Jómfrúr, hórur og brókarsótt: Um Lars von Trier og Nymphomaniac

Danski leikstjórinn Lars von Trier hefur enn á ný valdið fjaðrafoki með nýjustu kvikmynd sinni Nymphomaniac. Þrátt fyrir að myndin hafi einnig fengið jákvæðar viðtökur hjá kvikmyndagagnrýnendum hafa aðrir kallað hann kynferðislega brenglaðan loddara og sagt að þetta nýjasta útspil leikstjórans sé ekkert annað en löng klámmynd sem skorti allt listrænt gildi.1 Aðrir hafa sagt að Trier – sem er vel þekktur fyrir að ögra áhorfendum – mistakist skelfilega í þessari tilraun sinni og afraksturinn sé innantóm leiðindi. Sumir hafa jafnvel gengið svo langt að halda því fram að með myndinni hafi leikstjórinn gengið í lið með djöflinum.2 Ég tel hins vegar að í myndinni felist heilmikil ögrun við hefðbundna vestræna kvikmyndahefð, en þessi ögrun hefur greinilega farið framhjá mörgum eins og ofangreind gagnrýni er til marks um. Þessi neikvæðu viðbrögð eru enn fremur stór hluti af mikilvægi myndarinnar og algjörlega fyrirséð af Lars von Trier.3

***

Nymphomaniac, ásamt Antichrist (2009) og Melancholia (2011), er hluti af því sem Lars von Trier hefur nefnt „þunglyndis-þríleikinn.“ Myndirnar í þessum þríleik eiga það allar sameiginlegt að fjalla á einn eða annan hátt um konu sem á í miklum andlegum erfiðleikum og er þunglyndi þar fyrirferðamikið eins og titillinn gefur til kynna. Einnig er Charlotte Gainsbourg aðalleikonan í þeim öllum (í Melancholia deilir hún þó því hlutverki með Kirsten Dunst.)

Nymphomaniac á sérstaklega margt sameiginlegt með fyrsta hluta þríleiksins, Antichrist. Í fyrsta lagi eru þær þema-tengdar að því leyti að í þeim báðum kemur fyrir sú hugmynd úr vestrænni hugmyndasögu að konan sé á einhvern hátt af hinu illa. Þannig má líta á Nymphomaniac sem áframhaldandi rannsókn á þessari hugmynd. Í öðru lagi er uppbygging myndanna keimlík. Þær samanstanda báðar af samtölum milli karlmanns og konu sem í meginatriðum eru fulltrúar fyrir sama hlutinn. Í Antichrist voru samtölin á milli ónefndu aðalpersónanna Hans og Hennar; hjóna sem höfðu nýlega misst barn. Hún var fulltrúi hins óskynsamlega, frumstæða og dökka í manninum – dauðadrif Freuds. Hann stóð fyrir hina vestrænu, karllægu skynsemishefð – phallógócentrisma Derridas. Gekk myndin að miklu leyti út á tilraunir Hans til að lækna Hana með skynsemina að vopni, tilraunir sem enduðu á skelfilegan hátt.

Í Nymphomaniac eru hlutverkin nokkurn veginn þau sömu, nema nú er það hin „sjúklega vergjarna kona“ Joe sem á í samræðum við Seligman, sem leikinn er af Stellan Skarsgård (Seligman er þýska og myndi útleggjast sem „hinn blessaði” á íslensku.) En uppbyggingin er hin sama. Joe er sannfærð um að hún sé ill manneskja og reynir að sannfæra Seligman um það, á meðan að hann reynir að fá hana ofan af þessari skoðun og styður mál sitt með ótal dæmum úr vestrænni hugmyndasögu. Lars von Trier undirstrikar loks þessi tengsl, svo ekki verður um villst, í atriði þar sem barn Joe fer út á svalir og stendur á brúninni á meðan að hún er úti að svala kynlífslöngun sinni. Þá heyrum við aríu Händels úr óperunni Rinaldo, þá sömu og var leikin í frægu opnunaratriði Antichrist þar sem hið nákvæmlega sama á sér stað.

