Emmsjé Gauti

Tónlist vikunnar: Emmsjé Gauti er til

Ágæti lesandi,

þú ættir að hafa í huga: nú er tónlist vikunnar ekki vikulega, heldur birtist hún aðra hvora viku. Þessi þróun er vitaskuld ákaflega jákvæð, enda tónlist sérlega mikilvæg og gott að geta tekið sér tvær vikur í að hugsa um hana milli útgáfna.

Undanfarið hef ég verið að skiptast á bréfum við rapparann Emmsjé Gauta. Hann Emmsjé er ákaflega viðkunnalegur drengur, en einnig ber hann það heiðursmerki að vera fremstur íslenskra rappara í sviðsframkomu og karisma um þessar mundir, eins og allir sem hafa notið krafta hans geta borið vott um. Ég get ekki sagt að öll lögin hans Emmsjé Gauta séu uppáhaldslagið mitt, en að stara á hann og fylgjast með orka á áhorfendur er hrein unun.  Í viðtalinu ræðum við ýmislegt, til dæmis:

  1. Vægi textagerðar versus vægi flutnings og talanda
  2. XXX Rottweiler hunda
  3. Allt með Drake
  4. Skytturnar frá Akureyri
  5. & margt fleira!

Lestu endilega áfram til að frétta meira!

Hver ertu eiginlega? Svona ef einhverjir lesenda hafa ekki hugmynd? Nú má ímynda sér að þeir vilji kynna sér Emmsjé Gauta t.d. með því að hlusta á lag eða plötu, hvar ætti fólk að byrja?

Ég er fínn náungi vil ég meina. Ég heiti Gauti Þeyr Másson og er búinn að gera rapptónlist síðan árið 2002. Ef fólk hefur aldrei heyrt í mér áður þá getur það fengið smá smakk hér …

Litlaus feat. Unnsteinn Manuel

Þeyr

Nýju fötin keisarans

Kinky

Þú hefur að mér vitandi verið viðloðandi senuna frá því þú varst ótrúlega ungur unglingur. Hver er þín aðkoma að hiphop tónlist/innkoma í hana? Hver voru fyrstu átrúnaðargoðin, hérlend sem erlend? Og hver voru þín fyrstu skref fram á völlinn?

Það er eiginlega smá sturlun hversu lengi ég er búinn að gera rapp. Það eru komin 12 ár síðan ég steig fyrst á svið í Miðbergi til þess að keppa í Rímnaflæði. Ég fékk fyrst áhuga á rappi þegar Maggi aka Gnúsi Yones, intr0beats, Cell7 og fleiri voru að taka upp plötu í gamla stúdíóinu hans pabba. Það var einhver ný tilfinning sem ég fann þegar þau voru að taka upp og ég vissi nákvæmlega að ég væri að fara að gera rapp. Ég fór að hlusta á rapp og Jurrasic 5 og Eminem voru fyrstu erlendu artistarnir sem ég hélt uppá. Það var samt ekki fyrr en XXX Rottweiler æðið skall á okkur sem ég tók saman texta sem ég samdi og flutti fyrir framan fólk.
Hér er upptaka af því þegar ég tók þátt í rímnaflæði árið 2002.

Spennandi dæmi … hver er pabbi þinn og hvert er stúdíóið hans? Varðstu vitni að mörgum tónlistargerningum? Hvað er eftirminnilegt þaðan?

Pabbi heitir Már Gunnlaugsson og átti stúdíó sem hét Stúdíó Gnýr ásamt nokkrum aðilum. Sterkustu minningarnar úr stúdíóinu eru í kringum plötuna Faculty. Gnúsi Yones, intr0beats, Antlew, Cell7 og fleiri komu að plötunni. Ég man eftir því að Þórunn Antonía kom einnig og söng inn á plötuna. Ef ég væri góður að teikna gæti ég skissað upp allt stúdíóið, því það er sterk minning í hausnum á mér hvernig það var. Mjög professional með flottum upptökuklefa og málað í kósý fjólubláum lit.

Ég var mjög ungur þegar stúdíóið var starfandi svo margar minningarnar þaðan eru í móðu en það var eitthvað við þetta húsnæði sem ýtti mér í áttina að því að vinna músík.

Emmsjé Gauti er mjög vinsæll á Húsavík. Húsvíkingar elska þetta shit.

Emmsjé Gauti er mjög vinsæll á Húsavík. Húsvíkingar elska þetta shit.

