RIFF: Úr franskri sveit á kanadíska geðheilbrigðisstofnun

Litli Quinquin: Grín, grimmd og rasismi í franskri sveit

quinquin1Franska fjögurra þátta sjónvarpssyrpan Litli Quinquin er með því allra einkennilegasta sem ég hef séð í bíó, samtals rúmir þrír klukkutímar af óútskýrðri grimmd, súrrealískum furðulegheitum, skrítnum frönskum hreim og hrottafengnum morðum. Sagan hefst á því að fjórir litlir ólátabelgir, þar á meðal Quinquin litli, elta þyrlu að einhvers konar skotvarnarbyrgi, þar sem lögreglan hefur fundið dauða kú með rotnandi mannaleifar í iðrunum. Þetta gerist að sumarlagi, meðan titilpersónan er í fríi frá skólanum, og því hefur Quinquin nógan tíma til að njósna um seinheppnu lögreglumennina, lenda í erjum við aðra krakka af erlendum uppruna og kyssa fáorðu kærustuna sína. Smátt og smátt hrannast líkin upp – önnur dauð kýr finnst, svín gæða sér á sætri unglingsstelpu – en í aðalhlutverki er þó franska sveitin sem leikstjórinn, Bruno Dumont, virðist þekkja út og inn. Þetta er athyglisverð mynd sem tekur á fjölmörgum þáttum mannlífsins; grimmdinni innra með okkur öllum, kynþáttafordómum, gömlum fjölskylduerjum, því að vera fangi í gölluðum líkama, takmörkunum tungumálsins. Þessum áleitnu og vandmeðförnu viðfangsefnum er svo hrært saman við kæruleysislegt, og oft eiginlega bara frekar klikkað, stólpagrín (athöfnin í kirkjunni er kannski furðulegasta sena sem ég hef séð á hvítu tjaldi) svo að úr verður glæpasaga sem fellur sannarlega ekki að neinni Hollywood-formúlu (eða bara nokkurri formúlu yfirhöfuð).

Í gleymskunnar dá: Enn á slóðum grimmdarinnar

Out of Mind, Out of Sight - Still lo-resÚr franskri sveitasælu lá leið mín svo til Kanada. Í gleymskunnar dá gerist á geðheilbrigðisstofnun í Brockville, þar sem vistmennirnir eru sjúklingar sem framið hafa ofbeldisglæpi. Í brennidepli er ungur maður sem varð móður sinni að bana nokkrum árum fyrr. Með stórum lyfjahöggum er geðklofasýki hans nú haldið í skefjum en í staðinn berst hann við að læra að lifa með því sem hann gerði og rata aftur út í samfélagið. Þetta er sannarlega ekki „afþreying á léttu nótunum“ (tilfinningahríslurnar tvær sem komu með mér í bíó skulfu og nötruðu af geðshræringu) heldur býsna mögnuð og sláandi heimildarmynd, enda þótt hún hefði líka yfir sér dálítið vemmilegan blæ sem gerði á köflum hálfvegis lítið úr alvarleika viðfangsefnisins. Ég mæli samt vel með henni í haustlægðinni, fyrir þá sem eru til í að sjá eitthvað þungt og nöturlegt og öðruvísi.

Sverrir er dálítið ómótaður kvikmyndagagnrýnandi. Hann er höfundur Kvíðasnillinganna, skáldsögu sem kom út hjá Forlaginu nú í september.