Kvikmyndin hefur einnig skýr formleg tengsl við nokkur fræg verk úr listasögunni. Augljósasta tengingin er við bókmenntaverk Marcels Proust, Í leit að glötuðum tíma, en ásamt því að Joe og Seligman ræða um verkið beint í myndinni sjálfri þá deilir Nymphomaniac að vissu leyti uppbyggingu þess. Í báðum tilfellum gerast verkin á einni nóttu og samanstanda af minningum úr fortíð aðalpersónunnar. Þessi tengsl eru einnig undirstrikuð með barni Joes sem heitir Marcel.

En ég tel að annað frægt verk sé undirliggjandi nýjustu mynd Lars von Triers: Don Giovanni Mozarts. Eins og ópera Mozarts fjallar Nymphomaniac um alræmdan táldragara sem sængar hjá öllum sem hann kemst í færi við. Þannig má skilja Joe sem eins konar kvenkyns Don Giovanni. Líkindin eru nokkur. Í fyrsta lagi dregur Joe alla á tálar, konur og menn, svarta og hvíta, feita og granna, ríka og fátæka. Hún mismunar engum. Í öðru lagi skammast Joe sín ekki fyrir það sem hún er, eins og kemur fram í eftirminnilegu atriði þar sem hún er stödd á fundi fyrir kynlífsfíkla. Eins og Don Giovanni í lok óperunnar iðrast hún ekki (þrátt fyrir að Joe sjái eftir þeim áhrifum sem gjörðir hennar hafa haft á hennar nánustu, og telji sig af þeim sökum vera illa manneskju, lætur hún aldrei í ljós löngun til að vera eðlileg). Í þriðja lagi er kynhvöt þeirra beggja eins konar dularfullt frumspekilegt afl sem aldrei er fullnægt. Það er sama hversu mörgum þau sænga hjá, það er aldrei nóg. Þannig á fræg greining Kierkegaards á óperu Mozarts einnig að miklu leyti við um Nymphomaniac; Joe er holdgervingur tilvistarstigs fagurkerans. 4

***

nymphomaniac1Helsta ögrun myndarinnar liggur í aðalpersónunni Joe. Með því að fjalla um konu með brókarsótt stefnir Lars von Trier myndinni gegn djúpstæðri tilhneigingu í vestrænni hugmyndasögu – hinni svokölluðu jómfrúar/hóru tvíhyggju. Þessi tvíhyggja á sér djúpar rætur og vilja sumir meina að uppruni hennar liggi í gyðingdómnum og sögunni af syndafallinu í fyrstu Mósebók.5 Í stuttu máli lýsir hún sér þannig að konur skiptast í tvo skýrt afmarkaða hópa, góðar og illar, jómfrúr eða hórur. Hin góða kona er undirlát, hlýðir karlmanninum og hagar sér einsog hið karllæga samfélag segir að konur eigi að vera. Kynferði hennar er viðurkennt að svo miklu leyti sem það þjónar þörfum karlmannsins. Konur sem á einhvern hátt falla út fyrir rammann og samræmast ekki þessari hugmynd um hina góðu konu falla því sjálfkrafa í hinn flokkinn. Því er hin „fallna kona“ áberandi og fyrirferðamikil í sögunni. Hlutverk karlmannsins er þannig að vernda hina góðu, hlýðnu konu á meðan að hann fordæmir þá illu. Þessi tvíhyggja sníður svo skilning karlmanna á hinu kyninu.

Bókmenntasagan er stútfull af dæmum um hina illu konu. Þar má nefna Evu úr áðurnefndri sögu af syndafallinu, Pandóru sem leysti úr læðingi allar plágur heimsins með forvitni sinni, sírenurnar sem reyndu að afvegaleiða Ódysseif með seiðandi söng sínum, svo einhver dæmi séu tekin. Einnig hafa raunverulegar konur úr mannkynssögunni verið séðar á þennan hátt. Augljósasta dæmið er kannski Kleópatra, táldragarinn sem leiddi sterka karlmenn í gönur og olli eyðileggingu þeirra. Lars von Trier kemur Joe kyrfilega fyrir í þessari hefð í atriði myndarinnar þar sem henni vitrast tvær alræmdustu „illu“ konur sögunnar: hóran af Babýlon og Messalina, eiginkona rómverska keisarans Kládíusar.6

