„Ég bý í menningarheimi þar sem 73 ára gamall höfundur – ég sjálfur – mætir fyrirlitningu, spotti og háði“ sagði norski rithöfundurinn Dag Solstad í nýlegu erindi sem hann hefur ferðast með vítt og breitt um Noreg síðustu vikur. Solstad, sem er án nokkurs vafa einn af virtustu höfundum Norðmanna – hefur bæði hlotið Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs og heiðursprís Brageverðlaunanna – hlaut nokkuð sundurleitar móttökur fyrir síðustu bók sína, Hin óuppleysanlegu epísku atriði í Telemark á tímabilinu 1591-1896 (á norsku: Det uoppløselige episke element i Telemark i perioden 1591-1896) sem kom út í fyrra. Fyrirlestratúrinn er meðal annars hugsaður sem svar við neikvæðu gagnrýninni en fjallar líka almennt um stöðu bókmenntanna í Evrópu.
Í erindi sínu fer Solstad yfir 20 ólíka ritdóma sem bók hans hlaut, þar af fjóra „glimrandi“, þrjá góða, tvo krítíska, fjóra mjög krítíska og fjóra sem eru „hrein og klár slátrun“. Neikvæðu gagnrýnendurnir sögðu bókina meðal annars vera „300 ára leiðindi“ og fullyrtu að hún væri alls engin skáldsaga heldur einhvers konar úttekt á ættfræðirannsóknum. Solstad segir augljóst að gagnrýnendur hafi bókstaflega notið þess að slátra bókinni og þórðargleðin skíni úr hverju orði. Þetta mun ekki síst eiga við rýni Aftenposten, sem Solstad segir í erindi sínu að virðist hafa verið í herferð gegn sér allt frá því bókin var tilnefnd til Brageverðlaunanna í nóvember síðastliðnum.
Bókmenntagagnrýnandi Aftenposten ávítir dómnefnd Brageverðlaunanna opinberlega. Hún krefst þess að hennar skoðun eigi að vera sú eina og endanlega. Hún finnur engan sannleik í orðum þeirra sem eru ósammála henni og snýr bræði sinni gegn þeim sem líkaði við bók mína.
Solstad dregur upp dökka mynd af bókmenntaheimi samtímans sem hann segir vera undir stöðugt meiri stjórn markaðslögmála. Í erindinu ku hann lesa upp langan lista af evrópskum 20. aldar höfundum – þ.m.t. Kafka, Proust, Vesaas, Pessoa, Sandemose, Mykle, Kundera, Bernhard, Stendhal – sem hann segir að séu metnir á eigin forsendum og fyrir þannig höfundum þurfi ekki að færa nein rök. Í andstöðu við þessa höfunda segir hann liggja ættlegg af afþreyingarhöfundum frá Dickens til Nesbø „sem gagnrýnendur mínir eru vanir að löðrunga mig í rot með áður en þeir slátra mér.“
Í örskamma stund, frá 1890 til 1960, var skáldsagan laus undan sinni sögulegu skemmtunarplikt. En ég hafði ekki reiknað með kapítalismanum. Á síðustu 50 árum hefur kapítalisminn breytt gervöllu samfélaginu og framkvæmt algera endurskoðun á tungumálinu á öllum sviðum mannlífsins, líka í skáldsögunni.
Þá vísaði hann til þess að stóru menningarforlögin í Evrópu, líkt og í Noregi, hefðu breytt starfsemi sinni til þess að geta betur elst við metsölubækur1.
Gagnrýnandi Dagsavisen, Ingunn Økland bar hönd fyrir höfuð sér í dagblaði gærdagsins og sagði að þótt hún væri sammála Solstad um að búið væri að markaðsvæða bókmenntirnar væri voðinn vís ef maður færi að blanda saman illu innræti og krítískri afstöðu og úti um alla alvöru bókmenntagagnrýni.
Fái Solstad við betra tækifæri áhuga á því sem gagnrýnendur síðustu skáldsögu hans höfðu að segja í raun og veru, og ekki bara þeim tilfinningum sem hann telur að bærist í brjósti þeirra, þá held ég að ýmislegt kæmi honum á óvart.
Að mínu mati eru móttökur bókarinnar glimrandi dæmi um það hversu góð hin opinbera samræða getur orðið.
Skáldsagan fær ítarlega rýni af stórum hópi gagnrýnenda sem til tilbreytingar eru afar ósammála um nýja bók eftir Solstad. Við erum engir dýrkendur Jo Nesbø heldur þvert á móti gamlir Solstad aðdáendur. Útgáfan hefur þess utan fært okkur góðan debatt um skáldsöguna sem listform. Það stendur til að halda heilu námskeiðin um þessa bók – og móttökurnar.
Erindi Solstad verður birt í heild sinni í bókmenntatímaritinu Samtiden, sem kemur út í dag.