Bandaríska nóttin

um míníseríunna The night of

Bandaríska sjónvarpsþáttaröðin The Night of, sem er byggð á bresku sjónvarpsþáttaröðinni Criminal Justice, er eitthvað það albesta sjónvarpsefni sem undirritaður hefur séð lengi. Nú hef ég ekki séð Criminal Justice en mig grunar að fátt sé notað úr henni nema þá söguramminn og hugsanlega útlínur að persónum. Ástæða þess er einföld. Það er Richard Price sem skrifar The Night of og fingraför hans eru út um allt á þáttunum. Fyrir þá sem ekki þekkja hann þá er hann goðsögn meðal handritshöfunda. Meðal þekktustu verka hans eru sjónvarpsþættirnir The Wire (hann skrifar fimm þætti í seríunni) og kvikmyndirnar The Colour of Money, sem af mörgum er talin besta íþróttamynd allra tíma og Clockers sem Spike Lee leikstýrði og er byggð á samnefndri bók eftir Richard Price. Myndin er fín en bókin er gjörsamlega mögnuð. Sögusvið hennar er borgin Dempsey, sem er hugarburður Richards, en byggir á borgunum Newark og Jersey City. Í bókinni fjallar Richard um útistöður lögreglu við dópsala en það ríkir krakkfaraldur í Dempsey.  Richard eyddi tæpum tveimur árum í að kynna sér undirheimana við skrif bókarinnar og var hún innblásturinn að sjónvarpsþáttunum The Wire

The Night of er lögfræði/löggudrama. En höfundum þáttanna tekst að skapa eitthvað algjörlega sérstakt. Þetta er mínísería, þó mig gruni að einhvers staðar sé verið að vinna að því að gera framhald, í aðalhlutverkum eru John Turturro og Rhiz Ahmed. John Turturro hefur sjaldan verið betri á sínum ferli og það sama má segja um Rhiz Ahmed sem er einn af athyglisverðustu leikurum af yngri kynslóðinni í Bretlandi. Rhiz Ahmed leikur ungan mann í New York, af pakistönskum uppruna, sem er handtekinn og ákærður fyrir morð. John Turturro leikur lögmann sem sinnir aðallega fólki sem vinnur á götunni, dópsölum, smáglæpamönnum og vændisfólki. Fyrir sakir örlaganna tekst honum að ná til sín þessu morðmáli sem ratar á forsíður blaðanna og rifjar í leiðinni upp sárar minningar borgarbúa af ástandinu eftir árásirnar á Tvíburaturnanna 2001. Maður er eiginlega logandi hræddur við að spilla ánægju þeirra sem hafa ekki séð þessa þætti með því að gefa meira upp um söguþráðinn.

James Gandolfini var einn framleiðanda þáttanna og fór með hlutverk lögfræðingsins í fyrsta þættinum sem varð að taka aftur sökum þess að stuttu seinna lést hann skyndilega. Þá tók Robert De Niro að sér hlutverkið sem hann varð svo að bakka út úr sökum anna og John Turturro var loks ráðinn. (Einhvers staðar þarna úti á internetinu er að finna hinn svokallaða pilot eða frum/fyrsta þátt seríunnar með James Gandolfini fyrir þá sem hafa áhuga á því.) Svo verður að minnast á Michael Kenneth Williams sem lék hinn ógleymanlega karakter Omar í The Wire. Hann á líka stórleik í The Night of

Það er annar vel þekktur handritshöfundur og framleiðandi sem leikstýrir seríunni, fyrir utan einn þátt sem James Marsh leikstýrir, en það er Steve Zaillian. Eftir hann liggja handrit að myndum á borð við Schindler’s List, American Gangster og ekki síst The Falcon and The Snowman. Kvikmyndataka þáttanna er gjörsamlega mögnuð. Einhvern veginn tókst höfundum þáttanna að fá Robert Elswit til að skjóta nokkra þeirra; hann kvikmyndaði til dæmis There Will Be Blood og Frederick Elmes sem skaut Blue Velvet og Broken Flowers.

Þó The Night of feti kunnuglega slóð hvað varðar efnivið og sögu þá rígheldur sagan manni. Þetta er svo gott stöff að maður flissar eiginlega yfir hinum löggu og réttardrama þáttunum (óteljandi) sem birtast manni á sjónvarpsskjánum. The Night of tekur þá einfaldlega í bakaríið. Hér birtast manni örlög fólks í kerfi sem er löngu búið að tapa sjónar á hlutverki sínu. Einhvers staðar í þessari martraðakenndu, bandarísku nótt, sem Richard Price sýnir manni í öllum sínum hryllingi, er samt ennþá eitthvað mennskt á ferli.