Málverk Erics Feather af Kristi að metta fjöldann.

Smituð af hungri réttlætis: Prédikanir á föstu

„Gef öllum þeim sem hungra brauð þitt, en hungur réttlætis þeim sem nóg eiga brauð.“
– Úr suður-amerískum altarisgöngusálmi.

Það er nokkur list – sér í lagi í prédikun – að skilja mál sitt eftir í því tómi að þeir sem hlýða velti þeim punktum sem fram voru settir í hófsemd og komist að eigin niðurstöðum. Prédikun Steinunnar Arnþrúðar Björnsdóttur í Hjallakirkju s.l. sunnudag var látlaus en áhrifamikil prédikun sem skilaði heilmiklu inntaki í guðfræðilegri hugsun – og velti upp nýjum flötum á skilningi okkar á umdeildu hugtaki í kirkjulegu orðfæri, nefnilega kraftaverkinu sjálfu. Til umfjöllunar var ein útgáfa hins vel þekkta guðspjallaminnis, þegar Jesús mettar fimm þúsund karlmenn og kó, á Olíufjallinu. En það sem meira er – Steinunn tekst á við frásöguna, veltir upp flötum á henni sem líklegt er að færri hafi velt fyrir sér en ekki og kemst að niðurstöðu – ólíkt prédikurum síðustu vikna – út frá vangaveltum sínum. Það er því eðlilegast að við komum strax að þeim: Guðspjallið í dag hvetur okkur til að sjá möguleikana, ekki ómöguleikana. Minnir okkur á skyldur okkar, minnir okkur á að bera gjafir okkar fram fyrir Jesú og biðja hann að nota þær. Og treysta því að þannig fáum við saman komið einhverju til leiðar.

Að mínu mati er þarna gert nákvæmlega það sem er æskilegt í prédikun; lítil staðbundin frásaga (local) er lögð fram og rýnd þannig að á henni finnst flötur sem talar til allra á öllum tímum allstaðar (global). En bíðum nú við! Niðurstaða hennar um söguna af því þegar Jesús mettar 5000 var ekki sú að gæinn sé æðislegur galdrakall og ef við bara trúum á hann þá, gerist eitthvað rosalegt kraftaverk í lífi okkar. Hún fær út „skyldur okkar“ – „gjafir okkar“ – og „trú okkar á að koma einhverju til leiðar.“ Við eigum að biðja Jesú um að nota hæfileika okkar til að bæta heiminn. Hvernig? Að hugsa sér. Án þess að segja það sagði Steinunn okkur nefnilega sögu af hópi fólks sem smitaðist af hungri réttlætis fyrir nærveru Jesú.

Vel uppbyggt verk

„Síðan er brauði og vatnsblönduðu víni deilt til viðstaddra og hluti af því fer einnig til þeirra sem ekki gátu komið. Að því loknu er söfnun og þau sem standa vel og hafa til þess vilja, gefa það sem þeim þykir rétt. Og það sem safnast er borið til þess er leiðir söfnuðinn sem deilir því til munaðarleysingja, ekkna og þeirra sem vegna veikinda eða af öðrum ástæðum líða skort og „ókunnugra sem dvelja meðal vor“.“
– SAB vísar í Apológíu I eftir píslarvottinn Jústinus.
Leynt og ljóst koma prédikarar samtímans orðum að mikilvægi samfélags í kristinni trúarhugsun, hin sameiginlega samfélagsmáltíð er enda kjarni hins litúrgíska lífs kirkjunnar. Mismunandi skilningur liggur að baki máltíð hins heilaga sakramentis og enn fleiri færast frá túlkun þess sem forsmekks að „la grand buffet du ciel“ – gnægtaborði himnasælunnar – heldur horfa til brauðsbrotningarinnar sem atburðar sem tengi þiggjendur sakramentisins hér og nú saman í einingu safnaðarins. Sú túlkun kallast á við frásöguna af mettun hinna 5000 því Jesús öskraði ekki yfir hópinn „jæja iðrist nú hér öll saman og ef þið verðið góð þá galdra ég upp handa ykkur einhverju að borða“. Ellegar með öðrum orðum hin himneska fæða er ekki verðlaun fyrir að játa syndir sínar heldur er hin samfélagslega vídd, að deila og njóta saman, meginatriði.

