Innreið syndarinnar: Prédikanir á föstu

I

Það er ekki nýtt þó nokkuð sé um liðið síðan rýnt hefur verið að gagni í prédikun kirkjunnar eins og um hverja aðra menningarrýni sé að ræða. Það er að mínu mati verðugt verkefni og áhugaverð áskorun á þessari föstutíð að greina prédikunarkúltur útvarpsmessunnar, m.a. vegna þess margbreytileika sem birtist í prédikun presta þjóðkirkjunnar. Ég mun ekki velja þá af handahófi eða eftir smekk heldur einskorða mig við þá sem berast áheyrendum úr viðtækjunum á (síðasta og) næstu sunnudagsmorgnum, fylgjist fólk með útvarpsmessunni á RÚV. Einn daginn getur þeim borist krefjandi prédikun um siðferðisleg málefni sem felur í sér gjörsamlega ólíka nálgun en sú síðasta – og í því birtist mismunandi túlkun hvers prédikara fyrir sig á erindi sínu. Og öll prédikun er pólítísk – eins og ljóst er af þeim forsendum sem ég gef mér í fororðinu að þessari tilraun. Grunnatriðið er að átta sig á því í hverju sú „pólítík“ felst hverju sinni. Það er ætlun mín að draga athyglina að þessum margbreytileika eftir því sem fram vindur en uppúr stendur í pistli dagsins að horfa til fyrsta sunnudags í föstunni, prédikun Ólafs Jóhannssonar í Grensáskirkju, Hálfsannleikur.

Til að undirbyggja skilning lesenda á því hvað ég á við með margbreytileika (sumum finnst þetta jú allt sama guðsorðahjalið) þá er ágætt að bera hana fyrst saman við prédikun þar síðasta sunnudags (Væn, kæn og græn) til að varpa ljósi á að það er ekki aðeins ólíkur boðskapur heldur einnig form sem getur falist í hverri prédikun fyrir sig. Og þó nefndar prédikanirnar séu mjög ólíkar, þá eru þær báðar pólítískar á mjög leyndardómsfullan hátt.

II – Umhverfisverndarútúrdúr til samanburðar

Umhverfisverndarprédikun Kristínar Þórunnar Tómasdóttur úr æskulýðsmessunni í Vídalínskirkju var í sjálfri sér „óvænt“ pólítísk vegna þess að breyting hefur orðið á hinum almennu straumum í samfélaginu um áherslur sem varða umverfisvernd eftir að stjórnarskipti urðu í landinu. Við skulum líka taka með í reikninginn að þessi hrópandi munur sem var á messunum sjálfum og inntaki þeirra getur orsakast af mismunandi samhengi þeirra í dagatali kirkjuársins. Fyrri messan var létt og skemmtileg messa ætluð til þess að höfða til æskulýðsins, dregið var saman efni sem lögð hefur verið áhersla á á yfirstandandi kennsluári í æskulýðsstarfinu, náttúruvernd. Þemað hafði verið valið og lagt upp með löngu áður en að í viðkomandi sókn hófust mótmæli og framkvæmdir vegna fyrirhugaðrar lagningar vegar í gegnum Gálgahraun. Nefnd prédikun birtir okkur nokkur einkenni „hins nýja stíls“ sem minnst var á í fyrri pistli, en prédikun Ólafs stendur fyrir „hinn klassíska stíl“ á nokkuð skýran hátt. Séu þær bornar saman innihaldslega birtast líka nokkuð mismunandi áherslur í guðfræði.

„Rétt bráðum gengur fastan í garð. Fastan er tími í kirkjunni þar sem við lítum inn á við og íhugum á hvaða leið við erum með lífið okkar. Það er tíminn sem við horfum gagnrýnum augum á hvar við erum stödd, hvaða ósiðum við höfum komið okkur upp og hvernig lífstíll okkar og framferði hefur neikvæð áhrif á náunga okkar. Við íhugum hvernig okkur gengur að vera glaðar og góðar manneskjur, sem láta drauma sína rætast og hjálpa öðrum til þess sama.
– Úr Væn, kæn og græn eftir Kristínu Þórunni Tómasdóttur.

