Sjö aðra sér verri: Prédikanir á föstu

„Látið engan tæla ykkur með marklausum orðum því að vegna þessa kemur reiði Guðs yfir þá sem hlýða honum ekki.“ (Ef.5.7)

Það má með sanni segja að textar föstunnar séu með þeim torveldari þegar kemur að verkefni prestsins að leggja út af, glaðsinna og bjartsýnn, sóknarbörnum sínum til upplyftingar og mannbætandi íhugunar. Guðspjall síðastliðins sunnudag er eitt af þeim brotum úr guðspjöllunum sem kirkjan hefur valið sér til útleggingar í gegnum aldirnar – og við tökumst á við í prédikuninni þrátt fyrir að t.a.m. skilningur okkar á „illum öndum“ og málleysi, geðveiki og öðrum kvillum sem Jesús lagði sig fram um að lækna með „kraftaverkum“ sínum, sé annar í dag en var á fyrri tíð. Það er því eðlilegt að ákveðinn vandi sé þeim á höndum sem leggur út af textanum ef hann kýs að einbeita sér að þessum kjarna atriðum, hinu sögulega, sjúkleikanum og lækningunni, persónunum og rökræðunni. Tilsvör Jesú – þegar hann er ásakaður um að lækna með fulltingi illra anda – eru nefnilega nokkuð tyrfin og nægt fóður í þeim til að drífa áfram mjög „lærða“ prédikun. Sóknarprestur Hafnarfjarðarkirkju, þó lærður sé og vel máli farinn, sr. Jón Helgi Þórarinsson, fer þó ekki þá leið. Vandi messurýni sem þessarar kristallast því í því hvort um eiginlega messurýni sé að ræða eða prédikunarrýni, þar sem innihald messunnar per se er víðtækara en svo að kjarninn, prédikunin, sé megin inntak þess boðskapar sem kirkjan vill flytja.

Hafa mætti nokkur orð um þá listilegu smíð sem messan var, flutning tónlistar og val á sálmum, bænasvörum eða öðru slíku, en undirritaður verður að viðurkenna að þekkingarskortur háir rýni í þá þætti messunnar sem mótuðu heildaryfirbragðið fyrst og fremst. Miskunnarbæn var úr fornum tónlistararfi, einsöngvari flutti – Barbörukórinn söng sálma – og var það allt gert af miklu listfengi; það stafaði af því öllu mikilli helgi og hrífandi hástemmt andrúmsloft gerði guðsþjónustuna að mjög áheyrilegu efni. En það breytir því ekki að guðspjallið og útlegging þess er kjarni þess sjónarspils sem umgjörðin, messan, er og þegar að því kemur að rýna í þann boðskap sem þar var fluttur má segja að allt hitt verði hjóm. Jón Helgi heyktist nefnilega með stakri prýði á því að leggja út af guðspjalli dagsins. Vissulega má segja að hverjum prédikara sé í lófa lagt hvert hann heldur með túlkun sína á fagnaðarerindinu, og að aðferð Jóns sé viðurkennd nálgun, en eins og lagt var upp með í forsendum þessarar rýni þá getur það ekki orðið mælikvarði á prédikun kirkjunnar hvernig hverjum og einum tekst að koma sér hjá því að ræða ritninguna, þó vissulega afsakist að ræða margt annað – ef það stendur í beinum tengslum við túlkun viðkomandi á guðspjallatexta dagsins. Sundurliðun og greining á kómpósisjón prédikunarinnar á því ekki við – þó að hún hafi verið áheyrileg og uppbyggileg hugleiðing – þar sem hún snerti í eðli sínu ekki á neinu af þeim vandamálum sem felast í guðspjallatextanum sem lagt skyldi út af, 11. kafla Lúkasar, versum 14-28.

„Jesús var að reka út illan anda og var sá mállaus. Þegar illi andinn var farinn út tók málleysinginn að mæla og undraðist mannfjöldinn. En sumir þeirra sögðu: „Með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda, rekur hann út illu andana.“ En aðrir vildu freista hans og kröfðu hann um tákn af himni.

En Jesús vissi hugrenningar þeirra og sagði: „Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hús fellur á hús. Sé nú Satan sjálfum sér sundurþykkur, hvernig fær ríki hans þá staðist – fyrst þér segið að ég reki illu andana út með fulltingi Beelsebúls? En reki ég illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn þá út? Því skulu þeir vera dómarar yðar. En ef ég rek illu andana út með fingri Guðs, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið.

