Á sama tíma og það þykir til marks um að manni hafi mistekist að „uppfylla sjálfan sig“ ef maður þiggur vinnur í frystihúsi eða bara „úti á landi“ – það sem einhvern tíma hét bara heiðvirð vinna og nógu góð fyrir margar kynslóðir íslenskra vertíðarbóhema – og eigi þar með ekkert skilið nema vorkunn, er slorinu sem konsepti fagnað af popptónlistarmönnum sponsuruðum upp í rjáfur af stærstu fyrirtækjum þjóðarinnar, hvort sem það er á Aldrei fór ég suður eða Áhöfninni á Húna – fyrir svo utan Djúpið og Brimið, endurkomu plokkfisksins á veitingastaði og kassagítarspartí í höfundarréttargerði Bubba Morthens.
Frá seinni heimsstyrjöld höfum við upplifað upprisu hins íslenska borgríkis þar sem íslenskum menningar- og mannlífsvitum hefur tekist að sannfæra sig – og aðra – um að Reykjavík sé nú loks eftir áralanga niðurlægingu eins konar dverg-Róm, mínímetrópólís sem hafi lítið með dreifbýli eða útnárabyggðir að gera, annars vegar Frakkland, hins vegar PARÍS; annars vegar Þýskaland, hins vegar BERLÍN, annars vegar Bandaríkin, hins vegar NEW YORK, annars vegar Ísland, hins vegar REYKJAVÍK. Einkennismerki menningarborgarinnar er ekki bara sérstaða heldur einangrun og bókstafleg firring, hún er girðing og annað á að halda sig fjarri (sjá: þúsundir skilta í Reykjavík sem banna umferð traktora; sjá: enginn Reykvíkingur hatar flugvöllinn af sömu áfergju og brottflutti landsbyggðarmaðurinn sem vill slíta á taugina). Samfara þessari upprisu birtist okkur eins konar performans á því sem hafnað er enda fer öll borgun fram með báðum hliðum myntarinnar, án hennar verða engin viðskipti.
Dugnaður, kraftur og þor er pósa á tónleikum eða það að leika í sínum eigin áhættuatriðum; að sitja við færiband til að framleiða mat – þið vitið, þetta sem kemur í veg fyrir að við drepumst úr hungri í bíóinu – er virðingarlaus þrældómur og þess utan eru þeir sem „sitja fastir í honum“ vitlausir og með lélegan smekk á sjónvarpsefni og tilhugsunin um að þeir sinni starfi sínu af hinum minnsta metnaði í beinni andstæðu við allar kenningar Marx um firringu (og þar með óhugsandi). Eina byltingin sem borgríkið þolir utan múra sinna og menningar er uppgjöf, leti. Verður er verkamaðurinn sljóvgunar sinnar.
Rýmið fyllir menningin auðvitað með sjálfri sér – við í menningarelítunni (og já, við erum elíta, bæði í þeim skilningi að við höfum ræktað með okkur hæfileik, þekkingu og kunnáttu, við erum fagmenn, og hinum að við ráðum, við stjórnum, við erum valdhafar í ríki andans, hugans og tilfinninganna) söknum frystihúsa og fjósa og göngum á fjöll við hvert tækifæri, skrifum bækur upp úr Íslendingasögum, ljóð í dróttkvæðum hætti, kvikmyndum skrítið landsbyggðarfólk, spilum á steinhörpur, mátum miðaldir við póststrúktúralísk fræði, prjónum trefla á ljósastaura og sækjum sköpunarkraft í fjöllin og hafið.
Einkennismerki okkar er hvorki penninn né pensillinn heldur lopapeysan og síða skeggið, svona bænda simulacrum, einhver yfirborðsleg jarðtenging og gegnumfölsk einlægni, miðborgin er í aðra röndina períóðuleikhús. Allir fagna hegemóníunni í sinni eigin kreðsu, því þar fæst lófaklappið svo til ókeypis, og auðvelt að standa í hóp og hía á hina (öðrun er sú list að líta svo á að allir séu bavíanar nema ég og mínir). Upprisan er jafn fölsk og þegar vellauðaugar húsmæður gerast hagsýnar og taka slátur því nú er kreppa, jafn fölsk og þegar fátæklingar kaupa sér iPhone því nú er kreppan búin. Upprisan, líkt og uppreisnin, er pósa.