Bandaríski listamaðurinn og rithöfundurinn Miranda July hefur gefið út skilaboðaapp fyrir iPhone sem nefnist Somebody. Appinu er ætlað að veita skilaboðaþjónustum – einsog SMS og Messenger – aukna persónulega nánd. Það virkar einfaldlega þannig að maður sendir skilaboð og forritið finnur einhvern notanda sem er í nágrenni viðtakandans, sá fer og finnur viðtakandann og flytur honum skilaboðin í eigin persónu, jafnvel með leikrænum tilþrifum (það má senda leikstjórnarbendingar með).
Somebody virkar best þegar margir notendur eru staddir á einhverjum einum gefnum stað, svo sem í sama skóla, sama vinnustað, í stórum veislum og tónleikum. Slíkir staðir eru hvattir til að skilgreina sig sem „Somebody hotspot“ og bjóða gestum og gangandi sérstaklega að nota appið. Nokkrir slíkir staðir eru opinberlega skráðir heitir reitir fyrir Somebody, svo sem Kvikmyndahátíðin í Feneyjum og Los Angeles County Museum of Art.
Líkt og segir í tilkynningu er mesta „hátæknin“ í appinu ekki fólgin í forrituninni heldur fólkinu sem flytur ókunnugum skilaboðin. „Í þessum skilningi er Somebody langdrægt alþýðulistaverk sem hvetur til performansa og snýr upp á ást okkar á avatörum og útvistun. Somebody er andstæðan við nytjahyggju- og skilvirkniloforð tækninnar, hér er loksins komið app sem gerir okkur taugaóstyrk, svimandi léttúðug og meðvituð um fólkið í kringum okkur.“
Miranda gerði líka stuttmynd sem lýsir ferlinu.
Hægt er að hlaða niður appinu í Appstore.
via Somebody.