Gullstyttan Sírena eftir Marc Quinn, sem sögð er sú stærsta frá tímum forn-Egypta, sýnir ofurfyrirsætuna Kate Moss, sem Quinn sagði vera „hina fullkomnu fegurð augnabliksins“. Fyrirsætur passa furðu oft í hið fræga gullinsnið.

Hvað er fegurð? – 5. svar

eliasknorr2

Elías Knörr (Elias Portela).
Mynd: Laura Andrés Esteban

Einhverra hluta vegna hugsaði ég um stóran villiskóg þegar ég var beðinn um að lýsa fegurðinni. Ég myndi vera nakinn og hlaupandi í leit að einhyrningum, myndi búa með bóhemískum dvergum og kannski myndi ég vekja fegurðina hvar sem hún sefur … En svoleiðis útskýring er alltof ævintýraleg og persónuleg til að koma hugmyndum mínum til skila, þannig að ég skal reyna að vera heimspekilegri.

Mér detta tvær ólíkar leiðir í hug til að útskýra fegurðina, annaðhvort að beita ytra sjónarhorni og lýsa henni sem raunveruleika í ytri heiminum, eða hafa innra sjónarhorn og lýsa henni sem skilvitlegu (kognitífu) fyrirbæri, einhverju innbyggðu í huga þess sem upplifir hana. Bæði viðhorf eru jafngild, en þau fela í sér ólík hugtök og, í raun og veru, andstæðan skilning á því hvað fegurðin er.

Persónulega er ég meira fyrir síðari kostinn, að beita innra sjónarhorni og skilgreina fegurðina sem skynjun. Vandamálið er að slík fegurð er of flókið og margslungið fyribæri til þess að hægt sé að útskýra það áður en ég þarf að afhenda þessa grein kláraða, því segi ég aðeins eitt um þetta: með þessari afstöðu kemur í ljós að fegurðin í sjálfri sér er ekki til. Fegurð samsvarar engu sérstöku í raunheiminum. Hún er fyrirbæri sem gerist og tíðkast af og til þannig að maður getur uppgötvað mynstur sem endurtakast og gefa hana í skyn, en hún er ekki raunveruleg. Þessi mynstur fara oftast eftir náttúrunni eða eigin reynslu skynjandans, þannig að það er viss rökfræði í þeim. Samt sem áður eru þau alltaf misjöfn, afar huglæg og fara eftir kringumstæðunum. Fegurð er þá í eðli sínu ekkert stöðugt fyrirbæri, heldur eitthvað síbreytilegt sem aldrei verður eins. Fagrir hlutir munu ávallt finnast á meðan til er líf sem getur skynjað þá, en fegurð í sjálfri sér er alls ekki til í raunheiminum, utanhugar.

Sem einfalt dæmi dettur mér í hug að nefna gullinsniðið fræga sem fær kuðunga og blóm til að vera falleg, þotur til að fljúga, líkama til að vera aðlaðandi og tónlistina til að vera grípandi. Gullinsniðið finnst að nokkru leyti í nánast öllu því fallega sem umkringir okkur, en það er ekkert í sjálfu sér nema visst hlutfall sem hugur okkar er hannaður til að bera kennsl á. Einnig er fegurð gjarnan óhlutbundnari en stærðfræðileg fyrirbæri. Fyrir ljótu trúlausu fólki einsog mér getur hún líkst frekar hugmyndinni af guði, sem alls ekki er til, þó að samt sem áður sé ekki erfitt að finna vísbendingar um hann út um allt.

Í vestrænni menningu hefur ytra sjónarhorn fegurðarinnar alltaf verið meira áberandi, ef til vill vegna abrahamískra trúarbragða (ekki gleyma að gyðingdómur, kristni og íslam eru í eðli sínu eins, sama þríhöfðaskrímslið). Fegurðin grundvallast á raunheiminum, á hlutum og gæðum þeirra. Hún virðist ekki vera hlutlæg eða misjöfn eftir eigin reynslu, heldur er hún óbreytilegt hugtak, hún grundvallast gjarnan á áþreifanlegum raunveruleikum og væntanlega ætti hún að vera algild.

Íslensk tunga er einkar fær um að útskýra þessa hugsun. Orðið „fegurð“ þýðir fríðleikur, nefnilega „það að vera fagurt“, en þetta „fagurt“ þýddi upprunalega „það sem gljáir og skín“, þ.e.a.s. tjáði ákveðna tegund af fegurð. Hugtakið er orðsifjafræðilega tengt sögnunum „fága“ og „fægja“, þannig að fagurt er það sem búið er að fægja, einsog eðalmálm. Slík fegurð felur þá tvö skilyrði í sér: fyrst og fremst eitthvert fágunarferli og svo einhver eðlileg gæði í hlutunum sem geta leitt af sér gljáa.

Þessi skilningur á fegurðinni sem ferli eða hreinsun samsvarar því æði vel hvernig klassísk fegurð hefur verið metin í menningu okkar. Í hinum vestræna heimi finnst rík tilhneiging til að telja náttúruna vera eitthvað hrjúft og gróft sem eigi að þrífa og slípa. Jörðina á að vinna til að fá ávexti eða fallegan blómagarð, manneskjur þurfa að fágast og siðmenntast – ekki síst í nýlendum – listaverk eru árangur langrar og harðrar vinnu, o.s.frv. Alltaf virðist vera nauðsynlegt að framkvæma eitthvert hreinsunarferli til að láta fegurðina skína, því án þess verður gullið ekki skilið frá soranum.