Kristín opnar prédikun sína með nokkuð langri frásögn sem er algjörlega óháð guðspjalli dagsins og víkur raunar í engu að því svo orð sé á gerandi þegar hugleiðingunni vindur fram. Þessi stíll er að ryðja sér rúms í prédikunarfræðunum almennt og miðar að því að ná athygli og kveikja áhuga áheyrandans með annarsskonar fagurfræði en hin skynsamlega „ritgerðaruppbygging“ klassískrar prédikunar gerir. Í hinum nýja stíl, ef svo má kalla, þá eru hugleiðingar prédikarans um samfélag sitt drifkrafturinn og spennandi frásögn, óvænt í hinu kirkjulega samhengi, af jafnvægislist náttúrunnar í Yellowstone þjóðgarðinum í Ameríku kveikir áhuga áheyrandans. Efnistök og eðli dagsins leiða síðan til annarrar frásagnar af áherslum fræðslu fermingarstarfanna þar sem siðferðislegur undirtónn hvað varðar ábyrgð mannsins gagnvart náttúrunni er leiðarstef, og frjálslynda guðfræðin lætur í sig skína með tilstilli hugtaka eins og „hinni heilögu jörð“ og umsnúnu ráðsmennskuhlutverki, sem lítur að því að maðurinn verndi óspillta náttúru í stað þess að brjóta hana undir sig til nýtingar. En það sem stingur hvað mest í stúf með áhugavekjandi hætti er að unglingarnir sem prédikunin er ætluð eru hvattir til að samsama sig úlfunum fremur en dádýrunum, þeim sem stuðla að náttúrulega jafnvægi í stað þeirra sem ofnýta náttúruna. Hugrenningartengslin á milli unglinganna og úlfanna eru síðan tengd við sáðmanninn sem gekk út að sá, ímynd Góða hirðisins og mannsonarins, og þau hvött til að leggja sitt af mörkum til að koma af stað keðjuverkun til góðs í sínu nánasta umhverfi.

Þessi prédikun Kristínar er einföld og vekur til umhugsunar, hún er raunar frekar hugleiðing en prédikun og bitlaus sem túlkun á ritningunni sjálfri. Gott ef ekki að Jesú sé víðsfjarri í henni og komi ekkert við sögu – en hún virkar vel til að vekja til umhugsunar um siðferðilegt val og ábyrgð mannsins og er því trú leiðsagnarhlutverkinu sem presturinn sem fræðari ber. Það er ekki við Kristínu eða námsstefnu Vídalínskirkju að sakast þó stefna stjórnvalda sé að einhverju leyti öndverð við inntak hennar. Vandinn er ekki pólítískt val kirkjunnar í ljósi nýrrar stefnu stjórnvalda heldur hefur hið náttúruguðfræðilega stef orðið fyrir valinu á síðustu árum sem farvegur samtals kirkjunnar við þann hóp sem er náttúruvernd og útivist hugleikinn. Það sýnir óvæntan styrkleika í kirkjulegu samhengi að orðræða hennar sé skyndilega hápólítísk en um leið guðfræðilega ígrunduð.

II – Innreið syndarinnar í Grensáskirkju

„Freistarar á öllum tímum beita sömu rökum. Höggormar samtímans segja óhörðnuðum unglingum iðulega að neysla vissra víumuefna sé sárasaklaus. Og nú hafa þeir hrundið af stað herferð til að auka framboð á slíkum efnum og auðvelda aðgengi að þeim. Það er kallað að afglæpavæða neyslu fíkniefna.“
– Úr Hálfsannleik eftir Ólaf Jóhannsson.

