Skúli mennski er uppalinn á Ísafirði og hóf að semja eigin lög og texta á unglingsaldri. Árið 2010 ákvað hann að gera alvöru úr sinni tónlistariðkun og beit það í sig að gefa út fimm plötur á fimm árum. Nú vantar aðeins eina uppá. Stefnan er að taka hana upp í haust, fjármagna verkefnið og koma henni út í nóvember.
Á þessum stutta tíma hefur Skúli komið fram á mörgum helstu tónlistarhátíðum á Íslandi og haldið tónleika víða um land, gefið út fjórar plötur með hljómsveit og reynt fyrir sér erlendis.
Samhliða gerð fimmtu plötunnar býður Skúli neytendum upp á þá nýjung að gerast ársáskrifendur af störfum hans. Áskriftinni fylgja auk eins lags á mánuði, dagbók með því sem helst er á döfinni, almennum vangaveltum og bransasögum og kostakjör á tónleika og af útgefnu efni.