Mette Karlsvik er norskur rithöfundur sem borið hefur kraftmiklar tilfinningar í brjósti til Íslands frá því að hún kynntist íslenskri stúlku í menntaskóla. Hún hefur margoft komið til landsins og skrifað heilu bækurnar um land og þjóð, og kannski ekki síst náttúruna. Sú frægasta af þessum bókum er án efa Bli Björk („Að verða Björk“) sem var á sínum tíma tilnefnd til hinna virtu Brage-verðlauna og mikið hyllt í Noregi – gagnrýnendur sögðu meðal annars að sú mynd sem Mette Karlsvik drægi upp af tónlistarmanninum Björk væri „fögur, dulúðug og margbrotin“ – að lesturinn væri „náttúruleg upplifun“ og að hún hefði skrifað nákvæmt portrett af tónlistarkonunni „án þess að sálgreina hana, ganga of nærri henni eða afhjúpa“.
„Skildi að ég gæti gert hvað sem er“
Upp á síðkastið hefur Mette unnið að líbrettói fyrir óperu sem ber vinnutitilinn UR. Óperuna semur Mette í samstarfi við nokkra Íslendinga. Framleiðandi óperunnar er af Far North Network, tengslanet listamanna á norðurslóðum og hún er unnin í samstarfi við Ultima Oslo Contemporary Music Festival, Myrka Músíkdaga Reykjavík, Þjóðleikhúsið á Grænlandi og fleiri leikhús í Þýskalandi. m.a. Maifestpiele Wiesbaden og Theater Bielefeld. Starafugl hitti Mette á Facebook og byrjaði á því að spyrja hana út í óperuna og Íslandsáhugann.
– Hvaðan kemur hugmyndin að óperunni UR?
Formlega kemur hún frá Arnbjörgu Mariu Danielsen, sem er pródúsent og kúratór, búsett í Þýskalandi. Hún vildi sjá hvað gerðist ef hún kynnti okkur Önnu Þorvaldsdóttur, Þorleif Örn Arnarsson og fleiri og bæði okkur að semja saman óperu. Ég hafði aldrei áður skrifað líbrettó og skrifaði Paal Helge Haugen, sem er norskt ljóðskáld og líbrettóhöfundur, og bað hann um ráð. Hann brást við með því að senda mér nokkur af handritunum sínum. Sum þeirra voru hefðbundin og önnur voru tilraunakenndari. Og þá skildi ég að ég gæti í raun gert hvað sem er og ræddi það við Önnu.
– Ha ha!
Það er einmitt það sama og Anna sagði!
Allavega. Við fórum saman til Grænlands, ferðuðumst yfir ísinn, sváfum hjá (ég meina fyrir framan) ísjökum og þaðan kom hugmyndin um bráðið tungumál – formlega (málvísindalega) – og söguefnið: þessar arkífur, þá náttúrusögu sem finna má frosna í lögum jökla og ísjaka.
– Segðu mér frá þemunum í UR.
frá sjø av svevn
Stár opp, og walk in the closet
walk through the walk through closet
og til the vatnklosett.“
– Úr handritinu að UR.
Undirfyrirsögnin í UR er „sju upphaf“. Þetta verk, sem er í smíðum, segir sem sagt frá sjö „upphöfum“. Óhjákvæmilega mun það fjalla um ólíkar birtingarmyndir hins sögulega. Eitt mótífanna – og einn leikmunanna – er ís. Fornan ís, einsog jöklana og grænlandsís, má lesa sem sagnfræðileg lög sem bera upplýsingar um sögu náttúrunnar í gegnum aldirnar. Ísinn kannski bráðnar og brotnar, hann getur verið dramatúrgískt verkfæri. En handritið er líka í sínu eigin upphafi og getur átt eftir að breytast. Hins vegar er ólíklegt er að ég muni nota þann metaflöt „upphafsins“ í verkinu sjálfu.
Draumurinn um norrænt efnahagsmódel algerrar velferðarsælu
– Mér þætti áhugavert að vita hvernig þér sýnist þetta spila inn á norrænar hugmyndir um þjóðerni og uppruna? Eru þetta athugasemdir við slíkar hugmyndir, jafnvel gagnrýni – eða tilheyrir þetta sinni eigin vídd?