Þegar sterkur maður, alvopnaður, varðveitir hús sitt, þá er allt í friði sem hann á en ráðist annar honum sterkari á hann og sigri hann tekur sá alvæpni hans er hann treysti á og skiptir herfanginu.
Hver sem er ekki með mér er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir.

Þegar óhreinn andi fer út af manni reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis. Og er hann finnur það ekki segir hann: Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór. Og er hann kemur og finnur það sópað og prýtt fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri og þeir fara inn og setjast þar að og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður.“

Er Jesús mælti þetta hóf kona ein í mannfjöldanum upp rödd sína og sagði við hann: „Sæll er sá kviður er þig bar og þau brjóst er þú mylktir.“

Jesús svaraði: „Já, því sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það.“

Lúk 11:14-28

Að drepa á dreif eða vera tæklaður af Guðs orði

Að þessu sögðu er vissulega hægt að gera tvennt; það er hægt að segja það skiljanlegt að velja sér „annan kjarna“ í textum dagsins – sem Jón Helgi gerir – til að leggja út af. Eða það er hægt að taka áskorun prédikunarfræðanna og segja: Eina aðferðin sem dugir er sú að taka það sem er erfiðast og reyna að skýra það svo nokkru nemur því að til þess ætlast sóknarbarnið og hefðin af mér. Það sem er óskiljanlegt eða torrætt, því á presturinn að leggja út af, svo að við stöndum einhverju nær um það „hvert erindi textans er í raun og veru, hafið yfir afstæði tíma og rúms“. Guðs orðið hreint og ómengað – því að jú við þráum sælu fagnaðarerindisins: „Já, því sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það.“ (Lúk. 11.28)

Það er ekki ætlun mín að leggja í eigin ritskýringu eða útleggingar, eigin prédikanir um hvert erindi guðspjallatextanna á þessari föstutíð er, en þó ber manni skylda til að ávarpa þetta magnleysi prédikarans með einhverjum hætti. Myndin sem hann varpaði upp af leiknu atriði úr bíómynd um trúarhetjuna Móður Theresu hafði nefnilega ekkert með neinn af textum dagsins að gera í raun og veru, þó hann hafi reynt að láta líta út fyrir að svo hafi verið með því að tengja saman boð nunnunnar til reglusystra sinna um að brosa við þann boðskap Páls postula í bréfi sínu til Efesusmanna að „lifa í kærleika eins og Kristur elskaði okkur…“ – Ástæðan fyrir því að ég fullyrði þetta er sú að það er gjörólíkt sem fylgir þessum boðum; hjá Páli er nefnilega dregið upp í framhaldinu hverjir séu undanskildir og muni ekki eiga upp á pallborðið í ríki Guðs á meðan Móðir Teresa er að hughreysta kærleiksreglu-systur í þrotlausu starfi þeirra á meðal þeirra sem hafa verið undanskildir og hafa ekki – vegna útskúfunar samfélagsins – átt upp á pallborðið í mannlegu samfélagi. Texti pistilsins úr 5. kafla bréfsins til Efesusmanna er ekki settur í úrval dagsins til að úr honum sé dregin ein lína til að hamra á með einhverju bjartsýnishjali, heldur stendur hann í beinum tengslum við þungamiðju guðspjallatextans: „Hver sem er ekki með mér er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir.“

Hver sem er ekki með mér…

Leið ritskýringarinnar: Þegar horft er til hinnar klassísku ritskýringarleiðar sem hverjum prédikara ætti að vera hugstæð kemur mér fyrst í hug að tefla á móti þessari harkalegu yrðingu Lúkasar útgáfu Markúsar af svipaðri orðræðu þar sem hann lætur Jesú segja „Sá sem er ekki á móti okkur er með okkur.“ (Mark.9.40) Í því fælist spenna sem er áhugaverð – en leiðir hugann vissulega á hinar lærðu nótur prédikunar þar sem útskýra þyrfti það samhengi sem textinn sprettur úr. Með því hefði gefist tilefni til að ræða þá afgerandi þörf í tvíhyggjuhugsun hins helleníska heims til að kveða skýrt úr um það hvers sé þörf til að teljast í réttu liði. Boðun kristinnar kirkju breytist jú með tíðarandanum og ljóst er að Jesú Markúsar er ekki á sama stað hvað varðar að varpa upp myndinni af með og á móti heldur tekur hann skýrt fram að þeir sem ekki vinni gagngert á móti boðun hans megi vænta þess að verða umbunað fyrir miskunn og kærleika, þó þeir taki ekki skýra afstöðu með hinu frumkristna samfélagi.

