamt tveimur meðhöfundum sem eru, þó óvænt sé, báðar konur. Þær heita Mary Laws og Polly Stenham.
Fyrirsæturnar tákna allt hið yfirborðskennda og innantóma í tískuheiminum. Þær eiga ævintýralega heimskulegar samræður um fæði og fegurð. Þær velta meira að segja fyrir sér mikilvægum tilvistarlegum spurningum eins og hvort þær séu kynlíf eða matur.
Samræðurnar eru ekki aðeins kvalafullar út af lélegu handriti, því stíll Refns, þessi ofurhægi ljóðræni stíll, þessi sem hægir svo mikið á öllum samskiptum að þau virðast á einhvern hátt búa yfir ríkum undirtexta, er í raun svo leiðinlega tilgerðarlegur að hann verður óþolandi til lengdar.
Því það er ekkert að finna í þögninni. Þar er engan undirtexta að finna. Ekki frekar en þegar freðinn fíkill leitar að næsta orði þegar hann reynir að sannfæra þig um skaðleysi kannabisnotkunar. Sumar samræður eru einfaldlega heimskulegar. Stílbragðið virkaði í Drive. Ekki hér.
En tölum aðeins um Keanu Reeves.
Hann er skínandi gott dæmi um misheppnaða persónusköpun Refns í myndinni. Persóna Reeves er frústreraður starfsmaður á mótelinu sem Jesse býr á. Hlutverk hans í myndinni er ansi nálægt því að vera tilgangslaust sé frátalið örstutt atriði þar sem hann er fengin til aðstoðar vegna þess að fjallaljón hreiðrar um sig í herbergi jesse (sem á líklega að vera einhverskonar skírskotun eða myndmál, en ég skildi ekkert. Besta ágiskun mín er sú að atriðið sé ígildi bregðuatriðis eins og finna má í hryllingsmynd. Ég lýsi allavega eftir betri kenningu).
Tilvist persónu Reeves, sem er gróflega ofnotuð, er svo réttlætt með hrottslegu ofbeldisatriði þar sem hann þvingar Jesse til þess að hafa munnmök við hníf. Atriðið bætir engu við söguna. Það skýrir ekkert sérstaklega persónu Reeves, sem er hlægilega illa leikin, Reeves gengur pirraður á milli húsa, urrar á fólk og sveiflar höndunum tilviljanakennt út í loftið í gremju sinni. Persónan er svo blæbrigðalaus að maður skildi nokkurnveginn um leið og maður sá óhreinan bol Reeves að um skítakarekter væri að ræða og að honum væri trúandi til þess að misþyrma konu kynferðislega með hníf.
Ofbeldisatriðið hefur þann eina tilgang að slá áhorfandann út af laginu. Jesse ber þess engin merki að vera í sérstöku áfalli yfir að hafa verið nauðgað. Enda kemur í ljós að um draumaatriði sé að ræða.
Semsagt; hugmyndin um að vera þvinguð til þess að hafa munnmök við hníf er sprottin upp úr saklausum huga jesse. Ég er ekki viss um að það gangi upp dramatúrglega séð, en látum það slæda, eins og Prins Póló orðar það.
Og þá að fegurðinni
Hugmynd Refns um sanna fegurð er einfeldnisleg. Ein persónan, karlmaður, útskýrir fyrir kærasta jesse, sem er vel að merkja eina vel heppnaða persóna myndarinnar, að fegurð sé ekki allt sem skiptir máli; heldur það eina sem skiptir máli. Hann bendir kærastanum ennfremur á að hann hefði aldrei tekið eftir Jesse úti á miðri götu ef ekki væri fyrir fallegt útlit.
Það er vægast sagt ungæðisleg (hr)útskýring á fegurðinni.
Atriðið undirstrikar hugmyndaleysi og skort á innsæi Refns varðandi fegurðina. Hann kastar heimskulegri fullyrðingu fram og vonar að áhorfendurnir séu nokkurnveginn jafn innantómir og gagnrýnislausir og umfjöllunarefnið sjálft.
Er fegurðin það eina? Á setningin að varpa ljósi á firringu iðnaðarins. Á einhverja geðveilu í hugmyndafræði tískuheimsins? Er fegurðin þá umbúðirnar einar? Tökum við bara eftir hvort öðru þannig?
En þarna afhjúpar Refn sig.
Myndin sprettur nefnilega upp úr sama innantóma jarðveginum og tískuheimurinn. Því tískuheimurinn er lítið annað en þroskahefti bróðir kvikmyndalistarinnar. Í það minnsta eins og hún birtist í sýn Refns. Og það er ljóst að ef tveir greindarskertir einstaklingar reyna að eiga gáfulegar samræður um háheimspekilegt málefni, þá getur tvennt gerst; það verður algjörlega stórkostlegt – og hreyfir heiminn ofurlítið úr stað – eða svo vandræðalega heimskulegt að manni verkjar í ennisblaðið.
Neon Demon fellur í seinni flokkinn. Því það vita allir að tískuheimurinn er innantómur. Það vita líka allir að hann er miskunnarlaus. Þar er engan nýjan sannleik að finna. Það er ekki nóg að vera fullur af heilagri vandlætingu. Má ég biðja um ögn frumlegri nálgun.
Auðvitað kemur svo í ljós að það eina sem kvikmyndin hefur upp á að bjóða er últraofbeldi.
Sem leiðir okkur loksins að mannátinu
Hvörf sögunnar bera mann ósjálfrátt að ilminum hans Süskind þar sem söguhetjan hellir yfir sig ómótstæðilegum ilminum í lok bókarinnar og er rifinn í sundur og étinn af vitstola bæjarbúum.
