Harbinger býður ykkur hjartanlega velkomin á sýningu Önnu Líndal Samhengissafnið / Línur
Sýningin opnar þann 30. ágúst, kl. 17
Samhengissafnið er hjúpur fyrir áþreifanlega hluti, staka atburði, upplifun eða samfélagslegan núning sem skilur eftir sig punkt í vitundinni.
Árið 1435 skrifaði Leon Battista Alberti.
“Punktur er merki/tákn sem ekki er hægt að skipta upp í einingar,
þegar margir punktar sameinast í röð verður til lína. Ef margar línur vefast saman eins og þræðir í klæði, þá búa þær til hjúp”.
(lauslega þýtt og endursagt, AL)
Á sýningunni mun Anna sýna valda hluti úr Samhengissafninu, safni sem er eins og “amaba” eða teygjudýr sem vex í allar áttir og á sér óljósan upphafspunkt. Meðal annars verður til sýnis næstum 40 ára gamll afleggjari, KZ-3 epli sem upprunalega var ræktað af Korbinian Aigner (eplaprestinum) í útrýmingabúðum Nasista í Dachau, sjórekið plast úr Surtsey, vatn úr gígnum sem myndaðist í Grímsvatnagosinu 2011, dagbækur og spreyjaðar línur á mosa.
Þessir hlutir hafa allir tilfinningalegan snertipunkt, sem myndast við margþætta skoðun þar sem skoðandinn notar sjálfan sig á svipaðan hátt og landmælingamenn nota sín tæki, að safna gögnum frá mismunandi stöðum sem síðan safnast saman í hugskoti okkar og búa til heildræna túlkun, svokallað þekkingarkort.
Í tengslum við sýninguna verður gefið út bókverk með sama titli.
Anna Líndal útskrifaðist frá Myndlista og Handíðaskóla Íslands árið 1985 og lauk framhaldsnámi frá The Slade School of Fine Art í London árið 1990 og MA í Listrannsóknum frá St Lucas, University College of Art & Design, Antwerpen 2012.
Auk fjölda innlendra og erlendra sýninga tók Anna Líndal þátt í Kwangju Biennalnum, Man + Space í S- Kóreu 2000, sýningarstjóri René Block, Istanbúl tvíæringnum 1997, on life, beauty, translation and other difficulties, sýningarstjóri Rosa Martinez og alþjóðlegri myndlistarsýningu Listahátíðar í Reykjavík 2005 og 2008.
2012 var Anna með einkasýningu í Listasafni Alþýðu, ASÍ Kortlagning hverfulleikans.
Anna Líndal var prófessor við myndlistardeild Listaháskóla Íslands frá árinu 2000 – 2009.
Harbinger
sýningarými/project space
Freyjugata 1
101 RVK
Iceland