Gunnar Ragnarsson
Gunnar Ragnarsson, heima hjá Baldri vini sínum (og hinum söngvara Grísalappalísu). Úr seríunni „Þjóðsögur og ævintýr. Gestabók.“

Tónlist vikunnar: Sjálfhverfa frontmannsfíflið talar!

(ÓTRÚLEGA LANGT VIÐTAL VIÐ GUNNAR RAGNARSSON, GRÍSALAPPALÍSUNG)

Rokksveitin Grísalappalísa er með því skemmtilegra sem árið 2013 færði íslendingum. Virðast íslendingar almennt hallir undir þá skoðun, enda hafa hljómsveitarlimir ekki haft undan því að taka við allskonar viðurkenningum og svoleiðis upp á síðkastið. Þótti mér því kjörið að senda Gunnari Ragnarssyni, öðrum söngvara sveitarinnar, tölvupóst með nokkrum spurningum sem gaman væri að fá svör við.Meðal umræðuefna: Kóka Kóla, Megas, Mugison, Bubbi, Reykjavík, textar, Íslensku tónlistarverðlaunin, Jakobínarína, Singapore Sling, Fugazi, Púllaraspjallið, háskólahjal, textinn við Young Boys með Sin Fang og margt fleira.

Póstarnir milli okkar urðu ansi margir og þegar yfir lauk varð spjallið alveg næstum fimmþúsund orð, sem er mjög langt á alla mælikvarða. En það er samt skemmtilegt og ég mæli alveg með því að fólk leggi á sig að þrælast í gegnum textann ef það hefur minnsta áhuga á rokktónlist eða ljóðlist eða menningu og svoleiðis. Gunnar kemst skemmtilega að orði og virðist frekar góður í viðtölum, en það ber kannski að þakka reynslu þeirri er hann kom sér upp sem frontmaður Jakobínurínu, sem fyrir nokkrum árum varð næstum heimsfræg og gaf út mjög fína plötu (en hætti svo).

Hæ Gunnar,

takk fyrir að vera til í að gera svona ímeilspjall með mér. Já og til hamingju með alla þá viðurkenningu sem þín ágæta hljómsveit, Grísalappalísa, hefur hlotið upp á síðkastið. Ég hallast að öll þau athygli sem sveitin hefur hlotið sé verðskulduð, að innistæða sé fyrir þeim gífuryrðum sem fólk hefur uppi um gæði frumburðarins ALI og tónleikaframkomu ykkar og svona. Hvað finnst þér, ertu geðveikt hæpaður yfir þessu öllu? Og heldurðu að það séu einhverjar sérstakar ástæður að baki því að þið hljótið svona jákvæðar viðtökur fjölmiðla og gallharðra tónlistarunnenda?

Já, við erum mjög uppnumdir yfir þessu öllu. Uppskeruhátíð fyrsta útgáfuárs Grísalappalísu hefur eiginlega staðið yfir frá jólum. Viðurkenningar frá álitsgjöfum dagblaðanna, Kraumi tónlistarsjóð og útnefning sem besta tónleikasveit landsins frá Reykjavík Grapevine hafa glatt okkur mjög. Verðlaunin tvö á íslensku tónlistarverðlaunin kórónuðu þetta allt og var sérstaklega gaman að vinna fyrir besta tónlistarmyndbandið.

Það besta við þessar viðurkenningar var þó tækifærið til þess að kynnast og spila með Megasi í tónlistarverðlaunapartíi Reykjavík Grapevine. Betri verðlaun fyrir okkar störf gætum við ekki hugsað okkur. Fyrir nokkru spiluðum við svo þrjú gigg í Danmörku með dönsku hljómsveitinni Reptile Youth. Tónleikarnir gengu vægast sagt frábærlega; við spiluðum fyrir fullum 300-800 manna sölum og Danirnir tóku frábærlega í þetta og ögrandi og kynferðislega örvandi perfomansinn féll vel í kramið hjá ungum leitandi sálum. Við vorum svolítið að renna í blindan sjó, hvernig útlenskt krád myndi taka þessu íslenska röffrökkröfli en þetta gekk vonum framar og það gefur góð fyrirheit um að tónlistin okkar virki í stærra samhengi en 101. Svo fengum mjög fína dóma og umfjöllun í ýmsum dönskum miðlum.

