Kjánar á jaðrinum

Um Krummafót og Kisuna Leonardó

Mikil gróska er í ljóðabókaflórunni um þessar mundir en þó ekki þannig að á því beri hjá stóru forlögunum. Úr ranni ritlistardeildar Háskólans rennur nokkuð af ferskvatni í fljótið mikla sem flæðir yfir bakka sína fyrir þessi jól eins og önnur. Ekki er mikið um bækur skálda sem hafa markað sér sess í ljóðadeildinni en hér verður þó rýnt í tvær bækur höfunda sem hafa þá sérstöðu að vera ljóðskáld fyrst og fremst. Kannski væri áhugavert að skoða þá sem minnihlutahóp í þokkabót – verandi karlmenn – í senu sem er í dag mjög lituð af tilkomu margra ungra skáldkvenna á sjónarsviðið, en það skal þó látið liggja milli hluta. Það má þó vera ljóst að þeir eru báðir dálitlir huldumenn og ekki áberandi fígúrur í skáldheimum, ef út í það er farið.

Atómtröllin Magnús og Vésteinn

Önnur saga fyrsta manns um hana Oktavíu í samnefndri skáldsögu Vésteins Lúðvíkssonar frá árinu 1985 hefur alltaf verið mér uppspretta umþanka og gleði. Hún fjallar um skáld sem hættir að yrkja eftir rýni Oktavíu í sálarflækjur hans og gerist bifvélavirki og verður nokkuð hamingjusamur eftir atvikum í framhaldinu. Vésteinn hætti sjálfur að gefa út skáldskap uppúr því tímabili um 20 ára skeið eftir nokkuð farsælan feril á ritvellinum. Hann snéri síðan aftur sem ljóðskáld árið 2003 með frábæru verki, Úr hljóðveri augans og er Kisan Leonardó og önnur ljóð sem kom út í vor fimmta útgefna bókin hans síðan. Hann hefur einnig fengist við þýðingar, t.a.m. á sjálfshjálparbókum og öðru efni úr andlega geiranum, um búddisma og fleira.

Nýjasta afurð ljóðskáldsins Magnúsar Sigurðssonar, hans fjórða bók síðan 2008, Krummafótur – ljóð og skissur er einnig undir í dag þar sem það er í tísku að fjalla um bækur í svona tvennum, og þó. Magnús og Vésteinn eiga það sameiginlegt þrátt fyrir að langt sé á milli þeirra í aldri að vera svolitlir huldumenn í íslenskum bókmenntum, held ég að megi fullyrða þrátt fyrir allt. Um leið hafa þeir ákveðinn virðingarsess þrátt fyrir að trana sér lítt fram með orðum eða æði hvar sem færi gefst á slíkri kynningu. Eða kannski eru þeir engir huldumenn. Bara ekki til á Facebook.

Það er vissulega meginatriði að skynja og skilja forsendur verkanna þegar maður reynir að setja þau í samhengi við meginstrauma eða stefnu höfundarins sjálfs. Þegar verk passa síðan hvorki inn í einhverskonar trend sem er í gangi né eru „sjálfsagt“ framhald af höfundarverki skáldsins þá þarf þó nokkra yfirlegu til að átta sig á því hvað er í gangi. Undirritaður fagnar því einhvernveginn í hjarta sínu í hvert sinn að heyra af því að út sé komið verk frá þessum póstum í senunni (kannski bara því að fúnkerandi forlag hafi fyrir því að gefa út ljóðabækur) en um leið þá virðast þeir þannig utanvið strauminn að það verði að meta verk þeirra á þeim forsendum. Þeir eru hvorki „að stíga fyrstu sporin“ né heldur áberandi höfundar sem skrifa skáldsögur og hafa mikinn presens. Þeir eru „bara“ ljóðskáld. Það er soldið hlutskipti.

Þetta skriftardót. Blýantar og ég veit ekki hvað. Ofmetið mundi ég segja. Kjánaskapur. Ekkert á því að græða.

– Eyrnaslapi

Ofmetnaður kjána í skáldaskap?

