Tónlist vikunnar: Eitthvað sem kynnir bæði tónleika og plötu Gímaldins

Tónlistarmaðurinn Gímaldin hefur gefið út ótrúlega mikið af tónlist og er ákaflega duglegur að stunda listformið. Hann sendi ritstjóra Starafugls bréf um daginn og það var svona:

„Sæll Eiríkur, það er að koma ný gímaldin plata (útgáfudagur settur 19da maí) og ég er með tónleika á Rósenberg. Það eru 2 prómólög á soundcloud.

Geturðu ekki tekið eitthvað saman til að setja á Starafuglinn, sem bæði kynnir tónleika og plötu? Ég get sent þér fleiri lög í mp3.

bestu kveðjur, gímaldin“

Nú er Starafugli bæði ljúft og skylt að aðstoða Gímaldin við kynningu á bæði plötu og tónleikum, enda hefur Starafugl nokkurt álit á Gímaldni og vill veg hans sem mestan. Þótti því sjálfsagt og eðlilegt að senda skeyti á listamanninn með nokkrum spurningum og minna lesendur Starafugls á að líta við á tónleikum hans á Rósenberg á mánudag (þann 19da) og fjárfesta jafnvel í hlutbundinni breiðskífu (þá eða rafrænni). Eftir fara samskipti Starafugls og Gímaldins.

Meðan þú lest spjallið, þá ættirðu að hlusta á kynningarlögin af skífunni sem eru að finna á SoundCloud. Þú ýtir bara á play hérna fyrir ofan. En nú byrjar viðtalið!

Hæ Gímaldin, til hamingju með nýju plötuna! Ég er búinn að hlusta á þau tvö lög sem eru á SoundCloud og hafði gaman af. Hvernig eru hin lögin? Og hvað eru þau eiginlega mörg?

Það eru 11 lög á „hlutbundna“ miðlinum, en hægt að sækja aukalög sem digital-pakka, það eru þá væntanlega 4 lög sem ekki eru á disknum.

Hvar getur maður keypt þau? Og hvað olli því að þú skildir þau eftir af hlutbundna miðlinum? Eru þau svona meira í eternum, eða eru þau verri en hin lögin eða hvað?

Ég mun selja „hlutinn“ á útgáfutónleikunum og svo í gegnum póstinn, gimaldin@gmail.com – platan átti upprunalega að koma út á kassettu, þannig að ég var mjög snemma búinn að ákveða að hún ætti að vera 35 til 40 mínútur. Það er aftur engin hefð fyrir lengdinni á digital-pakkanum.

Segðu mér aðeins frá „hinu skapandi ferli“. Hvernig samdirðu þessi lög? Og hvenær? Hvar og hvernig tókstu þau upp? Spilarðu allt sjálfur, eða færðu í lið með þér gott gengi músíkanta?

Þessi blús átti að vera eins hrár og ég kæmist upp með, yfirleitt setti ég bara nokkrar rásir á rec í ProTools – hafði mæk fyrir gítar og rödd og renndi inn tökunum, án sequensers eða klikktrakks (í flestum tilvikum allavega), svo hlóðust hin hljóðfærin ofan á. Lögin eru því að miklu leyti samin í upptökuferlinu og þá er í raun ekkert option að hafa aðra hljóðfæraleikara. Fyrstu lögin (gerð fyrir sirka ári) voru það rytmísk í strengjahljóðfærunum að ekki þurfti nema smá lit af áslætti, og það varð svo línan fyrir restina.

Leggurðu mikið upp úr upptökuferlinu? Ferðu í rándýr stúdíó, eða er þetta meira svona heimabrugg?