Skemmtileg spurning! Og mjög viðeigandi líka. Ég er samt ekki viss hvað þú átt við með „norrænum hugmyndum um þjóðerni og uppruna“. En ef ég skil þig rétt þá ertu að spyrja hvort ég fáist við spurningar um það hverju norðurlöndin deila – út frá menningarlegum, náttúrulegum, sagnfræðilegum, málvísindalegum og pólitískum vinkli. Og ég held ég geri það. Hér kemur margt til.
Hið jákvæða: Að geta lesið á frummálinu bækur frá Skandinavíu, Finnlandi og stundum (þegar þær eru skrifaðar á dönsku) frá Íslandi og Finnlandi. Þetta hefur verið mikilvægur hluti míns bókmenntalega og menningarlega uppeldis. Noregur og norskan urðu einhvern veginn stærri fyrir vikið.
En líka vonbrigði: Það sem ég hélt þegar ég var ung að væri alvöru „norrænt módel“ fyrir velferð, sýndist mér fullorðinni vera bara það: módel. Ekki veruleiki. Þetta kveikti löngun hjá mér til að vera uppbyggileg. Og uppbyggingin sem ég vil stuðla að liggur í tungumálinu. Þess vegna leita ég að máltækjum sem við deilum – formum, orðum eða bara strúktúrum sem við getum þekkt – hvað sem er sem getur skapað merkingu fyrir norðurlandabúum, í útvíkkaðri merkingu þess orðs. Að sýna fram á eyðileggingu draumsins um norrænt efnahagsmódel algerrar velferðarsælu – með eyðileggingu tungumálsins og svo uppbyggingu þess, í formi óðs til þess krafts sem í orðinu býr.
– Ertu að reyna að fremja einhvers konar norræna samheldni?
Trúir þú á norræna samheldni?
– Ég trúi því að samheldni sé eitthvað sem maður geti framið – að hún sé tilfinningaleg, vitsmunaleg og pólitísk ákvörðun.
Hvort líta Íslendingar meira til vesturs (norður Ameríku) eða austur, heldurðu?
– Ég held að Íslendingar líti þangað sem þeim finnst þægilegast að líta á hverju gefnu augnabliki.
Virkar það?
– Að mestu leyti.
Þú segir „þægilegast“ – hvað áttu við? (Ég hef ekki rekið mig á að Íslendingar – þeir sem ég hef hitt – séu latir.)
– Til dæmis, Íslendingar leggja það að jöfnu að ganga í Evrópusambandið við að fá efnahagsástandið í – segjum bara Svíþjóð, ávextina frá Spáni, ostinn frá Frakklandi, verðlagið á Grikklandi …
Aha, hljómar gáfulega samt.
com glorie, til landet!
Com lys, com glorie,
com luxio, eg landa!“
– Úr handritinu að UR.
– Það er það kannski – en það er líka fullkomin ranghugmynd.
Tilfinning fyrir gæðum og úrvali – alls ekki vitlaust.
– Þegar við fáum óskir okkar uppfylltar verðum við alltaf fyrir miklum vonbrigðum.
Hvað gerist svo? Nýjar óskir?
– Við áttum okkur á því að lífið er áfram plokkfiskur, bragðlaust grænmeti og þessi vesældarlegi vetur.
Haha. Það er ekki svo slæmt heldur.
Bókahillan ekki Noregur heldur Norden
– Mér finnst liggja beint við að spyrja – með verk af þessu tagi, sem mætti auðveldlega skilja sem þjóðernislegt, þar sem það fæst við uppruna og öll þessi tákn. Eru verk af þessu tagi algeng í Noregi? Hefur þetta verk einhverja pólitíska skírskotun?
Hvaða tákn?
– Norrænu tungumálin í fyrsta lagi, „norðrið“ í öðru lagi – náttúran, menningin, uppruninn. Jafnvel bara hugmyndin um „hið norræna“ sem eitthvað sérstakt og afmarkað.
Ég gengst ekki við því að librettóið sé þjóðernislegt. Og ég get ekki séð hvernig brotin sem þú hefur lesið geti gefið þér þá hugmynd. Ertu að tengja þetta við Cornelius Jakhelln – sem hefur verið að fást við hið íslenska og norræna arfleið?