Það er í hendi höfundar og fjölmiðlanna sem hann nær til hvernig orðspor hann eða hún hlýtur á meðal almennings, eða í þessum tilvikum ljóðunnenda. Hversu hátt sem hefur verið haft um Magnús Sigurðsson í ákveðnum kreðsum og þó verk hans hafi verið verðlaunuð á ýmsa vegu til þessa, þá þýtur ekki um bókheima þegar hann gefur út verk líkt og þegar „stóru skáldin“ senda frá sér verk. Við eigum kannski von á einu viðtali um stöðu ljóðsins í Víðsjá eða jafnvel innslagi eftir jól í Kiljunni þar sem einvaldurinn Egill pumpar manninn um eitthvað sérdeilis gáfulegt. En nóg um það.

Útgangspunktur Krummafótar er að sögn höfundar eru þau orð Eyrnaslapa að bókmenntir séu „ofmetinn kjánaskapur“. Það felst vissulega tvíræðni í slíkri tileinkun bókar, létt satíra sem skýrir línur og svið skáldskaparins sem á eftir kemur.

Magnús er nákvæmt skáld og gott skáld (svo má spyrja sig hvenær maður er vont skáld – pólaríseringin verandi frá skáldi til ekki-skálds; þar sem klamburbrallari er einhverskonar miðgildi) að því leyti sem hann daðrar við hið alvarlega með hinum glaðbeitta eða létt-súra undirtón à la Eyrnaslapi. Það hefur verið ljóst frá því hans fyrsta bók kom út að þar væri á ferðinni annars konar ungskáld en við höfum átt að venjast. Magnús hefur frá sinni fyrstu bók stefnt að því að tilheyra kynslóðunum á undan sér og hefur farist ágætlega að yrkja sig inn í það samhengi. Yrkingar hans tengjast að einhverju leyti frekar Gyrði Elíassyni, jafnvel Stefáni Herði o.s.frv. Þess vegna er ekki úr vegi að fjalla um hann í tvennu með Vésteini eins og hér er gert, það er í tísku (og hér er dass af kaldhæðni) þar sem þeir sækja nokkuð á sömu mið í sínum skáldskaparbrögðum.

Kostirnir við Krummafót eru ýmsir. Það virðist þó nokkuð tilviljunakennt verk og þó að í því felist ákveðinn léttleiki er ferðalagið ekki nægilega grípandi. Vangavelta mín snýst kannski um hvort að bækur komast upp með það í samtíma þar sem hið hnyttna internet er orðið farvegur samtímaljóðanna, að grípa ekki með skýrum hætti? Altækir statusar keppast um athygli lesenda sem afþreying – „hugsun á öðru formi“ – mörk ljóðlistarinnar eru löngu sprungin og allt er orðið að ljóði. Það fer minna og minna fyrir „klassískum ljóðum“ ef svo má kalla texta, án þess að blikna. Kannski þarf „drama“ sem kjarna verks eins og Krummafótar til að það gangi upp, enda er Eyrnarslapi blásvartur alvarlegur undirtónn í 100 metra skógi en ekki kaldhæðinn grínfaktor. Þannig fer verkið nokkuð vel af stað í kaflanum um Tþjáningarfrelsið. Fyrsta ljóð bókarinnar er til að mynda stálsleginn tónn.

Um þjáninguna

Þetta lærðum við,
af óbilandi þrautseigju;

ef hún er yfirstíganleg
er hún umberanleg

og jafnvel í viðráðanlegum
skömmtum

eftirsóknarverð,
með framtíðina

í huga. Eins og bólusetning
gegn sjúkdómi.

Í Krummafæti er að finna fjölda góðra spretta sem hefðu sómt sér vel í skýrara verki. Konseptverk án kaflaheita og yfirskrifta – eins og borið hefur á í samtímaljóðlistinni – er ekki leið Magnúsar og erfitt að ætla honum að fara út í gerð verka sem beri að njóta á einhvern sérstakan hátt (t.d. í gegnum upplestur). Verkið skiptist í sex kafla og kannski er það þakklátt að í yfirskrift þeirra er ekki búin til einhver „stóra lína“ bókarinnar. En um leið finnst mér hvorki yfirskrift kaflanna né innri bygging þeirra hafa sérstaka merkingu eða tilgang. Þetta eru sex ólíkir kaflar, segir á kápu, en þeir eru samt sem áður svo líkir að enginn þeirra hefur slíka sérstöðu (fyrir utan skissukaflann) að nokkur þeirra sé sérstaklega eftirminnilegur. Maður veltir því fyrir sér hvort það hefði nokkur slatti af ljóðum fengið að fjúka ef bókinni hefði ekki verið kaflaskipt?