Það að fólk sé að fatta það sem við erum að gera er ótrúlega gaman. Hluti af því hlýtur að liggja í þeirri gífurlegri vinnu sem stendur að baki, hvort sem það er tónlistin og upptaka á henni, textasmíðar, myndbönd, artwork, performans—þetta er allt sprottið frá okkur sjálfum og ber með sér ákveðna heildstæða fagurfræði sem lætur allt sem kemur frá okkur ríma við hvert annað. Ég myndi segja að með ALI höfum því verið að byggja ákveðinn hugarheim okkar, sem við ætlum að halda áfram að bjóða fólki í á næstu árum. Við komum inn í tónlistarsenuna með ákveðnum hvelli, sem mótuð hugsun. Hver er ég myndbandið var ákveðin yfirlýsing fyrir alla pælinguna. Við hlökkum til að synda dýpra í hugarástand Lísu á næstu árum og vonum að fleira og fleira fólk taki þátt og rétti okkur björgunarhringi þegar þörf krefur.

Grísalappalísa koma fram með átrúnaðargoðinu Megasi á tónlistarverðlaunahátíð tímaritsins Reykjavík Grapevine.

Grísalappalísa koma fram með átrúnaðargoðinu Megasi á tónlistarverðlaunahátíð tímaritsins Reykjavík Grapevine. Hæglega má sjá aðdáunina skína úr augum Gunnars er hann mænir á goð sitt. Mynd: Nanna Dís

Hvernig er það, finnst þér önnur bönd sem eru á svipaðri bylgjulengd, eða allavega af svipaðri staðsetningu í heiminum, ekki vera leggja sérlega mikla vinnu í sitt? Eða minni en þið? Hefur fram að þessu verið fólgin einhver skömm í tilbúningi og þannig metnaði, þ.e.a.s. þeim að leggja vinnu og hugsun í ímynd og framsetningu? Mér finnst hafa verið einhver hugsun í frammi undanfarin ár –allavega á þeim grensum sem þið þræðið – þar sem helst er leitað eftir því að hlutir séu sjálfssprottnir og „effortless“ einhvernveginn, að það að leggja vinnu í ímynd og framsetningu jafngilti einhvernveginn sölumennsku og sú sé sjálfkrafa af hinu illa. Svoleiðis hugmyndafræði er örugglega viðbragð við einhverju sem kom á undan, en ég vil kannski vita: tengirðu eitthvað við þetta? Þarf fólk að fara varlega í þessum efnum til að forðast að lenda röngum megin við einhverja línu? Er einhver lína?

Mér finnst þetta vera ákveðin heildarpakki, ef þú gefur út tónlist þá ertu alltaf að senda frá þér vöru sem er verslað með. Þetta er einfaldlega samhengið sem þú ert vinna út frá. Það felst því alltaf ákveðið val í öllu sem þú gerir, hvort sem það er að vera á móti „commercial“ leiðinni eða ekki. Hljómsveit eins og Fugazi, sem hafa alla tíð gert allt sjálfir og standa alfarið á eigin fótum, felur í sér þá ímynd að vera í andstöðu við markaðsöfl tónlistarbransans. Í öllu sem þú gerir felst því yfirlýsing og um leið ímyndarsköpun. Album-ið sjálft er náttúrulega format sem varð til út frá sölusjónarmiðum, það er ekkert sem segir að tónlistarmenn semji alltaf 7-12 lög sem þýði e-ð saman og mynda e-a heild.

Fyrir mitt leyti fylgir þessu því alltaf ákveðinn leikur, sem ég er mjög hrifin af. Það er ekki hægt að rjúfa tónlist frá samhenginu sem við lifum í, en málið er kannski að tónlist verður alltaf til þó að albúmið og poppmenning og kapítalismi munu falla – hún er mannskepnunni eðlislæg. Það sem ég er að reyna að segja, held ég, að listamenn geta farið í allar áttir með ímyndarpælingar í tónlist. Verið „commersjal“ eða „pönk“ listamaður – í framsetningunni felst alltaf ákveðin sölumennska, þó að hún sé anti-sölumennska. Ætli þessi kóka-kóla verðlaun hafi ekki súmerað okkur ágætlega upp, þar sem við erum svona ímyndar-meðvitaðir pönkarar. Kóka-kóla pönk!