Prédikun sr. Ólafs Jóhannssonar „Hálfsannleikur“ er öndvert við prédikun Kristínar af hinum klassíska toga þar sem textar fyrsta sunnudags í föstu leiða hugarflug höfundarins frá upphafi. Ólafur er snjall og „léttur“ prédikari, ritar og flytur leikrænan texta með nokkrum útúrdúrum og heldur hugsun sinni til streitu heilt í gegn með vísunum í freistingar guðspjallasögunnar. Hann varpar upp skýrri mynd af Jesú sem fyrirmynd, söguhetju sem er í skýrum kontrast við okkur mennina sem tilheyrum því fallna mannkyni sem Aldingarðstextinn úr 1. Mósebók hefur leitt okkur í ljós að við erum hluti af. Okkar er freistað og við erum freistarar. Mannkynið, eins og Ólafur teiknar það upp – virðist varla eiga sér viðreisnar von – það virðist sífellt taka vanhugsaðar áhættur og láta reka á reiðanum; það er óhæft um að bera ábyrgð á vali sínu, gæta hófsemdar, vera til fyrirmyndar, sækja styrk í Guðs orð og þó. Það á von fyrir trú, og maðurinn getur hafnað hinu illa, rétt eins og Jesú gerði í eyðimörkinni. Þessi mannskilningur og syndaskilningur er brúkanlegur fyrir sitt leyti við ákveðnar aðstæður en til hans er þó ekki gripið vegna þess eins að föstutíðin er að hefjast. Í eldri prédikunum Ólafs sem snerta á syndinni og afstöðu Jesú til hennar er þennan pietiska túlkunarramma að finna á svipuðum nótum og þekkist í heittrúarhreyfingum og leikmannasamtökum á borð við KFUM, en kallast vissulega á við guðfræði sem hvílir í öruggum faðmi borgaralegs siðferðis og á sér sterk ítök í Þjóðkirkjunni sjálfri.

Eitt af því sem vekur athygli er að Ólafur velur, þrátt fyrir að hafa klárlega óbeit á því að fólk vísi frá sér ábyrgð þegar afleiðingar syndarinnar banka uppá, að hefja leit að syndinni, syndurunum í samfélagi okkar. Það er jafnvel eins og Ólafur hafi þörf fyrir að benda og útmála syndina í samfélaginu; hann hæðist að smámennum sem reyna að maka krókinn með auvirðilegum aðferðum, en kalla það sjálfbjargarviðleitni; hann tiltekur, hvernig fólk misnotar aðstöðu sína, hvernig fólk hugsar ekki um uppeldi barna sinna, hvernig foreldrar freista þess að kaupa sér frið frá þeirri ábyrgð að ala upp börnin sín með ástúð og aga. Hann er að vekja til umhugsunar um að fólk – við – séum á endanum alltaf að kenna öðrum um ófarir okkar. „Í nýliðinni viku voru seldir miðar á tónleika með Justin Timberlake í sumar. Þeir seldust upp á augabragði. Strax í kjölfarið voru miðar komnir í sölu á svörtum markaði á uppsprengdu verði. Snjallt eða siðlaust? Sjálfsbjargarviðleitni eða græðgi?
– Úr Hálfsannleik.
Ef fyrri prédikanir hans af sama meiði eru skoðaðar þá kemur fyrir svipað stef en einnig sú áhersla að það þýði ekkert að bera í bætifláka fyrir syndarann með því að leggja áherslu á hverjar aðstæður hans séu, hvað lífið hafi komið harkalega niður á viðkomandi. Það er að mati Ólafs engin afsökun, þ.e.a.s. það fríar okkur ekki undan því að þarfnast þeirrar gjafar sem fyrirgefningin er, og til þess að öðlast þá náð, þá þurfum við trúna á frelsarann Jesú. „Frelsarinn er nefnilega ekki og vill ekki vera einhver brauðkonunungur, sem lætur fólk fylgja sér á röngum forsendum með því að taka burt einkenni fallinnar veraldar í stað þess að ráðast að rót vandans“ – segir Ólafur, og er það vel og ágætt veganesti að hafa hug á því.

Eins og ljóst má vera var Óli (við spiluðum saman fótbolta á fimmtudagsmorgnum og ég má kalla hann þetta) nokkuð beinskeyttur síðasta sunnudag, það er að segja hann reiddi nokkuð hátt til höggs og „rödd Guðs í brjóstum okkar“ samviskan kann að hafa farið að bíta frá sér í brjóstum margra okkar sem vitum upp á okkur sökina, þráum völd, visku, virðingu – „við sem þráum jarðneskan Edensgarð“ – við, aumar mannskepnur sem göngum um fullar af sjálfsvorkunn í stað þess að vera fullgildar manneskjur með eigin vilja – hvað ætlum við að gera til að halda okkur „í náðinni“? Á ekki prédikunin að benda okkur á leiðir til þess?