Það kvikna margar hugmyndir við lestur bókarinnar og innskot þýddra ljóða eru sérkenni Magnúsar sem virka alltaf vel. En verkið styrkist t.d. ekki af uppbrotinu sem falið er í kaflanum stafkrókar, sem undirtitill bókarinnar „skissur“ vísar í. Þessi tilraun Magnúsar með myndljóðagerð er stílhrein og áreynslulaus en brýtur upp fyrir mér þá mynd að allt í höfundaverkinu sé þaulhugsað. Skissukafli verksins er í besta falli skondinn, en um leið enginn sérstakur kontrapunktur við dramatískan þráð þess. Magnús er sterkastur í dramanu, kjarnyrtu og kristölluðu ljóðin eru skýr en óræð (án þess að vera orðaleikir eða fyndni) og eitthvað í þeim sem mér líkar persónulega vel: Skáld þarf sjálfstraust og sterka sjálfsmynd til þess að láta frá sér ljóð sem hvorki afhjúpar höfundinn né eru augljós tilbrigði við djúpvisku eða „málsháttargerð“.

Magnús kann vel að dansa á línunni á milli einlægninnar og atómkveðskaparins og mér þætti fróðlegt að sjá hann reyna sig við einhverskonar leikhústexta. Í sviðslistunum getur það verið sérlega áhrifaríkt að koma til leiðar texta sem miðlar hinu óskiljanlega í umhverfi sem styður framvindu verka sem byggja ekki á að komast að einhverskonar niðurstöðu þegar áhorfandinn skilur við það.

Að þessu sögðu má vera ljóst að ég hefði viljað sjá þessa bók mun skarpari og kompóneraðri; hún er hundrað síður og hefði vel getað staðið sem klassaverk með þó nokkrum leik í sirkabát 70 síðum. Rjóminn í bókinni er aftur á móti á þeim standard að maður getur sótt til hennar síðar því að þar er af mörgu að taka sem leiðir hugann að stóru spurningunum, þeim sem ljóð geta tekist á við af fágun og þrótti.

Kisan Leonardó

Hversdagsleikinn og ýmsar athuganir, sumar hverjar afskaplega heimspekilegar og exótískar, hafa verið Vésteini Lúðvíkssyni yrkisefni eftir að hann vippaði sér aftur inn á ritvöllinn og oft unun að. Hann býr yfir þessum eiginlega að hvíla sallarólegur í þverstæðum og mótsögnum, að treysta ljóði og hugsun þó hún virðist torræð eða óskiljanleg almennt, enda djúpar rætur Vésteins í austrænni heimspeki heimavöllur þessara ljóða. Þráðurinn sem byrjað var að spinna í Úr hljóðveri augans er enn greinilegur en þó orðinn afslappaðri og yfirskrift bókarinnar kannski helst til marks um að Vésteinn hefur ekki lengur þörf fyrir að grípandi titill bókar freisti andlega sinnaðra íhyglifræðinga sérstaklega. (Sumir láta einsog holdið eigi sér takmörk, Svona er að eiga fjall að vini og Enginn heldur utanum ljósið fylgdu í kjölfar Úr hljóðveri augans.) Að mörgu leyti verð ég að segja að frumkrafturinn sem fylgdi því að „vera kominn aftur“ hafi dugað í fyrstu bækurnar en að mínu mati var sú fjórða heldur stíf og meðvituð um að ljóðskáldið Vésteinn væri nú alltaf að brasa við að yrkja, þar sem hann situr langdvölum við íhuganir sínar austur í Asíu og nýtur lífsins (sem er svona „mýtan um manninn á bakvið skáldið“). Það var aftur á móti erindi af andlegum toga sem var prédikað í fyrstu bókunum – sem ég nota bene fílaði – sem er að renna úr jöfnunni og ljóðin því að nálgast það meir og meir að verða svona einfaldar athuganir uppljómaðs fausks. Sem er auðvitað ekki fallegt að segja. En samt soldið nærri lagi.

Megin atriðið er að hún er uppfull af allskonar skemmtilegheitum sem eru á dýptina án þess að verða hafsjór af búddista-gátum. Mörg hver fjalla ljóðin á skarpari hátt en venjan er um tilvistina og vanda hennar.