Í spurningunni áðan sagði ég viljandi „fjölmiðla og gallharðra tónlistarunnenda“ frekar en t.d. „gagnrýnenda og almennings,“ sem ég hefði kannski einhverntíman gert. Það er af því að ég hef ekki tekið eftir því nýlega að það séu yfirleitt neinir gagnrýnendur að fjalla um músík á Íslandi, og þið eruð (enn sem komið) ekki sérstakar almannahetjur eins og Mugison eða Monsters og Men. Er það kannski bara rugl í mér? Hafið þið kannski fengið fullt af ígrundaðri umfjöllun í fjölmiðlum – eruð þið kannski Monsters and Men vinsælir? Hafiði verið spilaðir á Rás 2 eða Bylgjunni eða X-inu? Langar ykkur til þess að slá í gegn eins og rokksveitir gerðu í gamladaga?

Menningarumfjöllun á meinstrímmiðlunum á Íslandi er vissulega orðin mjög grunn og er búin að ná ákveðnu lágmarki undanfarið. Allt of mikið pláss fer í plögg og fréttir af frægðarförum Íslendinga erlendis. Þetta er kannski ágætis metafóra fyrir hvernig samfélagsumfjöllun virkar í heild sinni, það er einungis er litið á yfirborðið því það er of tímafrekt að líta á heildarsamhengi hluta og hvernig systemið virkar. Það er mikið af fólki sem er að reyna að vinna gegn þessu og ég fagna því—en ég veit ekki alveg hvernig við getum komið þessu inn í hið almenna samhengi. Við höfum fengið e-ð af ígrundaðri umfjöllun, ég býst svo sem við því að það aukist þegar verkin okkar verði fleiri og hægt verði að skoða þau hlið við hlið.

Tónlistin sem við erum að bjóða upp á reynir kannski svolítið að sporna við þessu, þessari yfirborðsmennsku og almennu innihaldsleysi sem er í allri poppmenningu. En þá komum við einmitt inn að vinsældunum og almenningshetjunum.

Framtíðarmarkiðin eru án efa að ná til eins breiðs hóps Íslendinga og mögulegt er—án þess að breyta hugmyndafræðinni bakvið Grísalappalísu. Mig langar án efa að ná Bubba eða Mugison vinsældum, það myndi þýða að áætlunarverk okkar hefði tekist og fólk hefði hlustað á og orðið fyrir áhrifum frá tónlistinni okkar. Plata nr. 2 verður vonandi skref í þessa átt og við erum allir í plotta hvernig á að fara að þessu – framsetningunni þ.e.a.s.

Við þurfum án efa að ná meiri útvarpsspilun og vera voða „viral“ á því, svo fer ég líklega í heilsíðuviðtöl í Fréttablaðinu þar sem ég tala um hvað það var skrítið að túra þegar ég var í 10. bekk og hvað ég er giftur yndislegri konu í dag. Maður þarf að vinna innan kerfisins til að komast á toppinn, en það væri gaman að miðla einhverjum hættulegum skilaboðum í undirmeðvitund fólks í leiðinni.

Söguleg mynd frá því er Gunnar og félagar í hljómsveitinni Jakobínarína skrifuðu undir afdrifaríkan samning við 12 Tóna. Sjálfur Lalli í 12 Tónum sést hér gefa puttann eins og honum einum er lagið.

Söguleg mynd frá því er Gunnar og félagar í hljómsveitinni Jakobínarína skrifuðu undir afdrifaríkan samning við 12 Tóna. Sjálfur Lalli í 12 Tónum sést hér gefa puttann eins og honum einum er lagið.

Já! Eitur í morgunkornið! Snilld! Hvaða skilaboð væru það svona helst, sem þið mynduð vilja lauma með? Og beinist sú vinna að einhverju leyti gegn kerfinu sem þú talar um að vinna innan, er upplausn þess einhverskonar markmið? Hvaða kerfi er þetta annars?

Úff, ég þarf að passa mig að fara ekki of langt í háskólahjalið – ég er poppari sjáðu til! Nei, en kerfið – er það ekki kapitalismi og hetoronormatífi patríarkinn, íhaldið og allskonar svoleiðis vitleysa, skiluru? Ég veit ekki hvort ég nái að bylta þessu eða sé yfir höfuð að reyna það. En það er þó hugmyndafræði í öllu sem við gerum og því er ágætt að vera meðvitaður um það þegar maður setur poppvélina í gang.

Hversu langt værir þú eða þið til í að ganga til að ofangreind vinsælda-markmið næðu fram að ganga? Væri til í dæminu að „svíkja hljóminn“? Að gera plötu sem er kannski aðgengilegri eða auðveldari viðfangs en það sem ykkur er tamt?