Ætlum við að fara að benda? Benda á „höggorma samtímans“ eins og Óli kallaði þá; ætlum við að finna blóraböggla í þessum ímyndaða óvini sem hvíslar á skólalóðinni „Það er allt í lagi að prófa, eitt skipti sakar engan“ … Ætlum við, eins og Óli gerðist sannarlega sekur um, að úthrópa og brennimerkja fulltrúa „freistarans á öllum tímum“ – einhverja óskilgreinda „þá“ sem hafa nú „hrundið af stað herferð til að auka framboð á slíkum (vímu) efnum og auðvelda aðgengi að þeim. Það er kallað að afglæpavæða…“ sagði Óli Jó í prédikun sunnudagsins. Þegar illa fer þá „þjakar (það) ekki samvisku þess sem otaði eitrinu að ungmenninu.“

III

Alvarleiki misræmisins í þessari prédikun er ekki augljós, nema maður hafi á málinu ígrundaða eða afdráttarlausa skoðun. Það sem skiptir máli er að í upphafi prédikunar Óla vinar míns Jó málar hann upp mynd í sterkum litum af „eiturlyfjadjöflinum“ sem haldið hefur verið á lofti – og litaði með því allt tal um syndina sem þar á eftir kom, því populistiska og væmna hjali að þarna úti væri ógn og skelfing, eitthvað sem við þurfum að vernda börnin fyrir, þarna úti væri hið illa og sæti um sálirnar, „Djöflinum er auðvelt að selja sál sína fyrir völd og yfirráð“ sagði Óli um leið og hann tiltók umræðuna um afglæpavæðingu vegna neysluskammta t.a.m. af kannabisefnum sem „herferð“ af hálfu óskilgreindra „þeirra“. Kristján Þór Júlíusson var spirrtur saman við ráðslag og verkfæri „hins illa í heiminum“.
„Við reykjum, drekkum og étum okkur til ólífis, fullviss um að það sé í lagi hjá okkur þótt einhverjir aðrir taki afleiðingum þess að ástunda óheilsusamlegt líferni. Við látum reka á reiðanum varðandi uppeldi barnanna í þeirri sælu vissu að það sé allt í lagi með börnin okkar en einhver önnur börn fari í hundana. Þannig fleygjum við okkur ítrekað fram af þakbrúninni og ætlumst til að forsjá Guðs tryggi okkur mjúka lendingu.“
– Úr Hálfsannleik.

Alvarleiki þess að halda á lofti háum siðferðidómi af jafn innilegri vanhugsun og þarna birtist, ætti að brýna okkur til að taka umræðuna um svart-hvíta sleggjudóma í prédikun alvarlega, þar sem „syndin“ er allt í einu farin að holdgerast í náunga okkar – syndaranum. Hvað varð af miskunnseminni, Kristi sem bað þann faríseianna að kasta fyrsta steininum sem syndlaus væri? Hvar var leiðarljós Jesús sem tók sér stöðu með þeim sem sjúkir voru eða á jaðrinum? Hvar var huggunin í prédikun Ólafs og hvar var samstaðan með aðstandendum þess ógæfufólks sem lokast af í útskúfun þess veruleika sem er útmálaður sem syndsamlegri en okkar eigin því þar fari fram „ólöglegt athæfi“. Getur glæpur verið meiri synd en syndin sjálf? Að vísu er ekki sanngjarnt að segja að Ólafur hafi ekki leiðbeint, huggað; hann kallar eftir styrkleik hvers og eins til að ákveða að vera siðferðislega heilsteypt manneskja, að gera ekki það sem er ólöglegt; að úthýsa syndinni úr lífi sínu með því að ákveða, með aðstoð Guðs orðs að breyta rétt. „Því að Jesús gefur okkur styrk.“ Er þetta svona einfalt? Fyrir trú?

Ég verð að viðurkenna að þrátt fyrir alla mína guðfræðimenntun og reynslu af ríkulegu trúarlífi, þrátt fyrir innsýn mína í prédikunar-og túlkunarfræðin kom hvergi fram í prédikuninni í hverju lausnin gæti falist, í hverju sá styrkur sem frá Kristi kemur getur falist öðru en því að hafna og dæma. „Hann einn hefur vald til að fyrirgefa þegar við misstígum okkur, hrösum og föllum. Hann er frelsari okkar og dó vegna synda okkar,“ sagði Óli.

