Einsog sjá má hefur blörrun verið aflétt af Starafugli. Til þess að svo mætti vera þurfti meðal annars að fjarlægja umdeilda mynd af Sölva Fannari Viðarssyni úr umfjöllun um gjörninga hans – þótt enn sé það afstaða ritstjórnar Starafugls að sú myndbirting eigi rétt á sér, hún teljist til tilvitnunar í listaverk sem hafi verið til umfjöllunar, þá var það aldrei meining ritstjórnar að birta myndina í óþökk ljósmyndarans og hefði hún verið fjarlægð um leið ef þess hefði verið óskað (altso: við teljum okkur mega það, en maður má fleira en maður þarf að gera). Og raunar hefur hún ekki sést hér á vefnum frá því að gerð var athugasemd við birtingu hennar. En eitthvað þurfti að koma í hennar stað og því bað ritstjórinn vini sína á Facebook að teikna mótífið upp á nýtt og var ein innsendra mynda, eftir Gunnar Örn Gunnarsson, valin til þess að koma í stað hinnar upprunalegu myndar. Hér fyrir neðan má síðan sjá allar þær myndir sem bárust.
Staðan í Myndstef vs. Starafuglmálinu er svo einfaldlega sú að tveir sérfræðingar hafa verið spurðir ráða – annar þeirra, sérfræðingur í höfundarrétti frekar en lögfræði, staðfesti við okkur að krafa Myndstefs væri í það minnsta hvergi nærri jafn ótvíræð og þau vilja láta – samanber fjórtándu grein höfundalaga:
14. gr. Heimil er tilvitnun í birt bókmenntaverk, þar á meðal leiksviðsverk, svo og birt kvikmyndaverk og tónverk, ef hún er gerð í sambandi við gagnrýni, vísindi, almenna kynningu eða í öðrum viðurkenndum tilgangi, enda sé hún gerð innan hæfilegra marka og rétt með efni farið.
Með sömu skilyrðum er heimilt að birta myndir og teikningar af birtum listaverkum og gögnum, sem getið er í 3. mgr. 1. gr., [enda sé ekki um fjárhagslegan tilgang að ræða].1)
Við bíðum hins vegar svara frá þeim lögfræðimenntaða upp á að átta okkur á því hverjar líkurnar séu á því að þetta vinnist, og berst það vonandi í dag. Séu þær hverfandi látum við bara kúga þessa peninga út úr okkur með óbragð í munninum og höldum svo áfram – Starafugl hefur engan áhuga á píslarvætti. Í öllu falli er umsátrinu um Starafugl lokið og borgarhliðin hafa verið opnuð.