Nútímaskáldin, og þá á ég við skáld á 20. öld og fram á okkar daga, varpa svo landslaginu inn á við og yrkja um hugarheima. Þetta greini ég einna helst hjá Gyrði Elíassyni. Þá erum við komin í mjög huglæga náttúru og kortlagningu sálarlífsins út frá landslagshugtökum sem er mjög forvitnilegt fyrirbæri. Um leið hefur Gyrðir, og ýmis önnur nútímaskáld, mjög næma tilfinningu fyrir umhverfinu. Ljóðmælendur Gyrðis eru oft á gangi en gangan er áberandi fyrirbæri í evrópskri rómantík, og þetta útfærir Gyrðir á sinn hátt. Hann er alls ekki hreinræktaður rómantíker en mér finnst samt merkilegt að sjá hvað gönguhefðin er sprelllifandi í ljóðum hans.
Sveinn Yngvi Egilsson, höfundur bókarinnar Náttúra ljóðsins – Umhverfi íslenskra skálda , spjallar við Kolbrúnu Bergþórsdóttur via Skáld og rómantík – mbl.is.