Í tilfelli Jesse eru það lesbískir förðunarfræðingurinn og mannætumódelin tvö sem éta hana upp til agna blinduð að sakleysislegri fegurð persónunnar.
Lesbíski förðunarfræðingurinn baðar sig upp úr blóðinu og horfir á mannætumódelin sem láta vel að hvor annarri í sturtu. Hugmyndin um módelin er orðin svo ruglingsleg á þessum tímapunkti að maður reynir að spara orkuna með því að sætta sig við það að þær séu klámmyndafyrirbæri, lesbíur, tæknilega hönnuð fegurð sem hefur glatað sakleysi sínu, vampírur, mannætur og tröllheimskar að auki.
Einhverstaðar lét eiginkona Refns, Liz Corfixen – en myndin er tileinkuð henni hafa eftir sér að Refn væri innblásin af ungversku greifynjunni Elisabeth Báthory sem komst í sögubækurnar fyrir að myrða allt að 650 ungar konur. Elisabeth á svo í einni af fjölmörgum ýkjusögum um hana (tala látinna er til að mynda álitin stórlega ýkt) hafa baðað sig upp úr blóði hreinna meyja til þess að viðhalda æskunni.
Í sem stystu máli er þessi líking glórulaus. Persónur og umhverfi myndarinnar eiga nákvæmlega ekkert sameiginlegt með hinni hryllilegu sögu Elisabeth fyrir utan þetta örlitla atriði þar sem kona baðar sig upp úr blóði. Við höfum raunar séð slík atriði ítrekað í gegnum kvikmyndasöguna. Þó sjaldnast hafi maður séð persónur fara bókstaflega í blóðbað. En það er lika hluti af banal stemningu myndarinnar. Þar mætast hið bókstaflega og hið súrrealíska.
Hún fer bókstaflega í blóðbað. Átti maður ekki örugglega að hlæja að orðagríninu?
Sem leiðir okkur loksins að hugmyndinni um wendígó
Sem eru einhverskonar djöflar eða púkar í trú Algonquian indjána. Púkarnir hafa mennska drætti og eru keyrðir áfram af öfgum og eilífu hungri. Þeir éta allt upp til agna. Fólk, umhverfi, sálir. Þeir eitra náttúruna og stækka við hvern bita þar til þeir eru orðnir að óseðjandi skrímsli. Wendígó er tískuheimurinn. Kimi sem eitrar veröldina. Wendígó eru mannætumódelin sem þurfa í sífellu meira til þess að viðhalda gerviveröld sinni. Þær éta hreina fegurð upp til agna og verða þannig sjálfar ómótstæðilegar.
Í langdrengu lokaatriði myndarinnar er hömluleysi wendígóanna undirstrikað þar sem önnur fyrirsætan ælir upp auga Jesse. Aðframkomin af sársauka sker hún sig sjálfa á hol. Hin fyrirsætan horfir líflaus á örlög vinkonu sinnar og endar myndin nokkurnveginn á því að herma eftir lokaatriði Pink Flamingo, fyrir utan að fyrirsætan étur ekki skít – sem hefði raunar hæft hugmyndinni vel – heldur uppældu auga.
Hér er vandinn.
Ekki aðeins er kvikmyndin að eiga heimskulegan díalók við þroskahefta bróðirinn sinn, tískuheiminn, heldur virðist leikstjórinn ekki hafa áttað sig á eigin tilvísunum. Fyrst kallar Refn myndina hryllingsmynd, sem hún er ekki, og svo ruglar eiginkona hans alla í ríminu og segir myndina einhverskonar óð til raðmorðingja frá sextándu öld, sem er ansi tæp fullyrðing. Það breytir þó ekki því að gagnrýnandi The Guardian étur vitleysuna hráa upp og vísar í þessa alræmdu greifynju, sem á satt að segja betra skilið, þrátt fyrir að eiga ekkert gott skilið.
Það sorglegasta við myndin er að hún er jafn innantóm og heimskuleg og efnið sem hún þykist gagnrýna. Ef myndin væri tískuþáttur í Glamour, þá væri lítill sem engin munur þar á. Raunar væri tískuþáttur með stillum úr myndinni líklega betri en kvikmyndin sjálf. Því hún er óneitanlega falleg.
Og þá spyr maður.
Hver er punkturinn? Hver er sögnin? Því ef þú ætlar að ráðast á einhvern heim, og lýsa yfir hallærislegri vandlætingu yfir að tískuiðnaðurinn sé lítið annað en eitthvað módelmannæturugl þar sem fegurðin er „það eina sem máli skiptir“; þá ertu líklega vitlausari en þeir sem þú ert að reyna að gagnrýna.
Því tískuheimurinn er eitthvað annað og meira. Hann er hluti af okkur sem manneskjum. Af þrám okkar og draumum. Leit okkar að fegurð. Þessari brennandi þrá að tilheyra samfélagi eða skera okkur út frá því. Að vera elskaður og dáður. Tískuiðnaðurinn er viðvarandi blekking. Hreyfiafl sem neyðir okkur inni í skapalónið sitt. List sem þvingar sig inn í hversdagsleika allra.
Niðurstaðan er því þessi:
Nicolas Winding Refn þarf að hætta að skrifa handrit. Hann er ótrúlega flinkur leikstjóri, og sjónræn hlið myndarinnar er mögnuð á köflum, en maðurinn er skelfilegur handritshöfundur.
Ef maður lítur framhjá öllu því sem myndin virðist eiga að vera, þá er er hún stílfærð mannætuhrollvekja sem hefur það að markmiði að drepa áhorfendur úr aulahrolli.