[Innskot: Cornelius Jakhelln er norskt ljóðskáld, fyrrverandi söngvari í black-metal hljómsveitinni Sturmgeist – hann hefur skrifað talsvert um hið norræna og það að vera hvítur, bæði í ljóðum og prósa, meðal annars í ljóðabókinni Kosmopolis: Dikt frå den norrøne diaspora, þar sem hann blandar saman hánorsku, nýnorsku, mállýskum og ríkismáli – og ritgerðarsafninu Raseri. En hvitings forsøk på en selvbiosofi, sem má lesa frekar um í áhugaverðu viðtali í Klassekampen: Dr. Jakhelln og Mr. Hyde]
– Mér datt einmitt Jakhelln í hug …
Ég veit að hann hefur verið að fást við norrænu tungumálin, forníslenskuna, alla þá hluti. En ég gengst ekki við því að mitt verk sé því líkt – ekki málvísindalega, þematískt eða í neinu öðru grundvallaratriði. Ég ber mikla virðingu fyrir því sem hann er að gera með tungumálið, svo ég komi því að, það er mikið gæðaverk. Hvers vegna spyrðu að þessu?
riða karlmann bar back
riða karlmann smokklaus
Skal vi born ha?
Skal vi drogar ta?“
– Úr handritinu að UR.
– Því ég upplifi verkið svo að kjarni þess sé norræn þemu – upphafið að ljóðinu minnir á Snorra Sturluson, svo allt þetta tal um fæðingu og uppruna, Darwin og svo framvegis. Verkið rammar af norðurlöndin – og það best ég get séð innifelur það tungumál „upprunalegra“ íbúa, en skilur út undan nýrri tungumál einsog til dæmis pólsku og arabísku. Á þann veg upplifi ég verkið sem þjóðernislegt – og ég meina það sem lýsandi einkunn, ekki dæmandi.
Kannski skil ég ekki orðið „þjóðernislegt“. Á þessu stigi verksins (upphafsstiginu) er ég að vinna mikið með þemað upphaf. Og það er rétt hjá þér að ég reyni að taka inn tungumál hinna ólíku „upprunalegu“ íbúa.
– Tengist verkið bara norrænni tungumálaarfleið eða líka menningararfleið? Hrynjandin í ljóðunum virkar norræn á mig, þótt ég hafi reyndar ekki skoðað það nákvæmlega.
Nei, það tengist ekki bara tungunni heldur líka menningunni.
– Hvaða merkingu hefur það fyrir þér að fást við arfleiðina? Tilfinningalega, vitsmunalega …
Hvötin (sem er þá tilfinningaflöturinn) er upplifun mín af því að vera norræn, að koma frá svæði, ekki bara Noregi. Sérstaklega þegar lýtur að bókmenntum. Þetta hefur skipt mig miklu máli. Ótrúleg tilfinning, að uppgötva (því miður ekki fyrren á fullorðinsárum) að bókahillan mín er ekki bara Noregur heldur „Norden“. Kannski þetta sé ástæðan fyrir því hversu upptekin ég er af íslenskunni og hversu mikið mig langar að geta lesið hana. Svo ég geti nærst af bókmenntum ykkar – og lesið ykkur á upprunamálinu.
– Berðu sömu langanir í brjósti til finnskunnar eða grænlenskunnar? Færeyskunnar? Samískunnar?
Þarf ég að svara þessu? Ég vil ekki móðga grænlenska og finnska kollega.
– Ætli það sem ég hef áhuga á að vita snúist ekki um tengsl hins menningarlega og hins málvísindalega – hvernig samískan og finnskan eða jafnvel arabískan og pólskan koma inn í þetta, þar sem við deilum norrænni menningu en tilheyrum ekki sömu tungumálafjölskyldu.
Ég get sagt þetta: Langvarandi áhugi minn á íslenskri náttúru og menningu gerir það að verkum að ég hef sérstakan áhuga á íslenskum bókmenntum.