Steinunn hóf prédikun sína á vísun í þetta samhengi áður en hún lagði af stað hina í klassísku leið að endursegja að hluta guðspjallið. Hún lýsir atburðum, fólki, persónum – en það sem skiptir meginmáli er að hún setur sig í spor áheyrandans og talar til hans. Skyndilega, þegar ég var að þreytast á endursögninni og komið var að kraftaverkinu stoppar hún við og afvopnar þann sem situr við með sinn sósíal-realistiska ritskýringarbakgrunn og kallar fram kenninguna sem liggur að baki skýringu margra fræðimanna á þessum atburði, mettun hinna 5000. En hún setur þessa gagnrýni á „kraftaverkið“ í samhengi hins almenna áheyranda, svo að ef hann hafði ekki hugsað það sjálfur, þá líður honum skyndilega eins og þessi nýi flötur á málinu hafi verið hans eigin hugmynd. (Í stað þess að segja; margir fræðimenn hafa haldið því fram að… sem framandgerir áheyrandann frá því að eiga hlutdeild í hinni krítísku sýn á guðspjöllin.) Snilld prédikunarinnar er síðan falin í því að halda áfram frá þessum tímapunkti með hugleiðingar sem eiga erindi, hugleiðingar sem varpa öðru ljósi á það hvað við köllum kraftaverk á meðan hún heldur því jafnframt til streitu að við séum að tala um kraftaverkasögu, hvort sem að Jesús braut þessi fimm brauð og útdeildi þessu fiskapari þannig að eftir stóðu 12 fullar körfur af mat, eða því að drengurinn sem bauð fram allt sitt svo Jesú gæti blessað það orsakaði viðhorfsbreytingu hjá fólkinu. Bara svo að það sé ljóst þá hreifst ég af útleggingu Steinunnar og ástæðan er ekki sú að ég hefði sjálfur farið þessa leið því ég hefði boðið upp á þrælleiðinlegan sögulegan samanburð á Jesú og Móse og samsvöruninni í frásögunni við hið himneska brauð barg Ísraelsmönnum í eyðimörkinni.

Áheyrandinn verður þátttakandi í atburði guðspjallsins

Straumar og stefnur í samtímaprédikun eru á síðustu árum sífellt að taka meira mið af því við hvaða aðstæður og inní hvaða orðræðu er talað. Við hverja er talað? Það er að mínu mati vel leyst í máli Steinunnar, verandi útvarpsprédikun, að fara ekki út í beint ávarp; „ert þú þessi drengur“ – „hvað getur þú gert eða ég“ – heldur draga áheyrandann inn með almennri dæmisögu. Jesú talaði í dæmisögum og þær eru vinsælt efni í guðspjöllunum, sem og sunnudagaskólunum, því þær tala almennt um manninn. Þannig verður sá sem heldur áfram að fleygja krossfiskum í sjóinn og drengurinn sem bauð fram byggbrauðið sitt að andstæðu hinna skynsömu – efahyggjunnar – sem real-pólítísera allt, Filippusar, Tómasar og mín og þín.

Áhrifin standa eftir og spurningarnar um hvaða skilnings- og túlkunarhjálp prédikunin býður upp á og hvert tilboð hennar um sjálfskilning er, standa eftir. Hlutverk þessa kjarna lúterskrar messu er að bjóða heilbrigða og holla skilnings og túlkunarhjálp, en um leið að efla og dýpka sjálfskilning hvers og eins. Áheyrandinn fær í þessari prédikun dýpri skilning, ný túlkun opnar nýja sýn og þannig áttar maður sig á því að við sjálf getum líka. Við höfum reisn, hæfileika – og síðast en ekki síst – við höfum trú. Trú á hið ómögulega, að ef við leggjum okkur fram þá geti af hlotist blessun.

Má áheyrandinn skipta meira máli en Jesú?