Við erum eiginlega búnir að því, en þó á organískan hátt. Við höldum alla vega að næsta plata okkar, Rökrétt Framhald, sé aðgengilegri en ALI en það þarf þó að koma í ljós. Það er bara e-ð sem gerðist, kannski út af því að við erum búnir að semja lengur saman þá verðum við samstillari í lagasmíðun og út úr okkur kemur „fágaðra“ stöff.

Svo erum náttúrulega svo pó-mó, allt má, við höfum gaman af poppi sem og pönki og því er hægt að finna e-ð fyrir alla þarna. En ég sé samt ekki fyrir mér að það komi til þess að við „seljum út“—fáum stórt útgáfufyrirtæki sem vill stjórna okkur og hvernig við högum okkar list. Í fyrsta lagi trúi ég ekki að til þess komi, að við fáum áhuga frá svoleiðis aðilum, og í öðru lagi er grundvöllur hljómsveitarinnar að þetta sé allt frá okkur komið.

Ef einhver vill hinsvegar kaupa tónlistina okkar í auglýsingar og svona – þá endilega sláið þráðinn og ég sendi viðkomandi reikningsupplýsingarnar okkar.

Er eitthvað sem þú værir sérstaklega og ýkt mikið til í að auglýsa? En eitthvað sem þú myndir aldrei vilja leggja eigið nafn eða hljómsveitarinnar við?

Ég drekk eina létt AB-mjólk fernu með ferskju- og vanillubragði á hverjum degi. Það væri fínt að minnka þau útgjöld með einhvers konar sölumennsku. Svo er maður auðvitað orðinn mikill Kólakarl og myndi ég því aldrei ganga til liðs við óvininn í Pepsi.

Af hverju heldurðu að fólk sé að kveikja svona á því sem þið eruð að gera? Mér dettur ýmislegt í hug fyrir utan þetta augljósa, að músíkin er skemmtileg og grípandi og tónleikarnir eru æsandi. Rokklandslagið hefur ekki verið sérstaklega spennandi síðustu ár – músík hefur einhvernvegin einkennst af öfgum: metnaðarfullu jaðarmoði, hvar þjáð gáfumenni mastera ofskjúrar og óaðgengilegar tónlistarstefnur útí horni fyrir lítinn kjarna pælara, eða þá metnaðarfullu almannapoppi, þar sem ungir atvinnumenn keppast við að höfða til sem mestra og flestra í grípandi, aðgengilegum, straumlínulöguðum og þægilegum hljómsveitum (með einhverjum undantekningum auðvitað). Hvoru tveggja er ósköp þægilegt og auðvelt í umgengni, jaðarmoðarar standa í hefðarheiðrun og bókasafnsfræðum – almannapopparar vilja dansa og fá þig til að dansa (og hafa örugga atvinnu af iðkun tónlistar).

Þarna standið þið kannski útúr, því svo virðist sem lögð sé áhersla á að gera grípandi og hrífandi músík sem lýtur líka einhverjum listrænum metnaði og er óhrædd við að vera frek, að móðga og standa fyrir eitthvað. Kannski skiptir líka máli að þarna eru myndarlegir menn á aðlaðandi aldri að syngja á frummálinu, um aðstæður sem jafningjar þeirra þekkja. Er þetta eitthvað?

Að því sögðu spilar Grísalappalísa vissulega inn í hefð og tignar sínar hetjur … er annars ennþá hægt að gera merkingarbæra rokktónlist?

Þú ert leiða mig í gildru þessu viðtali, að gera þau grundvallarmistök að gerast greinandi eigin listar. En ég hef hið sjálfhverfa frontmannafíflseðli og er þarafleiðandi alveg til í þetta.

Varðandi hetjurnar skipum við okkur að sjálfssögðu í ákveðna hefð með Megasar-, rokk og ról- og bókmenntatilvitnunum og eins og þú kemur inn á erum við ungar og töffaralegar týpur í blóma lífsins. Á ákveðinn hátt erum við því kannski svolítið þægileg hljómsveit til að fíla, erkistrákarokkband með hráa kynorku en voða sniðugir í leiðinni. Þetta er kannski eftir allt saman svolítið afturhaldssamt hjá okkur, við stöndum með rokkfeðraveldinu en maður getur auðvitað aðeins unnið með það sem hefur.

En nei nei, ég veit það ekki—þetta er kannski skemmtilega háleit blanda af banalheitum og háfleygri rómantík sem er að virka. Einfaldlega að hafa svona skýra sýn og metnað er að fleyta okkur langt. En auðvitað held ég að maður geti samið merkingarbæra rokktónlist, annars hefði maður ekki þessa ástríðu fyrir listforminu. Það væri vissulega draumur í dós að borga brauðið með því að láta fólk dansa á kvöldin og hugsa í þynnkunni morguninn eftir.