„Mannkynið hefur tilhneigingu til að teygja sig eins langt og það kemst. Siðferðisleg viðmið víkja fyrir þörfinni að vita, geta og ráða yfir. Allir tæknilegir möguleikar eru framkvæmdir. Þannig eignaðist mannkynið gereyðingarvopn sem nú er lagt kapp á að útrýma. Þannig varð klám á netinu að veruleika sem hart er barist gegn núna. Þannig kom einræktun til sögunnar þótt flestum sé orðin ljós áhættan sem fylgir henni.“
– Úr Hálfsannleik.

Ég er engu nær um frelsunarverk Krists, ábyrgð mína gagnvart sjálfum mér, barninu mínu eða náunganum eftir lestur þessarar prédikunar. Ég heyri það sagt að „Jesús hafi hafnað því að taka burt einkennin til þess að ráðast að rót vandans“ – og þó að vandinn blasi enn við, hin fallna mannskepna, þá á ég ekki að breyta samkvæmt þessu ráði. Ég á ekki að taka þátt í umræðu um að hætt sé að refsa fórnarlömbum bannhyggjustefnu á háskalegum markaði; til þess að mögulega skapist einhverntíma aðstæður til að ráðast að rót vandans – eymd og aðstæðum neytendanna. En ég á að hafna þeim, brennimerkja hin óskilgreindu „þau“ sem höggorma samtímans. Hina líkþráu holdgervinga syndarinnar. What would Jesus do?

Ég er ekki aðeins ósammála þeim málflutningi sem viðhafður er í nafni kirkjunnar í prédikun Ólafs síðasta sunnudags, heldur gengur prédikunin ekki rökfræðilega upp í guðfræði sinni. Hún verður „svart-hvít“ og einfeldningsleg – sem sumir kalla lágkirkjuleg og á mannamáli – en skortir auðmýkt, þar sem hún er borin fram af sjónarhóli siðferðislegra yfirburða í stað þess að miðla breytni sátta og skilnings. Hún er samt ekki vond, ekki fyrir það sem hún er, því hún var skemmtileg og virkar vel fyrir þá sem samsama sig þess konar guðfræði. En ég hlýt að spyrja; er það friðþægjandi að benda – og ásaka sig um leið fyrir það að benda því það eigi ekki að varpa ábyrgðinni af sjálfum sér á aðra? – og varpa svo öllum syndunum á Jesú.

IV

Í prédikun Ólafs Hálfsannleikur, má á leyndardómsfullan hátt greina línur í pólítík, eins og ég benti á í samanburðardæminu að framan, sem öskra á mann ef maður áttar sig á samhenginu. Ekki vegna þess að hann beini sjónum sínum að „hitamáli“ á ómaklegum nótum heldur vegna þess að með því að eyða púðri í það, og útmála hálfsannleika einhverra peða í smáglæpaheimum sem afl syndarinnar í samtímanum, þá þyrlar hann upp sandi. Það er ekki maklegt ef við berum þær „syndir“ saman við hin altöluðu og allt um lykjandi vandamál samfélagslegrar orðræðu, það er ekki heiðarlegt að horfa fram hjá því stóra og augljósa á sama tíma; hálfsannleikum og blekkingum sem óskammfeilnir ráðamenn þjóðarinnar halda á lofti þegar þeir ganga á bak orða sinna; hinir raunverulegu freistarar og blekkingarmeistarar sem iðrast einskis eftir að hafa beitt blekkingum til að ná til sín völdum – og benda þar að auki á alla aðra þegar miður fer! Við hljótum að viðurkenna að við sjáum skóginn þrátt fyrir flísarnar og að táknmyndirnar úr Opinberunarbók Jóhannesar holdgerast ekki eingöngu með horn og hala. Með þessari dulpólítík afhjúpar Ólafur að nokkru vanda þjóðkirkju dagsins í dag, þá staðreynd að fylgispök trúarstofnun sem veigrar sér við raunverulegu sjálfstæði, getur virst nauðbeygð og kúguð ef hún þorir ekki að segja satt og rétt frá. Þess vegna verður hún að gangast við því að hún kemst aldrei hjá því að vera pólítísk, vegna erindis síns, og verður metin í samræmi við það sem hún heldur fram, rétt eins og af því sem hún þegir um.

Að þessu sögðu má gera ráð fyrir reglulegri prédikunarrýni á þessum vettvangi alla föstuna. Við skulum íhuga, láta af þrætum – illdeilum og illmælgi – elska náungann, tala saman.