Eftir þetta hefurðu unnið með flestum þessum listamönnum, ekki satt? Það hlýtur að vera merkilegt tilfinning fyrir fyrrum hnokka …

Ég hef unnið með þeim flestum, hvort sem það er í lögum eða á tónleikum. Það er yndisleg tilfinning að fá að taka þátt í samstarfi með þeim sem komu manni af stað til að byrja með.

Eitt sem ég hef dáðst að í þinni tónlist er hve viljugur þú virðist til þess að gera tilraunir með mismunandi stíla / gera atlögu að nýjustu stefnum og straumum í alþjóðlegu hiphopi. Þegar ég á sínum tíma (sirka Rímnamín) steig íslensku hiphopi til varnar við ritstjóra þessa vefs, Eirík Norðdahl, þá sagði hann nokkuð sem mér þótti því miður satt; að íslenskir rapparar hljómuðu allir eins, að breiddin á stíl og raddbeitingu innan t.d. D12 (mundu, þetta var 2002 eða eitthvað) væri meiri en hjá öllum íslenskum röppurum. Spurningin er kannski (og mundu, margir lesenda hafa kannski mjög takmarkað hlustað á rapp): er til íslenskur rappstíll? Eða íslenskir rappstílar? Og hvernig rímar hann við þær tilraunir sem erlendir rapparar gera?

Þegar ég byrja að rappa þá er mjög stutt síðan að fólk byrjaði að gera það á íslensku. Það voru allir að keppast við að vera með betri línur en næsti maður. Svo þegar æðið skellur á byrjar annar hver maður að rappa, en það voru að sama skapi ekki mjög margar hljómsveitir í sviðsljósinu sem orkuðu sem fyrirmyndir fyrir unga íslenska rappara. Margir voru þannig að sækja innblástur á sama stað og hljómuðu þar af leiðandi svipaðir.

Ég verð samt sem að vera ósammála því að allir rapparar hafi hljómað eins á þessum tíma. En mögulega heyra þeir sem pæla mest í rappi muninn á rappinu. Í dag eru allir miklu opnari fyrir því að prófa nýja stíla og það eru margir að fara út fyrir rammann.

Hverja telurðu vera helstu meistarana íslensku núna, í að fara út fyrir rammann? Og hvað telst að fara út fyrir rammann?

Gísli Pálmi er með lang ferskasta stílinn sem er í gangi í íslensku hiphopi núna. Platan sem hann er að vinna að um þessar mundir er algjör dúndra. Ekki eitt album track bara hreint og beint power. Úlfur Úlfur er þeir sem þora mest að fara út fyrir rammann og gera það vel. Þeir eru búnir að þróa soundið sitt svo vel. Þú heyrir takt eftir Helga Sæmund og hugsar: „Þetta er Úlfur úlfur lag“

Ég er ekki bara að klappa vinum mínum á bakið. Það vill bara svo til að þessi vinahópur er að gera lang ferskasta dótið.

Vinahópurinn góði: Úlfur Úlfur, Emmsjé Gauti, Gísli Pálmi

Vinahópurinn umræddi fundar í Öskjuhlíð: Úlfur Úlfur, Emmsjé Gauti, Gísli Pálmi

Hversu mikilvægir telurðu að XXXR hafi verið fyrir þróun og framgang hiphops á íslensku? Og þegar þú lítur yfir heila ferilinn, hvernig reitarðu bandið og þess einstöku rappara/taktsmiði?

Menn vilja deila um það hver hafi verið fyrstur að rappa á íslensku en það fer ekki milli mála að Rottweiler er stærsta og mikilvægasta rapphljómsveit í íslenskri tónlistarsögu. Það voru þeir sem að tóku íslenskt rapp upp á annað level og sýndu fordæmi fyrir aðra að það væri hægt að gera gott íslenskt rapp fyrir hinn almenna hlustanda. Þeir voru með grófa og skemmtilega texta yfir skemmtileg partýbeats. Ég er partur af XXXR kynslóðinni. Ég gef Rottweiler 10/10 fyrir að hafa rúllað boltanum af stað.

Áttu þér uppáhalds ökt úr fyrstu íslensku bylgjunni? Eru einhverjir sem hafa ekki fengið nóg kredit? Mér er hugað til fólks eins og Vivid Brain og hans frábæra lagi „Hljóður í Dimmuborgum“… átti hann ekki meira inni?