Nú voruð þið viðurkenndir af íslenska tónlistarbransanum – þið fenguð íslensk tónlistarverðlaun og svona. Mér fannst móttakan ykkar samt svona frekar dissleg, á góðan hátt. En það var líka kannski það sem verðlaunin þráðu, svona til að geta haft einhvern brodd. Að verðlauna dissara, sem þá gefa rúm fyrir áframhaldandi moð. Er það eitthvað?

Svo má minnast á—svona fyrirfram—gott blast from the past: „We will even change our name / to The Coca Cola Band …“

Satt best að segja held ég að þetta hafi ekki verið mjög meðvitað hjá ÍTV að gefa okkur þessi verðlaun. Ég held að það hafi verið skellt í þennan verðlaunaflokk á síðustu stundu þar sem Kókakóla var styrktaraðili verðlaunanna. Við vorum að spá að afþakka verðlaunin fyrst en svo datt okkur í hug að láta Sigga mæta þarna og tala um Karl Marx og fleira og það endaði í þessari snilld.

Það hafði reyndar mikið að segja að við unnum verðlaunin fyrir Hver er ég, sem besta tónlistarmyndband ársins, fyrr um daginn og okkur fannst það gífurleg viðurkenning fyrir okkar vinnu og vorum einfaldlega of glaðir til að dissa ÍTV og Kókakóla vini okkar fullkomlega.

Svo er einfaldlega betra að vera team player stundum, þetta er okkar fyrsta plata og það hefði verið of mikið Jako flassback að segja fokkjú við íslenska tónlistarkreðsu. Það hefði kannski verið betra PR-stunt, en ræðan hans Sigga Hreins var miklu skemmtilegri. Svo er Kók líka svo næs, að það er gott að eiga þá sem vini – Kóka Kóla Ísland – Kókalókalappalísa!

Hmm já var Jakó mikið í því að fokkjúa á íslenska tónlistarkreðsu? Hvernig lýsti það sér? Og urðu einhverjar afleiðingar—hittirðu Bubba Morthens brjálaðan í partýi og svona?

Nei, Bubbi þóttist nú vera aðdáandi okkar þegar við vorum móðins. Við vorum bara svo mikil börn og kunnum ekki að díla við þetta rokk og fólk tók okkur allt of alvarlega. Hallberg kúkaði því út úr sér að öll íslensk tónlist sökkaði nema Singapore Sling og við þóttum vera með töffarastæla – sem var að vissu leyti satt en við vorum bara lítíl óörugg börn í rokkbúningi.

En þetta er nú löngu liðin tíð og ekki e-ð sem ég hugsa mikið um í dag.

Góðvinirnir í Grísalappalísu skelltu sér einusinni til Akureyrar, hvar þeir léku tónlist fyrir heimamenn á hinum svokallaða Græna hatti. Meðfylgjandi mynd var tekin við tilefnið.

Góðvinirnir í Grísalappalísu skelltu sér einusinni til Akureyrar, hvar þeir léku tónlist fyrir heimamenn á hinum svokallaða Græna hatti. Meðfylgjandi mynd var tekin við tilefnið.

Heyrðu vá, ég gleymdi alveg að kynna þig lesendum. Hver ertu eiginlega? Og hvað er þessi hljómsveit sem þú ert í?

That‘s your job. Það er ekkert leiðinlegra en að kynna sig. Þú mátt alveg koma inn á Jako og hvað sem er ef þú vilt.

Já ég geri það kannski. Skrifa örugglega svona inngang. Fyndið að þú minnist á Jakobínarína svona, ertu vanur því að fólk hiki eitthvað við að tala um bandið þegar það ræðir þig eða við þig? Hefur Jakó verið eitthvað feimnismál? Geðveikt band, finnst mér.

Nei, alls ekki. Fyrsta Grísalappalísu viðtalið hjá Óla Palla snérist til að mynda bara um hvernig Jako vogaði sér að hætta. Við erum auðvitað líka að riffa smá í Jako í Grísalappalísu, með nafngiftinni og hliðstæðunni í Hver er ég og This is an Advertisement myndböndunum. Fólk spyr alltaf út í þetta annað slagið, en undanfarið hafa mun fleiri áhuga á Grísalappalísu en Jako, sem er mjög jákvætt enda að mínu mati aðeins meira spennandi band. Alla vega í dag, enda Jako steindauð.