En leið ritskýringarinnar er líka gagnleg í öðru samhengi, ef við veljum aðra brennipunkta í guðspjallinu; til að mynda um hvað Jesú er ásakaður. Honum er legið á hálsi að önnur og óæðri öfl, hin myrku öfl, séu honum að baki þegar hann læknar.

Vissulega er það samhengi sem gæti kallað á ítarlega greiningu á birtingarmynd lækninga í samtímanum, hvort sem andlegar lækningar, heilun og náttúrulækningar eða andstaða við bólusetningar væri til umræðu. En meginatriðið er að með einfaldri ritskýringu mætti draga úr offorsi þeirrar tengingar sem Belsebúbb (oft tiltekið sem eitt af viðurnefnum hins illa sjálfs, Satans) hefur við myrkraöflin í Biblíutextunum. Þá leið velur t.a.m. annar prédikari Þjóðkirkjunnar í glímu sinni við textann – og er vel – til þess að skýra fyrir hlustendum sínum samhengið. Sigurvin Jónsson segir í prédikun sinni í Laugarneskirkju þennan sama sunnudag og leysir þar vel tenginguna á prédikun sinni við mátt bænarinnar, sem er vissulega inntak þeirra lækninga sem ræddar eru í guðspjalli dagsins:

Lækningar hans eru dregnar í efa af andstæðingum sínum, líkt og víða í guðspjöllunum, og í þetta sinn er ásökunin að hann reki út hið illa vegna þess að hann sé sjálfur handbendi þess eða„með fulltingi Beelsebúl”. Nafn djöfulsins í þessari frásögn var gyðingum þekkt, en Baal Zebul merkir á máli Fílistea Guð hinn hæsti og var því guð nágrannaþjóðar Ísraels á tímum Davíðs konungs.

– Sigurvin Jónsson úr Skrímslin undir rúminu.

En ritskýringarleg atriði ein og sér leysa ekki allan vanda nútímaprédikarans, þó fræðandi orðræða samsamist vissulega því markmiði sem Lúter setti á oddinn þegar prédikunin varð kjarnaatriði þess breytta messuhalds sem siðbreytingin hafði í för með sér. Það er líka þörf á túlkun. Undirritaður færi helst til geyst ef hann gerði að sínu að velja úr hinum mörgu túlkunaratriðum eða möguleikum og gera rýnina að prédikun í sjálfri sér. Því er heppilegra að benda á fordæmi annarra, þar sem leið ritskýringarinnar verður ekki kjarnaatriði heldur skapandi túlkun á textanum inn í samtímann. Í því samhengi skulum við fyrst skoða niðurlag orða Jesú um illu andana.

Þegar óhreinn andi fer út af manni reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis. Og er hann finnur það ekki segir hann: Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór. Og er hann kemur og finnur það sópað og prýtt fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri og þeir fara inn og setjast þar að og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður.

Hin skapandi túlkun

Þegar við hreinsum okkur af illri breytni þá þurfum við að svara kalli kærleikans og rækta okkur, að ala með okkur góða breytni til að tóm myndist ekki í vel sópuðu og prýddu sálarskoti okkar. Við erum kölluð til að vera virk á meðal manna til að tala saman, leysa úr og koma fram af djörfung og heiðarleika. úr Að fylla góðmennsku á mal sinn,
– GRM

