Núna þegar niðurnjörvaður prófessjónalismi er búinn að gelda svo margt fallegt er ágætt að minnast Michel Foucault sem lést fyrir einmitt þrjátíu árum síðan af völdum alnæmis. Heimspeki var ekki aðeins stundir á bókasafni, kennsla eða háspekilegar rökræður fyrir honum, heimspeki var lífið. Hann vildi skilja hvaða hugmyndastraumar skilyrðu hugsanir hans og hvernig hann gæti komist handan þeirra. Ekki aðeins í hugsun sinni heldur einnig í lífinu; hvernig mætti upplifa mörk sinnar eigin tilvistar.
Segja mætti að Foucault hafi slegið í gegn sem gagnrýnin hugsuður í Frakklandi með bók sinni Orð og hlutir árið 1966. Í þeirri bók grefur Foucault í gegnum mannlega hugsun og þekkingu til þess að varpa ljósi á forsendur þess hvernig við hugsum í samtímanum og hvernig hinum ólíku vísinda- og fræðagreinum er háttað.
Oft þegar verk Foucaults eru dregin saman í auðmeltanlegar hugmyndir þá drap Foucault „Manninn“ og benti á alsjána eða Panoptikonið sem birtingamynd valds í vestrænum nútímaríkjum. Með því að drepa Manninn varpaði hann ljósi á Manninn sem hugmynd og það sem meira er, tiltölulega nýlega hugmynd í vestrænni hugmyndasögu. Alsjáin er varðturn í miðju fangelsi hvaðan sést inn í alla fangaklefana. Fangarnir sjá hins vegar ekki inn í turninn en vita að alltaf er einhver kannski að fylgjast með þeim. Þetta gerir það að verkum að gjörðir fólks skilyrðast af þessu mögulega eftirliti, það hegðar sér eins og það sé vaktað.
Þær hugmyndir sem áttu hug Foucaults allan síðustu æviár hans hafa fengið minni athygli en til dæmis þessar tvær meginhugmyndir sem sjást svo oft í stuttum kynningartextum á verkum hans. Allt í einu byrjar samfélagsgagnrýnandinn að einbeita sér að Forn-Grikkjum! Fyrir krítiskt lið sem vill vita hvað er að gerast núna og hvað beri að gera til að mölva niður þessa kúgandi samfélagsgerð sem vill steypa öllum í sama mót þá skýtur svolítið skökku við að leita aftur til Forn-Grikkja. Hvað var Foucault þá að pæla?
Þær þrjár þýðingar á verkum Foucaults sem munu birtast hér eiga það sameiginlegt að vera frá síðustu æviárum Foucault. Greining hans á hinu mótandi valdi vestrænna samfélaga og síaukinni normalíseringu þótti gagnrýnisverð vegna þess hvað einstaklingurinn virtist hafa lítið að segja í samfélaginu. Raunar var sett spurningarmerki við það hvort einhverju væri hægt að breyta þegar mótunin virtist svo stíf.
Kannski mætti segja að umfjöllunarefni síðustu ára Foucaults hafi verið svar við þessari gagnrýni. Ekki aðeins vildi hann sýna að hægt væri að beita andófi og fokka upp í systeminu heldur vildi hann einnig sýna fram á að til væru aðrar leiðir til þess að tengja við sjálfið. Aðrir sjálfsveruhættir væru mögulegir og leita mætti til dæmis til kynlegra kvista hugmyndasögunnar til þess að öðlast nýjan efnivið í slíka sjálfstengingu. Sjálfur eyddi hann miklum tíma í ýmiss konar upplifanatilraunir í frjóu andrúmslofti San Fransisco-svæðisins á meðan hann benti á margvíslegar tengingar á milli þess fagra og hins siðlega. Listaverk væri ekki aðeins hlutur til að dást að á listasafni sem einhver „faglistamaður“ hefði skapað, lífið sjálft snerist um að skapa sig og fallegar tengingar við aðra, eða gæti gert svo ef stigið væri út fyrir sjálfs-framleiðslu nútímans.
Í dag eru liðin 30 ár frá andláti franska heimspekingsins Michels Foucault. Af því tilefni birtir Starafugl inngang þennan, að bókinni Foucault – þrír textar og mun afar fljótlega bæta um betur og bjóða upp á bókina alla, til frís niðurhals, en hún mun innihalda þýðingar á tveimur greinum eftir Foucault og einu viðtali. Þýðingarnar unnu Nanna Hlín Halldórsdóttir, sem einnig ritar inngang, Kristján Guðjónsson og Haukur Már Helgason.