Ef við lítum til kvikmyndasögunnar er myndin The Red Kimona (Dorothy Davenport, 1925) áhugavert dæmi um áhrif þessarar tvíhyggju. Kvikmyndin var ein sú fyrsta í sögunni sem var leikstýrt af kvenmanni og raunar einnig framleidd af kvenmanni. Hún var sannsöguleg og fjallaði um vændiskonu, Priscillu Bonner, sem flutti til New Orleans og varð ástfangin af ókunnugum karlmanni. Hún dagar síðan uppi sem vændiskona en það sem fleytir henni í gegnum eymdina og þjáninguna er sú vissa að maðurinn elski hana á móti og að á endanum muni þau vera saman. Þegar hún verður loks vitni að því að maðurinn kaupir trúlofunarhring handa annarri konu skýtur hún og drepur hann. Hér er sem sagt skólabókardæmi um „fallna konu“, en það sem gerir þetta dæmi áhugavert í okkar samhengi er sú staðreynd að Dorothy Davenport, leikstjórinn, vildi sýna söguhetjuna í jákvæðu ljósi frekar en neikvæðu eins og tvíhyggjan heimtaði. Hún vildi að Priscilla fengi uppreisn æru í lok myndarinnar. Viðbrögðin við þessari ósvífni leikstjórans létu ekki á sér standa; myndin var bönnuð af ritskoðunarnefnd Bretlands árið 1926.

Þetta dæmi sýnir hversu óþægilegt viðfangsefni kynferði kvenna er og hefur verið (og fleiri dæmi mætti tína til, t.d. femme fatale persónur rökkurmyndanna). Kvikmyndasagan hefur átt áberandi erfitt með að reiða fram eftirminnilegar kvenkynspersónur sem standa fyrir utan tvíhyggjuna.

Það er í þessu samhengi sem við eigum að skilja Nymphomaniac. Lars von Trier teflir fram Joe, iðrunarlausum kynlífssjúklingi sem notar karlmenn í þeim eina tilgangi að svala sínum eigin þörfum. Þrátt fyrir áhrif jómfrúar/hóru tvíhyggjunnar séu ekki lengur jafn sterk og þau voru þegar The Red Kimona var bönnuð má samt sem áður greina augljós áhrif hennar í fyrstu viðbrögðunum við Nymphomaniac (maður sem gerir kvikmynd um kynferði kvenna hlýtur að vera eitthvað brenglaður og sjúkur!) Þetta viðfangsefni er greinilega enn mjög óþægilegt, eins og Lars von Trier áttar sig réttilega á.

Eins og Seligman bendir á í myndinni sjálfri, þá væru viðbrögðin við hegðun Joe allt önnur ef hún væri karlmaður. Flest, ef ekki allt, sem hún gerir er leyfilegt ef það er karlmaður sem á í hlut. Hér er áhugavert að bera Nymphomaniac saman við tvær aðrar nýlegar kvikmyndir, The Wolf of Wall Street (Martin Scorcese, 2013), og Don Jon (Joseph Gordon-Levitt, 2013). Í báðum tilvikum fjalla myndirnar um karlmenn sem sænga hjá fjöldanum öllum af konum. Í fyrra tilvikinu notfærir aðalpersónan og vinir hans sér vændiskonur. Í seinni myndinni er aðalpersónan háð klámi. Í báðum myndunum má finna gróf kynlífsatriði sem eru sambærileg við Nymphomaniac, þótt mynd Lars von Triers gangi nokkuð lengra. Þrátt fyrir þetta eru myndirnar báðar fyrst og fremst gamanmyndir og þessi hegðun sem slík enginn alvarlegur löstur. The Wolf of Wall Street hefur reyndar vakið neikvætt umtal fyrir að draga upp jákvæða glansmynd af kaupsýslumönnum/verðbréfasölum og syndum þeirra. Kynferðisleg hegðun aðalpersónunnar er sjálfsögð vegna þess að það er karlmaður sem á í hlut og er hún sett fram á gamansaman hátt. Kvikmynd sem fjallar um konu sem sængar hjá mörgum karlmönnum fær hins vegar á sig mikla gagnrýni og leikstjórinn er sakaður um annarlegar hvatir. En myndin ætti að vekja upp spurningar um hvers vegna viðtökurnar eru svo ólíkar.