Hafið þið ráðgert að fá liðsinni Johns Grant við að þýða texta ykkar yfir á ensku?

Nei, eins og komið hefur fram þá gerum við allt sjálfir. Þessi DIY-fagurfræði er það sem gerir þetta svo skemmtilegt.

En við höfum verið að ræða það nú þegar við fengið smá smjörþef af útlandinu, þá erum við alveg tilbúnir að syngja eitthvað á erlendum tungumálum á einhverjum tímapunkti. Við ætlum fyrst að klára þríleikinn okkar, ALI, Rökrétt Framhald & Grísalappalísu, og þá er fyrsta markmiði náð. Þá erum við í raun lausir við allar kvaðir – og þá kæmi alveg til að greina að raula stundum á útlensku.

Ég myndi samt vilja halda þessu aðskildu og gefa alltaf út plötur á íslensku og svo aðrar stuttskífur og lög á öðrum tungumálum. Ef við færum að syngja á ensku væri maður að sjálfssögðu að vinna með allt aðrar pælingar – leikvöllurinn væri án efa frekar á yfirborði hlutanna. Mér finnst hinsvegar alltaf heillandi hugmynd að spila „útlendingaspilinu“ og þykjast vera aðeins heimskari en maður er.

En textarnir myndu án efa leika sér með hið almenna rokktungutak engilaxneska heimsins—djóka með einfaldleikann. Þetta eru samt bara getgátur á þessu stigi – ég held að við byrjum á því að skjóta einu og einu útlensku koveri inn í live settin þegar við erum úti. Ég er hinsvegar mun spenntari fyrir því að syngja á þýsku en ensku og kovera m.a. Sag mir wo die blumen sind með Marlenu Dietrich.

Hvernig er það annars með þig og ykkur, skipta textar miklu máli í samhenginu tónlist? Svavar Pétur var meira á því að hann fílaði melódíurnar, en textinn gæti bætt við (sjá gamla viðtal). Hvar eruð þið á kvarðanum, eða þú?

Grísalappalísa er auðvitað stofnuð út frá textapælingum, og textarnir skipta mun meira máli í okkar tónlist en gengur og gerist hjá flestum. Það var það sem heillaði alla meðlimi, að hafa ákveðið frelsi þegar kemur að tónlistarsköpunni og hafa svo mjög mótaðar textahugmyndir á móðurmálinu. Almennt finnst mér textar mjög mikilvægir í tónlist þó að þeir skipti auðvitað mismiklu máli eftir því hvernig tónlist maður er að fást við. Svo er auðvitað mjög næs að vera laus við texta í ákveðinni músík. En ég og Baldur erum á vissan hátt með frekar mikla þráhyggju fyrir textum í tónlist og eigum í endalausum skoðanaskiptum um mikilvægi þeirra.

Ég held að með Grísalappalísu hafi Baldur orðið músíkalískari (enda var hann ekki búinn að fást við tónlist áður) og ég hef fengið ennþá meiri textaþráhyggju en áður. Hann er samt ennþá öfgakenndari í þessu en ég og getur til að mynda ekki hlustað á popp á köflum, eins og Sin Fang, út af því honum finnst textarnir lélegir. Mér finnst það vitleysa, stundum mega hlutirnir vera einfaldir, mér finnst Young Boys skila sínu fullkomlega—einfaldlega gefa mynd af ákveðinni stemmningu, strákar að reykja út í skógi. Hómóerótík, jafnvel.

Mér finnst popptextaformið geta alveg verið jafn skemmtilegt og flóknara dótið þegar það er gert vel. En já, þetta rökræðum við drengirnir okkur til dægrastyttingar. Textar eru hinsvegar alltaf betri þegar þeir á móðurmáli viðkomandi, ég held að það sé ekki spurning. Af hverju ætti allur heimurinn að vera að syngja á ensku? Þetta er náttúrulega bara heimsvaldastefna, ekkert annað.

„His lyrics are disastrous“?

Já, ég var óttalega meðvitaður um eigið ágæti sem unglingur.

Gunnar segist hafa verið sérlega sannfærður um eigið ágæti á unglingsárunum. Í dag þykir honum gott að gæða sér á pylsum.

Gunnar segist hafa verið sérlega sannfærður um eigið ágæti á unglingsárunum. Í dag þykir honum gott að gæða sér á pylsum. Mynd eftir Magnús Andersen.

Hvernig ertu að digga markaðssetningu á íslenskri tónlist? Ertu með? Fellurðu undir hattinn? Er einhver hattur? Ef þú værir að starta bílskúrsbandi í dag, hvernig landslag þætti þér þú vera koma inn í?

