Í Englaryki fjallar Guðrún Eva um fjölskyldusamskipti og það að stíga yfir þröskuldinn sem aðskilur bernsku og fullorðinsár. Fimm manna fjölskylda fer í meðferð hjá geðlækni en það er ekki týpískt vandamál sem er að hrjá þau.Unglingsdóttirin Alma fékk vitrun frá Kristi í sumarfríi fjölskyldunnar á Spáni og er orðin heittrúuð í framhaldinu. Eftir vitrunina umturnast hegðun hennar og sýn á lífið, en það virðist ekki síður fara fyrir brjóstið á fjölskyldunni að Alma lætur sig litlu varða siðareglur samfélagsins í tilraunum sínum til að geðjast Guði og Jesú.
Umfjöllun um trú og samræður persónanna um hana fá ágætt rými í verkinu og þar koma ýmsar hliðar fram án þess að það fáist niðurstaða í málinu. Það er til dæmis kostulegur kafli í bókinni þegar Alma rökræðir við prestinn í fermingarfræðslunni um guð og trúna og tekst að koma hinu karllæga yfirvaldi algerlega úr jafnvægi fyrir framan hin fermingarbörnin. En þrátt fyrir mótlæti samfélagsin stendur Alma föst í sinni trú á almættið og gengur þar út frá persónulegu kynnum sínum við Jesú þó svo að samtal hennar við hann fari aðeins að renna saman við annan kristilegan boðskap þegar líða tekur á bókina. Þrátt fyrir þessa trúarlegu díalóga er umfjöllunin um trúna í verkinu einna helst nýtt til að beina sjónum lesandans að samskiptum fjölskyldunnar.
Verkið er þroskasaga og fjölskyldusaga. Það er stutt á milli systkinanna þriggja í aldri. Sigurbjartur, eldri bróðirinn, er hálfbróðir Ölmu og Antons. Því er ágætlega lýst hvernig þau taka út þroska sem ber þess merki að þau eru að fullorðnast. Alma er „barn í líkama konu“ og þroskasaga Ölmu sem verðandi konu er fyrirferðamikil í bókinni. Þær oft á tíðum ósanngjörnu kröfur sem samfélagið setur á unglingsstúlkur eru afhjúpaðar í bókinni, en það er ekki bara samfélagið sem setur þessar kröfur fram heldur reynast fjölskyldumeðlimir einnig sekir um að viðhalda þeim og refsa fyrir brot á þeim. Á sama tíma myndast ákveðin átök, sérstaklega hjá Jórunni, móður Ölmu, þar sem hún reynir að sætta sig við það að til þess að vegna vel í samfélaginu þarf að leika eftir þessum reglum, jafnvel þó það stríði gegn persónulegri siðferðisvitund einstaklingsins. Kynverund Sigurbjarts er eitt af því áhugaverðara í Englaryki og þrátt fyrir að fáum orðum sé eytt í vakningu hans á því sviði er tengingin við myndband Chris Cunningham við lag Bjarkar „All is Full of Love“ afar sterk. Sigurbjartur sér fyrir sér heim fullan af möguleikum en stefnir út fyrir litla samfélagið í Stykkishólmi til að nálgast þá.
Sagt er frá viðtalstímum fjölskyldumeðlima hjá Snæfríði geðlækni í Reykjavík á milli kafla sem lýsa framvindunni í sögunni á beinni hátt. Þannig fá persónurnar að tjá sig um atburði og líðan sína í endurliti um leið og lesandinn fær greiningu á fjölskyldunni í gegnum sjónarhorn geðlæknisins. Guðrún Eva er fær um afar áhugaverða notkun á mismunandi sjónarhornum persóna, einsog sést vel í Skaparanum, en í Englaryki er notkunin ekki jafn áhrifamikil. Tekist er á við hversdagsleikann og það gert ágætlega en það er ekki mikið um tilþrif. Verkið leitar ekki sérstaklega á mann og það er áberandi skortur á spennu og risi í atburðarrásinni. Í kynningartextanum á bakhlið kápunnar er minnst á að Alma hrindi af stað „atburðarás sem hneykslar bæjarbúa“ og óumflýjanlegt uppgjör en bókin stendur ekki undir þeim loforðum. Þegar upp er staðið er Englaryk, þrátt fyrir óvenjulega nálgun á fjölskylduvandamál, hversdagsleg saga sem uppfyllir ekki til fulls þau fyrirheit sem felast í efnisvalinu.