Það má vissulega spyrja sig hvort að þær hugmyndir séu að breytast hjá yngri kynslóð presta í landinu hvert hlutverk þeirra er og í því samhengi hvort þeir líti á prédikunina sem annars konar miðil en eldri kynslóðin. Síðustu þrjá sunnudaga höfum við skoðað prédikanir hvítra karla í kringum sextugt og þó þeir hafi allir haft mismunandi bakgrunn þá hefur skinið í gegn eitthvað sem að mínu mati hefur ekki gengið upp. Kannski er það ég – en fyrst og síðast hefur það verið þetta: Forsendurnar hafa ekki verið marktækar. Áheyrandinn hefur að því að mér virðist ekki skipt máli og því hefur erindi prédikunarinnar ekki náð í gegn. Forsenda þess að fólk taki mark á prédikun er sú að fólk hlusti og fólk hlustar þegar það er verið að tala við það, um það og skýra út fyrir því eitthvað sem skiptir máli. Þessir mannlegu þættir sem prédikun Steinunnar inniheldur skipta meiru en það að hún sé kona undir fimmtugu eða þjálfaður höfundur annarsskonar texta (barnabóka og fjölmiðlatexta). Og sá bakgrunnur og reynsla sem skín í gegnum fjölbreytta punkta sem hún styrkir prédikunina með, þó án áreynslu eða tilgerðar, vekur manni áhuga á að kynnast guðfræði hennar frekar. Er það Steinunn eða íslenska þjóðkirkjan sem er að segja „gef oss í dag vort daglegt brauð“ á sama tíma og hún segir „gefðu hungur réttlætis þeim sem eiga nóg brauð“? Og er það nóg að nærvera Jesú skipti okkur máli – breyti hugarfari okkar? Má áheyrandinn og tilfinningar hans eða upplifun skipta meira máli en að orðræðan snúist bara um Jesú?

Það er að mörgu leyti áhugavert að sú kynslóð presta sem sýnir prédikuninni alúð og hvað mesta athygli, með virkni á námskeiðum um prédikanagerð og prédikunarfræði, skuli einnig vera framarlega í hinni svokölluðu helgisiðahreyfingu. Það er að vísu skylt því hvernig tök Steinunn tók texta sem varðar helgisiðahreyfinguna miklu, hún hafði djúpa sýn á hann, en það segir okkur líka að metnaður liggur þar fyrir öllum þáttum þessa grunnþáttar kirkjulegs helgihalds, sunnudagsguðsþjónustunni. Messan í Hjallakirkju var afskaplega fallega kompóneruð og að mér heyrðist vel flutt, en hræðilegar tæknilegar hljóðtruflanir vegna tækjabúnaðar gerðu útsendinguna þaðan að mjög erfiðri upplifun mín megin viðtækisins. Að vísu kveikti það sterka löngun til þess að vera í kirkjunni frekar en heima, en vissulega ekki á réttum forsendum.

„Þetta eru samtímalýsingar Jústínusar og þær sýna okkur að hin fyrstu kristnu sáu það sem hlutverk sitt að hjálpa hvert öðru og sjá til þess að enginn liði skort. Boðskapur Krists tengdist ekki eingöngu andlegri líðan, að vera kristinn snérist um að láta sig velferð náungans varða. Blessun brauðsins og útdeiling í helgihaldinu tengdist órjúfanlega því að bjóða öllum að leggja af mörkum af auði sínum til að gefa þurfandi.“
SAB úr kraftaverk og ranghverfan

Aðalatriðið í því hvernig Steinunn prédikaði, án þess að setja boð eða marka afdráttarlausar línur í sandinn um rétt eða rangt, breytni eða pólítík, þá benti hún á fordæmi og hefð kirkjunnar. Og kirkjan lætur sig varða. Fordæmið er hápólítískt.

Það sem breytist í prédikuninni þegar meginþunginn er ekki á aðalpersónuna í farvegi persónudýrkunar heldur á áhrif persónunnar á einstaklinga og samfélag, á guðsmynd og heimsmynd, er mikilvægt út frá breyttri stöðu prestsins í nútímasamfélagi. Það er uppi krafa um samtal en ekki einræðu, visku fremur en boðun. Prédikarinn er nefnilega ekki leiðtogi eða kennimaður eins og áður var (listamennirnir hafa tekið við því hlutverki í siðferðis- og samfélagsumræðunni) heldur er hann jafningi; sálgæsluaðili þegar bjátar á, vinaleg rödd á hátíðarstund sem ræðir það jákvæða og uppbyggilega í lífi og trú. Prédikun Steinunnar má því kalla góða á nútímalegan hátt; hún var vinaleg og bar með sér visku, víðsýn og vönduð smíð. Í Guðs friði.