Íslenskir tónlistarmenn hafa sennilega aldrei verið jafn pró og klárir að koma sér á framfæri erlendis og í dag. Infrastrúktúrinn er mjög góður fyrir okkur, allir eru að vinna að sama markmiði og maður getur fengið ráð og styrki til að hjálpa sér áfram og ef hið opinbera hverfur ekki inn í rassgatið á sjálfu sér heldur íslensk músík örugglega áfram að vaxa og dafna um ókomna tíð. Hinsvegar fannst mér þetta pólítíska áróðursmyndband frá „ÍSLENSKRI TÓNLIST“ á ÍTV frekar glatað. Auðvitað er ótrúlegt að listafólk þurfi að útskýra fyrir ráðamönnum hvað íslensk list er að skila þeim í dollurum og rúblum á meðan þeir sjá sovéskar áburðarverksmiðjur í hillingum.

En að við séum endalaust að tala um tónlist á kapítalískum forsendum, hvað hún skili í þjóðarbúið á svart á hvítu, er að mínu mati svolítið hættulegt. Hefur list ekki gildi í sjálfri sér? Menningarumræðan er örugglega svona léleg vegna þessarar hugsunar, við pælum bara í því hvað einhver er búin að selja mikið af plötum í Japan og hefur spilað oft í Jay Leno. Þetta fer meir og meir að líkjast því að halda með fótboltaliði. Sum tónlist er eflaust samin með peninga að markmiði, og það er auðvitað gilt sjónarmið, en við megum ekki að gleyma að listin er nóg ein og sér. Ef hún fer að snúast of mikið um CASH MONEY missum við líka eitt af okkar megin hlutverkum sem er að gagnrýna og valda usla.

Þetta er náttúrulega orðið fáránlega langt og líklegt að enginn nenni að lesa þetta. En mig langar samt að spyrja þig aðeins meira. Þú hættir bara að svara ef þú ert brjálaður yfir lengdinni. OK: þú talar um að eitt helsta hlutverk listarinnar sé að gagnrýna og valda usla, sem er pæling sem ég fíla mjög vel. Gætirðu farið aðeins nánar út í hana? Er skrýtið að spyrja hvað sérstaklega þið Gríslingar séuð að gagnrýna, ef eitthvað? Líturðu á verk sveitarinnar sem beinskeytta gagnrýni sem beinist sérstaklega gegn einhverju, eða er hún meira svona „hugsað upphátt um ástand,“ einhverskonar lament yfir einhverju ástandi?

Það sem kveikti sérstaklega á mér við ALI var að platan virtist fjalla af nokkurri nákvæmni og hugmyndaflugi um einhverskonar líf sem ákveðin kreðsa fólks á ákveðnum aldri lifir í ákveðnu póstnúmeri. Mér fannst ár og aldir síðan ég heyrði poppara tala um eitthvað sem ég kannaðist við úr eigin lífi, eða lífi vina minna, á svona beinan hátt. Mér finnst tónlist stundum best þegar hún felur í sér samfélagið að tala við sjálft sig einhvernveginn, að velta vöngum yfir eigin tilveru – og þessu fannst mér ég finna vel fyrir á ALI. Ég kannaðist við kringumstæður og aðstæður og einhvernveginn gladdi það mig, að það væri einhver að hugsa opinberlega upphátt um aðstæður þær er þessi kynslóð lifir við og hefur skapað sér. Þá spyr ég: hversu nærri lagi er sá raunveruleiki sem ALI fjallar um? Og hvaðan hafið þið hann?

Við erum auðvitað ekki aktívísk hljómsveit. Ég er kannski á smá villigötum að blanda pólítík svona mikið inn í þetta. Ef við erum pólítískir, sem ég er ekki viss um að við séum, er það alltaf á frekar abstrakt og óræðum nótum. En já, það er gaman að þú hafir fengið þessa upplifun af ALI því það er vissulega það sem við erum að reyna. Við hugsuðum textana út frá því að við værum vondi karlinn, að við segðum hlutina sem aðrir þyrðu ekki að segja. Þegar öllu er á botninn hvolft finnst mér textarnir þó alltaf vera á einlægum nótum og allt sem við syngjum um er satt upp að einhverju marki – þó að við föttuðum það kannski ekki þegar við sömdum þá. Í Grísalappalísu erum við að reyna að lýsa raunveruleikanum okkar og staðsetja okkur í honum. Gera líf okkar og vina og vandamanna að goðsögnum. Við þurfum jú alltaf goðsagnir til að skilja heiminn betur.

