Kvíðasnillingarnir – Hversu mikið hnjask þolir eitt strákshjarta?

Í sögu þriggja drengja, sem brátt verða unglingar og fyrr en varir fullorðnir menn, dregur höfundur upp frumlega og sprellfjöruga mynd af hlutskipti karla í samtímanum. Lesandinn flakka á milli áratuga í huggulegri pappírstímavél; dregur að sér moldardauninn í Hostel Torfbæ, heyrir kjökur og blús á Aumingjahælinu, kastar mæðinni í Griðarstað stráka og kynnist aragrúa eftirminnilegra persóna, þar á meðal fríðum flokki af lævísum draumaprinsessum sem hrista upp í viðkvæmu tilfinningakerfi kvíðasnillinganna þriggja.

Hér kveður sér hljóðs ný rödd í íslensku bókmenntalífi. Kvíðasnillingarnir er fyrsta skáldsaga Sverris Norland og hlaut nýræktarstyrk frá Miðstöð íslenskra bókmennta. Óvenjuleg stílgáfa helst í hendur við gráa íróníu, einlæga samkennd og óþrjótandi hugmyndagleði. Þetta er bók sem á erindi við samtíma sinn, full af hlýju, mannskilningi, gleði og töfrum.

Í tilefni af útgáfunni er efnt til útgáfuhófs á Lost Hostel, Bankastræti, miðvikudaginn 24. september frá kl. 17-19. Allir velkomnir og léttar veitingar í boði.