Plokkfiskur er verkamannamatur og einsog allur slíkur matur er hann heilagur. Hann tekur endalaust við – einsog Kristur og einsog hafið. Hann tekur við afgöngum úr ísskápnum og það er hægt að plokka upp á nýtt úr leifunum af honum sjálfum. Það veit heldur enginn hvar hann hefst og hvar hann byrjar. Hann hafnar öllum skilgreiningum jafn óðum, einsog Guð og einsog ljóð. Kannski er hann bara hvítur fiskur og kartöflur í jafningi. Kannski er hann allt milli himins og jarðar, allt milli fjalls og fjöru og lengst út á haf, niður á botn og út í geim. Hann er maturinn okkar. Íslensk matargerð. Þekkt út um allan heim því allir aðrir elda svona líka. Frá norskum plukkfisk yfir í brandada de bacalao sunnar í álfunni. Allir sem borða fisk borða hann með kartöflum. Allir sem borða kartöflur borða þær með fiski. Fiskur og kartöflur fara saman einsog útivist og andrúmsloft. Jafningurinn er svo einsog dauðinn – smjör fyrir æðarnar, hveiti fyrir línurnar og laukur fyrir vindganginn. Án hans er engin útivist, ekkert andrúmsloft. Ekkert Ísland og enginn umheimur. Án hans er ekkert líf. Kartöflurnar eru jörðin, fiskurinn hafið og jafningurinn helvíti. Missi maður sambandið við einhvern þessara póla er hætt við að maður missi líka jafnvægið og þeytist eitthvert út í buskann.
Ég skal útskýra aðeins nánar. Vinkona mín bar það undir mig á dögunum hvort hún ætti að halda framhjá manninum sínum. Með hans leyfi, vel að merkja. Ég sagðist halda að það væri frekar slæm hugmynd. Eiginlega alveg vonlaus. En vinkona mín var viðþolslaus og við ræddum þetta alveg í þaula, fórum yfir kosti og galla og það allt saman. Maður þarf að vera hamingjusamur. Það er mikilvægt. En hvers vegna þarf maður þá að rugga bátnum, hvaða tilgangi þjónar það að gera hluti sem við vitum að eru ekki propper – haga okkur einsog besefar, einsog hreinar og ábyrgðarlausar langanir.
Sjáiði þetta ekki fyrir ykkur?
Vinkona mín var nýhætt að reykja. Reykingarnar voru henni eins konar helvítistenging. Reykingar eru alltaf yfirlýsing um að manni standi á sama. Að maður láti nautnir sínar ganga fyrir öðru og storki dauðanum. Og alltaf þegar maður storkar dauðanum þá lýsir maður samtímis yfir sínum eigin ódauðleika. Maður er aldrei eins frjáls og á því augnabliki sem maður segir Ég er ekki einsog þið hin, ég get ekki dáið. Hugsið ykkur að gera það kannski 20 sinnum á dag? Og þegar þetta hvarf úr lífi vinkonu minnar greip hana löngun til að stíga yfir aðrar línur, koma með aðrar yfirlýsingar.
Ég segi ekki að það hefði verið nóg fyrir hana að fá sér feitan plokkfisk. Það er meira að segja algerlega óhugsandi. Af einhverjum lítt skiljanlegum ástæðum er ekki hægt að hugsa sér neitt kynþokkalausara en plokkfisk. Ekkert fábrotnara og hversdagslegra. Að borða plokkfisk er einsog að fara út með ruslið, einsog að sitja í strætó á leiðinni í vinnuna. Eitthvað sem maður bara gerir. Eitthvað sem maður þarf að gera. Leiðin eitthvert annað. Og þá sjaldan að honum fylgir stemning þá fæst hún úr einhverju yfirfærðu einsog þegar þúsund reykvískir neo-hippar borða hann saman á Aldrei fór ég suður hátíðinni, allir í lopapeysum, allir að dilla sér við Gúanóstelpuna, allir að fremja „landsbyggðamanninn“, þennan sem er ekki jafn firrtur og þeir sjálfir, ekki alinn upp í tölvuleikjum heldur alinn upp á slori, ekki alinn upp á McDonalds heldur fiski og kartöflum (kannski er óþarfi að taka það fram en þessi maður er ekki til og þegar hann er til þá er hann um það bil alveg jafn algengur í Grafarvoginum og á Vestfjörðum).
En í þessum heimi hins fullkomlega fábrotna, þar sem lögmálin eru lúxuslaus og ramminn heimalningsgerðið, er smjörið yfirlýsing um allt í senn óhóf, úrkynjun, ofgnótt og dauðaþrá. Einsog sígarettur. Einsog framhjáhald. Einsog helvíti. Ef þið sparið við ykkur smjörið þá öðlist þið aldrei eilíft líf.