Ég hélt alltaf sérstaklega mikið upp á Skytturnar og geri enn í dag. Ég held að þeir sem eigi kredit skilið hafi fengið það. Sem dæmi fékk Vivid Brain athygli á sínum tíma, enda Hljóður í Dimmuborgum frábært lag þegar það kom út. Við getum samt ekki verið að hugsa um fortíðina endalaust þar sem þetta er sena sem er mjög breytileg—hún er ung og í sífelldri mótun.

Hvaða nýja stöffi ætti fólk að tékka á? 

Kannski ekki rosa nýtt, en þetta er í græjunum.

Gísli Pálmi – Loftleiðir

T.I. & Young Thug – About the money

G-Eazy – I mean it

ALLT SEM DRAKE GEFUR ÚT.

Hvað finnst þér um Móra og vægi hans? Kom hann með nýjan fíling inn í íslenskt hiphop, eða var hann bara að gera sjokkrokk?

Móri náði aldrei til mín… Ég held að sjokk valjúið hafi verið sterkara en rappið sem hann sendi frá sér.

Móri sagðist rappa um íslenskan neðanjarðarveruleika. Er það einhver veruleiki sem þú þekkir? Eru stoðir í mýtólógíu Móra?

Ég er úr Breiðholtinu. Móri var nojaður hassrappari. Hlustið á Gísla Pálma.

Áttu þér uppáhalds rappara hvað tækni varðar? En textagerð? Fer það tvennt alltaf saman, eða er það alltaf aðskilið, eða bara svona í og með (þúveist, frábær flæðari sem gerir bulltexta, eða frábær textagerðarmaður sem kann ekkert að rappa).

Það er alltaf gaman að heyra nýja nálgun á tækina eða flowið eins það er kallað. Nákvæmlega núna er hljómsveitin MIGOS og rapparinn YOUNG THUG í uppáhaldi hjá mér varðandi skemmtilega nálgun á flowið.

YOUNG THUG

MIGOS

Stundum verða slakir textar frábærir með góðum stíl, en það er minna um það (allavega hjá mér) að maður nenni að hlusta á frábæra texta hjá leiðinlegum flytjanda. Auðvitað eru svo bestu artistarnir þeir sem eru búnir að mastera bæði texta og tækni.

secretsolstice2

Emmsjé Gauti hefur lengi verið þekktur fyrir hressilega sviðsframkomu. Hér má sjá hann koma hressilega fram með Úlfi Úlfi, á Secret Solstice hátíðinni (muniði hana?!?)

Hverjir eru tíu bestu all time íslensku rappararnir, í röð og með rökstuðning (lol)?

Það er svo erfitt að flokka þetta niður. Þetta er smá eins og raða vinum sínum í topp tíu á MySpace á sínum tíma. En ég skal nefna nokkra rappara og sveitir sem ég held uppá:

Úlfur Úlfur, Gísli Pálmi, XXXR gengið, Forgotten Lores, Skytturnar, 7berg og Dóri DNA. Ég er pottþétt að gleyma einhverjum, en í fljótu bragði eru þetta artistarnir sem fara oftast í spilun á mínu heimili.

Finnst þér almennur íslendingur „skilja“ hiphop sérstaklega? Hvað finnst þér um að heyra hitt og þetta hipphop á djammstöðum, þar sem áheyrendur eru kannski ekkert sérstaklega að velta fyrir sér músíkinni umfram að geta grændað við hana?

Hvað er að skilja tónlist? Ef tónlistin kallar fram einhverjar tilfinningar hjá fólki, hvort sem það bros eða skeifa, þá er hún að skila einhverju af sér. Ég hef mjög gaman af því þegar fólk rýnir í textana og spyr mig útí þá en það er líka gaman að horfa á dansgólfið á Prikinu þegar lag frá manni er sett í græjurnar.

En þætti þér ekkert leiðinlegt ef þú gerðir geðveikt opinskátt, fallegt og afhjúpandi lag sem allir fíluðu en enginn þekkti merkinguna í?

Ég held ég geti ekki svarað þessu fyrr en það gerist.

Hvað með þig sjálfan – ert þú mæra fyrir grændið eða að spekúlera svona í einhverjum útpældum textum? Eða bæði?

Ég mæri grændið og spekúlera í útpældum textum á sama tíma. Það er nefnilega hægt að gera bæði. At the same damn time!

Stundum verður maður að bíða

Stundum verður maður að bíða