Bli Björk
– Ok, sem færir okkur kannski að Bli Björk … Bli Björk kom út árið 2011 og er lýst þannig í kynningartexta:
Af mikilli og hæfileikaríkri innlifun segir Karlsvik frá sögupersónum sínum og samspili þeirra við náttúruna og hver aðra. Í rafmögnuðu, músíkölsku og húmorísku máli fáum við að upplifa náttúruna, menninguna og samfélagið á Íslandi á seinni hluta 20. aldar. Litlu hversdagsviðburðir skáldsögunnar fléttast saman við merkilega heimsviðburði og saman birta þeir heillandi mynd af landi sem er landfræðilega afskekkt en mikilvægt í alþjóðlegu tilliti. Bli Björk er óvenjuleg fjölskylduskáldsaga og í miðju hennar liggur vegur Bjarkar frá barnæsku til heimsfrægðar.
– Kom Bli Björk til af áhuga þínum á Íslandi eða kom áhugi þinn á Íslandi til vegna vinnunnar við Bli Björk?
Bókin kom til vegna áhuga míns á Íslandi.
– Hvenær kom hann til? Eða jafnvel frekar, hvernig?
Líklega byrjaði það í United World College sem er menntaskóli sem ég gekk í frá því ég var 15 til 17 ára. Alþjóðlegur skóli í Sunnfjord í Noregi. En hann hefði allt eins getað verið í Svasílandi eða Hong Kong, við vorum ekki nema 100 nemendur á hverju ári, um það bil tveir frá hverju landi, í afar litlu rými. Ég var kannski of ung, fannst ég svo lítil þarna. Svo mikið af gáfuðu fólki. Svo mikið af stórum málefnum. Þetta var mjög mikill hugsjónaskóli. En einn af herbergisfélögum mínum (við vorum fimm) var sem sagt frá Íslandi og með henni fannst mér ég eiga heima.
Þegar ég varð aðeins eldri ferðaðist ég til Íslands, áhugi minn jókst, og mig langaði að draga upp einhvers konar mynd af landinu – og skrifa um tilurð þess – frá menningarlegum, pólitískum, náttúrulegum og jarðfræðilegum vinklum. Og já, þannig kom þetta til.
Taldi Guðmund sáttan við tilurð bókarinnar
– Mér finnst stundum einsog útlendingar sem hafa áhuga á Íslandi hafi einhvers konar „noble savage“ hugmyndir um landið, að allir séu einhvers konar náttúrutalent og dálítið skrítnir og það hafi allt með náttúruna að gera, fjöllin og hverina, einhvern veginn – frekar en að þetta sé bara enn eitt vestræna landið – og auðvitað spila margir Íslendingar með í þessu, gefa jafnvel í ef eitthvað er, láta einsog harðfiskur sé besti matur í heimi og auðvitað trúi þeir á álfa og svo framvegis. Ertu sammála? Hvernig upplifirðu tengslin á milli Íslands-einsog-það-kynnir-sig og þess Íslands sem þú upplifir þegar þú eyðir lengri tíma hérna?
Harðfiskur er mjög góður. En það er norskur tørrfisk líka (þurr fiskur, sama). Þannig að ég veit það ekki. Í fyrsta lagi eru útlendingar ekki allir eins, alveg einsog einstaklingar eru ólíkir (o.s.frv.).
–Jú jú, en þú veist hvað ég meina – látalætin.
Já, ég skil. Íslenskur rithöfundur, ég man ekki hver það var en ég vitnaði formlega til þess í viðtalsbókinni minni „Post oske / Dagar og netter i Reykjavik“, kynnti mig einu sinni fyrir kenningu um hvers vegna það séu svona margir listamenn á Íslandi (sem ég reikna með að sé bara hrein tölfræði, ekki satt?) – að það hafi að gera með tímann sem þið voruð hluti af Danmörku, með frelsi til að leggja stund á listir. Ég skildi höfundinn svo að Danmörk hafi séð um skipulagið, hið praktíska og verklega. „Íslendingarnir“ voru frjálsir og gátu leikið sér og sungið.
En svo hafa aðrir lagt fram kenningar um áhrifin af kanaútvarpinu.
– Í þau fáu skipti sem einhver hefur kannað tölfræðina á bakvið þessar fullyrðingar um listamennina kemur alltaf í ljós að þær eru mikið ýktar – ef ég man rétt þá reyndist eitt sinn „svo og svo margir munu gefa út bók um ævina“ hafa verið „svo og svo margir munu birta eitthvað á prenti“, að meðtöldum minningargreinum, sem næstum allir skrifa einhvern tíma).