Mér finnst eingöngu ástæða til að fara í venjulegt stúdíó ef maður ætlar að taka upp læf. Þá er maður að borga fyrir skilrúm og klefa, ekki síður en einhverja konunglega preampa [formagnara]. Ég held að við skiljum heimabrugg kannski soldið ólíkt, ef við horfum til þess að langflestir teknó og elektró artistar í dag hafa aldrei á ævi sinni stigið fæti inní stúdíó, en eru gjarna með fallegustu og flóknustu sánd sem eru í gangi í bransanum. Tók ekki Jónsi sólóplötuna sína upp í stofunni heima hjá sér? Heimabrugg að mínu mati væri upptaka gerð á Korg D-8 eða diktafón.

Hvað með annarra manna plötur – hefurðu einhverjar sérstakar skoðanir á því hvernig þeim er skilað til áhorfenda? Elskarðu vínil og hatar geisladiska? Eða öfugt? Fer stafræn upptökutækni í taugarnar á þér vegna þess að hún „steingeldir músíkina“ og alla tilfinningu sem þar er að finna, eða fagnarðu henni þar sem hún auðveldar upprennandi listamönnum að taka upp músík sem annars hefðu kannski ekki haft efni á því?

Mér fannst mjög gaman að vínillinn kom aftur, og jafnvel enn skemmtilegra að fá kassettuna til baka, en eftir stendur að það er meira og meira sem maður hlustar bara á á netinu, streymt wav eða hágæða mp3. Þær plötur sem maður kaupir setur maður oft inn á iTunes og hlustar á þær þar.

Digital upptakan er ekki það sem hún var, það eru komnar svo magnaðar leiðir til að halda í og jafnvel auka analóg hljóminn. Svo eru það náttúrlega alltaf puttarnir á listamönnunum sem gera gæfumuninn. Það má auðveldlega sannreyna með að hlusta á íslenska diska frá því um og í kringum ’90 – í dag eru flestir sammála að bæði upptökustúdíóin og diskayfirfærslan voru krappí, en ef músíkin var góð þá hefur það aldrei stoppað mann.

Áttu einhverja uppáhalds diska frá þessum tíma? Mælirðu með einhverjum?

Marga, en ég þori ekki að segja.

Hefurðu skoðun á því hvernig þín plata er í samhengi við annað sem er að gerast í íslenskri músík? Telurðu þig tilheyra einhverri senu eða stefnu? Á Gímaldin vinahljómsveitir sem oft er leikið og unnið með? Hvað ertu að fíla í músík þessa dagana og hvað finnst þér glatað?

Platan er aðallega í samhengi við þá sem hafa verið að dufla við blúsinn upp á síðkastið. Blús hefur mikið til verið stundaður sem hálfgert cover-art, það er, artistar eru frekar að reyna að mastera sánd og tilfinningu annarra blúsara en að skila eigin tilfinningum í þessu formi. Seinustu misseri hef ég fylgst með Michael Pollock og Skúla mennska gera frumsaminn blús, félagi minn Gestur Guðnason gerir líka blús en það eru kannski ekki allir sem átta sig á því. Gímaldin hefur annars spilað mest síðustu tvö árin með mörgum virkustu trúbadúrunum í Reykjavík, HEK, Hjalta Þorkels, Skúla og Maríu.

Hluti af innspirasjóninni fyrir þessari plötu kom frá Rúnari Þór og drottningunni vondu, sem mér fannst mjög skemmtileg leið til að gera lag sem er bæði dægurlag og blús á sama tíma. Ég vona að ég móðgi ekki Megas og Bubba með að taka ekki dæmi af þeim, en þeirra blúsar eru náttúrlega þeirra eigið trademark og þannig bara þeirra eigin hefð frekar en eitthvað annað.

Mér finnst engin músík glötuð, en stundum finnst mér mega gera meiri greinarmun á músík sem sirkúsakti, og músík sem listrænni tjáningu.

Plötuumslag Gímaldins!

Plötuumslag Gímaldins!

Geturðu glöggvað þennan þráð aðeins? Hvað áttu nákvæmlega við? Og finnst þér mismunandi gildi fólgin í hvoru tveggja?