Það getur þótt áræðið þegar allt kemur til alls að takast á við eiginlega heimfærslu textans inn í samtímann, og þá sér í lagi ef í honum finnast eiginlegar hliðstæður þannig að það komi við kaunin á einhverjum að guðspjallið tali inn í aðstæður sem við þekkjum. Ef erindi kirkjunnar aftur á móti sem túlkandi samfélags sem lítur á það sem svo að einhverskonar æðri viska felist í textum hvers sunnudags þá er það skylda (þó krefjandi sé) að leita að þessum snertifleti guðlegra sanninda og veraldlegs lífs. Það mætti nefna dæmi um það hvernig guðsorðið hefur talað beint inní líf og starf kirkjunnar með ögrandi hætti á síðari árum til að undirstrika að þessi tenging er stundum óumflýjanlega augljós en í samhengi síðasta sunnudags er skemmtilegra að vísa til þess hvernig skapandi afstaða prédikarans getur varpað upp algjörlega nýju sjónarhorni á atburði líðandi stundar – jafnvel þannig að það verður að taka það til alvarlegrar íhugunar (taki maður föstu-íhugunina þannig). Í meðförum Gunnars Rúnars Matthíassonar verður þetta ískyggilega samhengi til, þegar hliðstæða er gerð úr manninum sem óhreini andinn var rekinn úr (myndlíkingin hús er notuð í guðspjallinu) og þess samfélags sem við lifum í. Á frumlegan hátt kallar Gunnar fram mynd af þjóðfélagi sem var haldið óhreinum anda fyrir hrun, en leitaðist við að reka hann út og hreinsast. Andinn aftur á móti reikar um og finnur ekkert hæli og vill hverfa aftur í hús sitt. Þegar hann kemur aftur finnur hann það sópað og prýtt:

Hvað skyldi komið í stað þess sem var? Er það kærleikur, heiðarleiki og aðgát í samskiptum og skyldum sem við höfum í störfum okkar og samfélagi. Nú þessum árum eftir þjóðarfall okkar þurfum við að íhuga hvort hreinsun áranna sem umliðin eru hafi orðið til þess að eitthvað meira óheilt hafi vaxið í tómi fálætis. Við þurfum að rækta gott. Við þurfum að fylla hugi og samfélag okkar umhyggju, virðingu og elsku sem allt eru hornsteinar kærleikans sem við erum kölluð til að fylgja.

Ef maður gerist svo djarfur að túlka orð Gunnars sem vísun í hið pólítíska ástand þá er spurning hvort hann er að líkja því við að „óhreini andinn hafi haft með sér sjö sér verri“ og komið sér fyrir í sinni mannsins/samfélagsins sem við erum að upplifa í dag. Það er soldið til í því.

Hin pósítíva niðurstaða

Erindi kirkjunnar er á hverjum tíma ætlað að vera uppbyggilegt, en eins og Jón Helgi sagði sjálfur í útvarpsmessunni úr Hafnarfjarðarkirkju s.l. sunnudag þá er textum föstutímans ætlað að leiðbeina manninum við að ganga í sjálfan sig, íhuga stöðu sína. Það er ekki nóg að benda á fordæmi Hallgríms Péturssonar þegar að því kemur og heykjast á því að rýna í textann sjálfur þegar að því kemur. Kærleikshjal um afstöðu Móður Teresu til erfiðisins sem hjálparstarfi á meðal fátækra getur fylgt stoðar lítt, þó vissulega megi túlka útleggingu hans sem skilaboð til íslensku þjóðkirkjunnar – með góðum vilja.

Og auðvitað ratast Jóni margt sannkristilegt á munn, rétt eins og öðrum sem nýttu sunnudaginn til að fjalla um eitthvað annað en guðspjallið í prédikun sinni. Jón sagði m.a.

Það er auðvelt að hafa stór orð um lesti annarra. En að líta í eigin barm af einlægni, þar þarf kjark. Vitandi að vilji maður bæta umhverfi sitt og samfélag þarf maður að byrja á sjálfum sér. Fagnaðarboðskapurinn (á föstutímanum) hvetur okkur til að horfast í augu við líferni okkar og stöðu. Og gefur um leið von um frelsun frá hinu illa. Á föstunni taka ýmsir sér smá tak … Slíkt er nú ágætt, eins langt og það nær. En það nær nú harla skammt, þetta getur orðið einskonar kattarþvottur. Það getur orðið jafnvel enn verra – eins og guðspjall dagsins vitnar um.

Í þessu átti Jón við að sú íhugun sem fram á að fara, það tak sem við tökum okkur á föstunni, þarf að hafa áhrif til lengri tíma. Við skulum því vona að upplýsandi ritskýring og skapandi túlkun, ásamt gagnrýninni umræðu um prédikun kirkjunnar frjóvgi og bæti sannleikselskandi víddina í prédikunarkúltúr landans.

(Því miður birti Jón Helgi prédikun sína ekki á trú.is svo til að glöggva sig á prédikun hans verður að hlusta á guðsþjónustuna sjálfa. Hefst tala hans u.þ.b. á 22 mínútu.)