Gunnar er ágæt fyrirmynd fyrir unglinga, ef frá er talin reykingafíknin og pylsuátið.

Gunnar er ágæt fyrirmynd fyrir unglinga, ef frá er talin reykingafíknin og pylsuátið. Mynd: Magnus Andersen

Finnst þér einhver skortur á að miðlar og menning tali við og um þennan hóp sem þið ávarpið á ALI? Er hann jafn Ísland og t.d. fólk sem er alltaf að biðja um skuldaleiðréttingar eða hefur áhyggjur af flugvellinum?

Mér finnst skrítið að tala um eitthvað sé meira Ísland en annað – við erum jú öll Íslendingar. Eða Íslandsvinir. Fyrirbærið „þjóðarsál“ er ekki til – það líður öllum aldrei eins, jafnvel þegar hroðalegir atburðir einsog Helförin gerast er erfitt að tala um þjóðarsál. En tónlistin okkar reynir vissulega að vera mjög íslensk, með því að vinna með mýtur þjóðarinnar á meðvitaðan hátt og setja þær í current samhengi.

Já svo á þetta að vera þríleikur eins og þú nefnir hér að ofan. Um hvað verða hinar tvær plöturnar?

Á Rökréttu Framhaldi erum við í raun bara að klára textana sem við sömdum fyrir ALI. Við höldum áfram á líkri braut á Rökréttu Framhaldi en förum þó í nýjar áttir. Gömlum tuggum er snúið við (átök sveitar og borgar – sveitarómantík), samskipti kynjanna og hugmyndir okkar um þau eru okkur áfram hugleikin. Við förum að sjálfsögðu á fyllerí og syngjum um Ísland nútímans. Svo er lag um foreldra okkar og samskipti okkar við þau. Og eitt lag er um göngutúr út að Gróttu. Svo má ekki gleyma Sambýlismannablúsnum. Og svo rifjum við upp stafrófið.

En nú erum við búnir með alla textana okkar og erum frjálsir að ný. Þriðja platan, Grísalappalísa, verður því eitthvað óvænt. Það kemur líklega í ljós haustið 2015.

Geturu mælt með einhverju góðu að lesa og hlusta á, svona í lokin?

Danska hljómsveitin Synd og Skam þykir mér það mest spennandi sem að gerast í rokktónlist í Skandinavíu og jafnvel víðar. Annars er ég of upptekinn á Púlaraspjallborðunum þessa dagana til þess að lesa bók. Mig langar þó að lesa Mánastein, ég er svo eftir á.

Þú gast ekki skilað tímanlega af því að þú lentir í því að þurfa taka upp rosa mikið með hljómsveitinni og svo fórstu á 12 tíma vakt. Nú spyr ég: hvað voruð þið að taka upp og hvenær má maður heyra það (og kannski líka, hvernig virka upptökusessjon Gríslinga)?

Við erum að klára Rökrétt Framhald. Það er von á henni bráðlega. Fylgist með..

Og hvar varstu á næturvakt? Hvernig er það? Hvað gerir maður þar? Er það leiðinlegt? Eða skemmtilegt? Vinnurðu á hóteli? Mörg skáld vinna á næturvakt á hótelum, allavega svona fyrst um sinn.

Ég hef umsjón ásamt öðru lista- og drykkjufólki með einu af notalegri öldurhúsum borgarinnar. Þar kynnist maður samborgunum sínum betur og fer það allt í reynslubankann.

Stundum hef ég spáð í því hvort að poppmúsík er enn þess megnug að hafa einhver almennileg áhrif á samfélagið, að skipta einhverju máli. Yfirleitt held ég ekki, því það eru allir í símanum að chilla bara í Snake2. Hvað finnst þér?

Getur listin breytt heiminum? Er ekki búið að sanna að svo sé ekki? Það er þó alltaf hægt að reyna…

Myndiru koma fram í Jólagestum Björgvins? Af hverju/af hverju ekki?

Albert, tónastjóri Lísu, er búinn að lýsa því yfir að hann hætti þáttöku sinni í skæruliðahernaði okkar ef ég komi fram með Björgvini á jólahátíð hans. Ég er þó alltaf til taks fyrir Björgvin, sérstaklega ef ég fengi að flytja uppáhalds lög Sigurðar „mótórsins“ Möller Sívertsen, Himinn & Jörð og Fyrir jól.