Brot úr ljóðinu Ljóstrað upp

… því enn og aftur og samt í fyrsta sinn
er það komið þetta allslausa kvöld
sem kann ekki að þegja

leyndarmálinu ljóstrað upp sisvona

það er ekkert tungl og enginn ís
engin á milli íss og tungls
og samt er tunglið ís og ísinn tungl

Ég veit ekki hvað það er en sjálfur skellihlæ ég stundum við svona einfalda speki, mótsagnakenndan en um leið fölskvalausan leik sem er algjörlega óskiljanlegur. Aftur á móti er ég alls ekki viss um að ljóð af þessu tagi eigi almennt upp á pallborðið þar sem þau eiga ekki beint erindi við nokkurn mann. Eins og hlutir eiga erindi við fólk á okkar síðustu og verstu tímum. Það er spurning hvort í yrkingar Vésteins vanti svolítið af þessu sem Steinn Steinar taldi alveg lífsnauðsynlegt fyrir kveðskapinn – lífsháskann – því framvinda dramans er lítil í „sögunum“ og því fyrir mitt leyti nokkur missir af því að hann snúi af braut ljóða um andlegar uppgötvanir … Mann langar í „djúpvitru bókina“ – eitthvað svona „essentials of Vésteinn“ … en um leið er sá galli á gjöf Njarðar aftur og aftur að þegar hann tekur skrefið þangað, þá fara að poppa upp skrúfyrði og skrúðmælgi sem hvísla því að manni að þetta gerist ekki nægilega áreynslulaust alltsaman. Og þarna er þverstæðan. Það sem kemur áreynslulaust eru hversdagsmyndirnar og léttleikinn, sem maður verður þá bara að muna að vera þakklátur fyrir.

Og það er heilmikið í þessari látlausu bók sem maður er þakklátur fyrir, vert er að minnast á ljóðin Útileikhús og Meltingu en minnistæðust eru nokkur brot eða lýsingar; t.a.m. úr ljóðinu Af götunni.

… Konan sem féll af svölunum á tólftu hæð í gær
var sú sem flutti dópuð inn í fyrradag
með vinkonu sinni og hvítvoðungnum hennar

Gráturinn er lægri en gatan, hærri en himininn
yfirheyrslunum lokið
orðin horfin í ljósið líkt og fuglarnir …

Vésteinn er líka sérlega lunkinn í snörpum mannlýsingum sem eru fullar af mannelsku og innsæi; t.a.m. þessi úr ljóðinu Á þessum óskjalfestu landamærum þar sem gengið er fram á mann:

… svona aldinn
svona slitinn eftir sólarleikana
misgóða plóga, flóð og þurrka
tóbaksskort
raunir konungsfjölskyldunnar
skordýragnægð og glataðar tennur

svona ungan
kjaftforan og þrjóskan
með glaðværustu konu þriggja þorpa
sjö börn og gefandi stríð í nánd
þrettán ekrur, færri uxa, hlut í fíl …

Það var mikið gleðiefni þegar Vésteinn Lúðvíksson steig aftur fram á ritvöllinn fyrir tíu árum síðan og skemmtilegt að Forlagið nenni að púkka upp á þetta afskipta ljóðskáld sem nennir ekkert að kynna sig í tengslum við bókamarkaðsbullið allt. Vésteinn á sinn órannsakaða sess í bókmenntasögunni, síðustu bækur hans á níunda áratugnum voru heimar út af fyrir sig – sérstaklega Maður og haf og Oktavía – bókmenntir sem jöðruðu við að vera búddískar íhuganir og skemmtisögur, fullar af skáldskap, andlegheitum, lífsgleði, drunga og speki. Þegar best lætur eru ljóð hans í dag lofgjörðir og bænir í búningi hversdagsmynda, þverstæðu-myndir og afstæðir orðaleikir sem verða þó ekki tilgerðarlegir sökum þeirrar mildi og kærleika sem þeir eru bornir fram með (andstætt nihiliskum prédikunartóni kaldhæðnis-orðaleikja). Lesandanum er ekki skipað að elska eða þykja vænt um. En það sem fjallað er um er upp til hópa afskaplega elskuvert. Við þurfum líf fyllra af slíkum skáldskap. Það gæti bjargað okkur frá allskonar bulli.