Lars von Trier undirstrikar í lok myndarinnar hversu djúpt þessi tvíhyggja nær þegar Seligman – sem alla myndina hefur haldið uppi vörnum fyrir Joe og hegðun hennar – fellur sjálfur í gryfju hennar. Fyrr í myndinni hafði Seligman haldið því fram að hann væri laus við alla kynhvöt (asexual) og því væri enginn betri áheyrandi fyrir endurminningar Joe enda kveiki þær ekki hjá honum neina kynferðislega löngun sem gæti haft áhrif á túlkun hans. Í lok myndarinnar er hins vegar forvitni hans vakin og hann reynir að svala henni með því að sofa hjá Joe án hennar samþykkis. Joe – furðu lostin og óttaslegin – skýtur Seligman.

Hvernig eigum við að skilja þennan óvænta endi? Undirritaður hefur orðið var við þá skoðun hjá hinum ýmsu viðmælendum að viðbrögð Joe séu furðuleg og mjög harkaleg (Seligman segir undrandi: „But you‘ve had sex with thousands of men…“), og að endirinn sé í engu samhengi við restina af myndinni. En þá höfum við fallið í gildruna sem Lars von Trier hefur lagt fyrir okkur. Sama hversu mörgum Joe hefur sofið hjá – og hvað hún hefur gert í fortíðinni – er nauðgun alltaf nauðgun. Þrátt fyrir að Seligman hafi alla myndina komið Joe og hegðun hennar til varnar endar hann samt sem áður á því að líta á hana sem hóru sem hann getur nýtt sér í eigin þágu. Hann hugsar sem svo að hún hafi verið með svo mörgum að einn í viðbót skipti hana engu máli. Honum mistekst að skilja þá einföldu staðreynd að konur eru alltaf sjálfráðar yfir eigin líkama, hvort sem það er í fyrsta, tíunda, eða þúsundasta skiptið. Hræsni Seligmans og hefðarinnar sem hann er fulltrúi fyrir er algjör.

***

Í Nymphomaniac eru því áhorfandinn og ómeðvitaðir fordómar hans í garð kvenna teknir til rannsóknar. Myndin er merkileg fyrir margar sakir, og ég hef hér aðeins einblínt á nokkur atriði, en það sem vekur sérstaka eftirtekt er hvernig Lars von Trier ræðst á sterka tilhneigingu í listasögunni – jómfrúar/hóru tvíhyggjuna. Með því að gera fjögurra klukkustunda kvikmynd um konu með brókarsótt dregur Trier fram og tekst á við á við ýmsa undirliggjandi fordóma sem áhorfandinn gerir sér ekki að fullu grein fyrir.

1. Mackic, S. „Bliv Hjemme.“, Modkraft.dk. Vefslóð: http://modkraft.dk/artikel/bliv-hjemme, Sótt: 16/1/14
2. Gotfredsen, S, „Lars von Triers Djævelske Blindgyde“ Politiken.dk, Vefslóð: http://politiken.dk/debat/kroniken/ECE2191272/lars-von-triers-djaevelske-blindgyde/, Sótt: 8/2/14
3. Ég slæ þó þann varnagla að myndin er nýkomin út og hef ég því aðeins einu sinni séð hana. Einnig hef ég aðeins séð klippta útgáfu myndarinnar sem leikstjórinn samþykkti án þess að hafa komið nálægt sjálfur. Því gæti eitthvað af eftirfarandi hugleiðingum breyst við frekara áhorf, eða við áhorf á lokaútgáfunni.
4. Í sínum fræga kafla um óperu Mozarts í Enten/Eller. Et Livs-fragment:
Kierkegaard. S. (1997) Enten – Eller: Første Del. Søren Kierkegaards Skrifter, Bind 2, Gads Forlag, København, bls. 53-136 Öll verk Kierkegaards má finna á frummálinu á slóðinni: www.sks.dk

5. Feinman, Clarice. (1994) Women in the Criminal Justice System. Westport, Connecticut. Bls. 3-4.
6. Þó eru dæmi um mikilvægar undantekningar á þessari tvíhyggju í bókmenntasögunni og þar má helst nefna Frúnna frá Bath í Kantaraborgarsögum Chaucers. Sú persóna fellur undir hóru skilgreininguna, en gerir á sama tíma uppreisn gegn henni innan frá og er þannig hægt að skilja hana sem sterka gagnrýni á hana.