Ég held að það sé betra að útskýra sem minnst.

Nú er þetta ekki þín fyrsta plata. Hvað með hinar plöturnar? Hvað eru þær margar? Hvar er hægt að nálgast þær? Hver er þín uppáhalds – hvar er best að byrja fyrir þá sem vilja kynna sér feril Gímaldins?

Hérna. Ég á margar uppáhalds, það fer líka eftir því hvort ég er í elektró, metal eða folkí skapi. Það er sama ef fólk vill kíkja á þetta, spurningin er hvað fólk vill heyra. Sumir eru hrifnastir af því sem ég er að gera í metal og döbbi, aðrir vilja bara heyra sönglög. En það má heyra hvorutveggja á fyrrgreindri síðu.

Þá liggur við að spyrja: þetta er frekar flókið og fjölbreytt, að gera metal og döbb og blús og allt þar á milli undir sama listamannsnafni! Hefur þér dottið í hug að aðgreina stefnurnar undir mismunandi hettum, svona eins og sumir gera? Búa til metal undir nafninu Gímaldintallica? Dubb undir nafninu Döbbaldin? Og þar fram eftir götunum? Heldur þú að hvílík fjölbreytni undir einum hatti gæti gert einhverjum erfiðara að skilja/nálgast músíkina þína?

Ég hef gert músík einsog ég heyri hana, einsog ég hlusta á hana, ég hlusta á nær alla músík og það er nær eitthvað í öllum greinum sem ég hef gaman að. Svo á þetta líka að vera flókið og erfitt, þannig er lífið.

Og önnur spurning: hverjir eru þínir helstu áhrifavaldar innan þessara stefna? Og svona almennt áhrifavaldar bara?

Johnny Winter og Cash, og Sinead O’ Connor.

Ég viðurkenni að ég var feiminn við að hlusta á SoundCloud lögin, vegna þess að platan heitir „Nokkrir bannaðir blúsar“ og mér finnst blús oftast hrútleiðinlegur. Sérstaklega fannst mér þetta reyndar í gamladaga, mín fyrstu viðkynni við blús voru svona þriðju og fjórðu kynslóðar eftiraparar sem reyndu sitt besta til að endurskapa einhverja stemmningu sem fannst á öðrum plötum, frá öðrum tíma. Svona paint-by-numbers eða spilað inní formið dæmi. Mér fannst það hljóma voða rembingslegt og allt eins. En svo reyndar datt ég á tónleika með gömlum blúsmeisturum og sömuleiðis lærði ég betur að meta mikilvægi texta og tilfinningar og náði betri tengingu við formið og er ekki eins fordómafullur, en fyllist alltaf uggi þegar eitthvað heitir „blús-eitthvað“ (Skúli vinur minn mennski gerir oft „blús-eitthvað“ lög og ég þarf alltaf að bíta af mér fordómana áður en ég hlusta).

ALLAVEGA. Þegar ég var búinn að hlusta komst ég að því að músíkin er ekkert svo blúsleg, allavega ekki eins og ég hef skilið eða misskilið blús. Svo spurningin er kannski: af hverju heitir hún þetta? Finnst þér blús skemmtilegur? Skilurðu hvað ég er að fara með að hann virki fráhrindandi, eða eru þetta bara fordómar í mér?

Marxíska kynslóðin tengdi blúsrokkið við kapítalisma, þessi áhersla á að skara fram úr öðrum, vera mest flassjí, hafa hærra. Kvennalistinn og Smekkleysa afskrifuðu blús sem úrelt form af karlrembu. Svo var farið að endurútgefa Leadbelly, Johnson, Mississippi John Hurt, með vidjóstreymi og YouTube fóru að birtast allskonar filmur sem enginn vissi að væru til, til dæmis af öllum blúskonunum sem spiluðu á sama tíma og karlarnir og alfræðiorðabækurnar höfðu aldrei minnst á.