Ég held það sé samt eitthvað með stærðina. Ef maður fer til Þórshafnar í Færeyjum, þar sem búa um 15 þúsund manns, þá rekst maður á óteljandi listamenn sem eru meira og minna atvinnumenn, þar er þjóðleikhús og sinfoníuhljómsveit og almennt mjög ríkulegt menningarlíf. Og það slær mig að til þess að viðhalda „þjóðríki“ þurfi maður að „fremja þjóðríki“ og til þess að fremja það þurfi maður lágmark af listamönnum og menningarstarfsmönnum. Þetta lágmark er ekki einföld prósenta heldur hausafjöldi. Það dugar ekki að hálf manneskja vinni í þjóðleikhúsinu – maður þarf heilan leikflokk og maður þarf jafn mörg ný leikrit og fólk hefur tíma til að hlusta á jafn mörg ný lög og svo framvegis, alveg sama hvað þjóðin er stór.
En fínt. Mér líkar þetta með að þurfa að „viðhalda þjóðríki“ og „fremja þjóðríki“. En svo er menningin ekki eini faktorinn – hvorki til að viðhalda eða fremja þjóðríki. Ég reikna með því að maður finni staði þar sem stjórnmál og jafnvel efnahagsmál eru þess lags performans.
Þegar kemur að Bli Björk snerist verkefnið að hluta um að horfa á hinar ólíku sjálfsmyndarbyggingar; hvað skapar sjálfsmynd þjóðríkis og úr hverju er það, hvernig þau atriði birtast í texta og tungumáli.
– Er klúrt að spyrja hvernig bókin hafi svarað þessum spurningum?
Nei, alls ekkert klúrt! Ég vonaðist til að spegla stærri söguna – hugmynd mína um Íslandssöguna – í smærri sögu einstaklings. Og strax þar birtist ástæðan fyrir ákvörðunum mínum um málnotkun: annarrar persónu sögumaður („avsender“ / „utsiger“) sem hefur máls á viðfangsefnunum. Sögumaður sem tekur svo óhjákvæmilega ábyrgð á túlkuninni og fríar svo viðfangsefnin ábyrgð á því sem sagt er um það. Það er mjög skýrt „ég“ sem ávarpar „þig“ – og, einsog þú veist, eru minni sögurnar sögur Guðmundar Gunnarssonar sem fæddist á næstum sama tíma og íslenska lýðveldið varð til. Sögunni lýkur svo við upphaf sólóferils Bjarkar Guðmundsdóttur.
– Mig langar að spyrja að lokum um það „ósætti“ sem bókin vakti, að minnsta kosti á Íslandi. Hér kom fram í fjölmiðlum að ýmsir væru óánægðir með bókina – Guðmundur Gunnarsson fordæmdi vinnubrögðin, og Björk sjálf sagði að henni þætti tilhugsunin um verkið ógeðsleg. Nokkru sinni hafa komið upp deilur á Íslandi vegna þess að rithöfundar hafi notað ævisögur fólks sem upplegg í skáldskap – frægast af nýjum dæmum er bókin Konan við 1000 gráður eftir Hallgrím Helgason, en það eru líka eldri dæmi svo sem Heimsljós eftir Halldór Laxness. Hvernig sérðu þetta frá siðferðislegu sjónarmiði – má listamaður taka ævisögu einhvers og búa til úr henni list? Og ef við samþykkjum að Björk sé opinber persóna sem þurfi að lifa við annan mælikvarða í þessum málum, hvað þá um Guðmund, sem er varla nein súperstjarna?
Í fyrsta lagi vil ég segja að ég verð óróleg að þurfa að svara spurningu sem vísar til texta sem ég hef ekki lesið. Þar á ég við texta á íslensku, í íslenskum dagblöðum, og möguleikann á opinberri umræðu sem ég var ekki hluti af og vissi ekki um. Svo: Ég finn hvorki til þarfar né ábyrgðar að svara þeirri spurningu, í prinsippinu, hvort listamenn megi – almennt séð – taka „ævisögu einhvers og gera úr henni list“. Svarið er ólíkt í hverju tilfelli fyrir sig. Þegar það kemur að spurningu þinni um Guðmund þá var það minn skilningur að hann væri sáttur við að ég skrifaði skáldskap upp úr ævi hans.