Af gróteskum fávitum og góðum mönnum

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson sendi frá sér kverið Bréf, áeggjanir og hugleiðingar um lífsbrandarann síðastliðið vor. Ólafur, sem er fyrrum söngvari og helsti textasmiður hljómsveitarinnar Örkumls, hefur áður sent frá sér ljóðabókina Til dæmis undir höfundarnafninu Óguð. Hann hefur undanfarin ár fengist við skrif um bókmenntir og íslenskukennslu fyrir fullorðna. Hann er búsettur í Berlín, Þýskalandi.

Áður en lengra er haldið er best að gera því skil að ég og Ólafur störfuðum um árabil náið saman við gerð tónlistar í Örkuml. Þar sem samstarf okkar hefur ávalt verið á gagnrýnum nótum tel ég mig fullfæran til umfjöllunar um verk Ólafs.

Í fyrri hluta kversins ljær Ólafur fávita rödd sína. Þessi fáviti hefur orðið um of sýnilegur í samfélaginu eftir að margir fjölmiðlar settu Facebook plug in á vefsíður sínar. Fávitinn heldur að hann sé voðalega gáfaður og skilji það sem við hin skiljum bara alls ekki. Þessi vitleysingur er hins vegar oftast þjakaður af rasisma, kvenfyrirlitningu og auk þess óhæfur um gagnrýna hugsun. Oft fær fávitinn rök sín úr hinni góðu bók bókanna Biblíunni sem honum þykir miklu merkari en aðrar bækur. Vegna þess færir Ólafur honum rödd Biblíunnar til þess að undirstrika hvað fáránlegur og sannarlega gróteskur fávitinn er.

Í seinni hluta kversins hverfur Ólafur frá fávitanum og gróteskunni á einlægari slóðir. Hann minnist ömmu sinnar og hefur út frá minningu hennar pælingar um hvað getur falist í því að vera góður maður. Enda hvað getur skipt meira máli í lífinu en að reyna sitt besta að vera góður maður. Mér finnst það fara Ólafi vel að vera einlægur og hlakka til að lesa framhaldið sem á að halda áfram á einlægu nótunum.

Kverið er í dagbókarformi og í því er enginn söguþráður og vegna þess getur verið erfitt að lesa bókina í einum rykk. En hún er troðfull af verðugum pælingum og oft fyndin. Það er vel hægt að verja tíma sínum í verri hluti en að lesa þessa bók. Því miður finnst mér ólíklegt að þeir sem helst þyrftu að lesa hana muni nokkurn tíman opna hana og ef þeir geri það að þeir muni þá skilja hana.

Það þarf engum að koma á óvart að ég sé hrifinn af kverinu hans Ólafs. Við unnum jú lengi saman og hluti af því var vegna þess að mér líkaði sérlega vel við textagerð hans og ég hef beðið lengi eftir því að hann sendi frá sér skáldverk sem ég hef verið viss um að byggi í honum. Eins og áður segir þá hlakka ég til þess að lesa framhaldið af kverinu en verð að segja: Plííís Óli, skrifaðu skáldsögu sem fyrst!

 

 

Fyrr í haust birtist brot úr bókinni á Starafugli. Smellið hér til að lesa.