Á sama tíma er sérstaklega rafmagnsblúsinn mjög ofbeldisfullur, eitthvað óeðlilegt og jafnvel ósiðlegt sex appíl. Þegar ég var átta mig á því hvað Muddy Waters var saklaust nörd, miðað við að hafa heyrt fyrst að hann hefði kálað mönnum hægri vinstri, heyrði ég um lag Little Walters, Boom Boom Out Goes the Light, sem fjallar um mann sem er fullur og er að ímynda sér að konan hans sé einhversstaðar að dufla við aðra karla, og hann sest uppí bílinn sinn og fer að leita að konu sinni og ef hann finnur hana þá verður það bara „Boom boom out goes the light.“

En blúsinn er líka bara til að skemmta sér og öðrum. Fyrir mig var sérstaklega gaman að degredera hinar og þessar hi-definition upptökur til að láta þær hljóma eldri.

Blúsdellan vaknaði hjá mér fyrir alvöru þegar ég fór að hlusta aftur á Leadbelly og Johnson og tók músíkina allt öðruvísi inn en ég hafði gert áður. Svo var ég að vinna með manni í stúdíói sem bauðst til að taka upp nokkur lög fyrir mig, þá var ég að prófa svona „þumal-krók“ eftir að hafa legið í Johnny Winter um nokkurt skeið, og þá lá beinast við að spila blús. Þær upptökur voru aldrei kláraðar og ég gerði þessa plötu að einhverju leyti til að bæta fyrir það. Svo fór ég að hlusta á Jeff Beck þegar hann var hérna og var hálfpartinn manaður til að fara alfarið í „finger-style“ stíl sem er ekki svo mjög ólíkur þumal-krók, en báðir hafa þessa sterku tengingu við sönglagahefðina sem blúsmenn Bandaríkjanna bjuggu til.

Í kjölfarið: telurðu þá að músíknördar og fræðingstýpur hafi tekið blúsinn í gíslingu á sínum tíma og skilgreint hann útí horn? Stoppað hann upp og sett á safn samkvæmt sínu þrönga sjónarhorni?

Nei, fræðingarnir eru fínir líka.

Ég er líka forvitinn að vita, hvaðan kemur listamannsnafnið Gímaldin? Hefur það sérstaka merkingu?

Gímaldin kom til mín einhverntíma fyrir löngu, og það er ekki fyrr en nýlega að ég veit að þetta nafn á uppruna sinn þar sem nú er mið-Asía. En ég á eftir að fara þangað, þannig ég veit ekki hver tengingin er.

Er textagerð þér mikilvæg? Semurðu stundum lög við texta sem þú átt í þínum fórum, eða er það öfugt og þú gerir svona Sigur Rósar tsjú fyrir melódíur og semur svo texta?

Ég reyni svipað mikið að vanda mig og ég legg mig eftir því að halda textanum í sama formi og hvernig ég nóteraði hjá mér hugmyndina upprunalega. Ef ég hef haft fyrirhyggju til að skrifa hluti niður, þá geta liðið mörg ár áður en orðin finna lag, það er eitt lag (eða tvö) á þessari plötu með ljóðlínum sem ég skrifaði hjá mér í Pétursborg fyrir fimm eða sex árum.

Ég heyrði fyrst að Guðmundur Jóns hefði látið Stefán Hilmars hafa KASSETTUR með hljómagöngum með illgreinanlegu rauli fyrir melódíur, Stefán settist svo við að breyta því í einhverskonar íslensku.

Ef ég er að gera sönglag þá er ég í langflestum tilvikum með tiltölulega fullgerðan texta eða nógu stóra búta til að þurfa ekki tsjúa mig í gegnum það. Ég þarf að prófa það einhverntíma, fyrst það hefur virkað svona glimrandi fínt hjá Sigur Rós.

Eitthvað sem þig langar að koma á framfæri?

Komið á útgáfutónleika 19da maí, blúsum saman.