En ekki má gleyma að slíkt ferli er einungis mögulegt ef hlutir eru gæddir þeim sérstaka eiginleika að geta gljáð og skinið yfir öllu hinu. Það er eitthvað í eðli gimsteins eða í frjósömu landi sem leyfir að útkoman sé fremri hinni hrjúfu náttúru. Einnig má finna samsvarandi gæði í hetjum barnaævintýra, því fegurð þeirra gerir að verkum að hið góða sigri alltaf ljóta heiminn og illskuna, þó sagan sé þeim andsnúin.

Maður gæti opnað listaverkabækur til að sjá að þennan fegurðarskilning skortir hvorki ástæður né tilgang; hann er vel rökstuddur og hefur sýnt mannkyninu mikil afrek í listasögunni. En kannski væri meira viðeigandi að opna bækur í sagnfræði eða trúarbragðafræði til að sanna þennan hugsunarhátt og uppgötva siðfræðilegu flækjurnar sem slík fegurð felur í sér.

Stærsta vandamálið við þennan hugsunarhátt er að hann ber í sér vissa löghyggju. Þegar öllu er á botninn hvolft reynist þessi fegurð vera einsog hver annar móralismi, einhver yfirborðsleg siðfræði sem verður frekar óeþísk, sérstaklega þegar hún er notuð til að skilja hið góða frá hinu illa.

Við fyrstu sýn hljómar ekki svo neikvætt að áreynslu þurfi til að öðlast fegurð, að það þurfi að hreinsa, slípa, fága … líkt og góður kristinn maður þarf að reyna mjög á sig til að eiga verðugt líf fyrir augliti guðs. Áreynslan og vinnan eru jákvæðar og nauðsynlegar, því náttúran sýslar oftast ekki fyrir gagn mannkyns. En samtímis veldur þessi hugsunarháttur því að fagra gullið er hafið til skýjanna á meðan allt annað verður að sora og fyrirlitningu. Með því að skapa slíka fegurð sköpum við líka ljótleika og auk þess myndast ný neikvæð hugtök um það sem ætti að vera botnfall, úrgangur og einskisvirði. Með svipuðum hugsunarhætti grundvallast strangtrúarstefnur, sexismi, rasismi eða hvers slags fasismi; allt í nafni fegurðarinnar.

Þessum hugmyndum tilheyrir enn hættulegri fullvissa, nefnilega sú að samkvæmt löghyggjunni sprettur fegurðin af innri gæðum sem eru meðfædd í hverri veru raunheimsins. Maður getur lagt sig mikið fram um að vera góð manneskja, en ef maður fæddist ekki með trú, þá er ekki minnsta agnarögn af bjargræði möguleg; ef maður fæðist ekki með „gull“ þá finnst ekkert að fága. Við vitum að vondir kallar í ævintýrum eru alltaf ljótir og kreppulönd eru í klípu því íbúar þeirra eru aumingjar – a.m.k. þegar ekki um Garðarshólm(a) er að ræða. Samtímis eru fallegar söguhetjur einsog Mjallhvít svo undursamlega gljáfagrar að þær verða ekki drepnar og enn síður verður þeim nauðgað … og já, alla þessa rökfræði má líka sjá í raunheiminum, eða hvað?

Slík fegurð er dogma sem veitir mannkyni leyfi til að skapa sora og rusl, en ekki má gleyma að allt á jörðinni er nauðsynlegt. Í það minnsta ættum við að læra að endurvinna meira í þessum heimi, því ekkert er ónýtt í sjálfu sér. En fegurðin sem huglæg og síbreytileg skynjun kennir okkur að allt hefur sinn fallega tilgang í viðkomandi aðstæðum. Hugtök endurvinnslunnar eiga ekki einungis við í náttúruumhverfinu, heldur líka í menningunni. Að þessu leyti hefur nútímalistin a.m.k. hundrað ára forskot á samfélagið, því hún hefur þróast til þess að meta fegurðina á ýmsa nýja vegu. Fagrar listir gætu kannski hafa fengið samfélagið til að læra og þróast til hins betra, en listaheimurinn er sennilega of tengdur akademíuhugsun og háður markaðnum til að geta orðið árangursríkt verkfæri fyrir samfélagið. Persónulega finnst mér vonarverpið hreiðra um sig í ljóðum, og ég meina ekki bókmenntum endilega, heldur ljóðrænu hlutverki málsins, meðvitaðri notkun orðanna. Ég er þeirrar trúar að með því að efla tjáningarkúnst og -frelsi myndu viðhorf okkar til heimsins breytast og samtímis myndi skynjun okkar á fegurðinni víkka og auðgast. Samfélagið yrði opnara og meira skapandi, skólar myndu síður líkjast fangelsum og fangelsi myndu meira líkjast skólum. Slíkt væri fagurt að sjá.

Samt sem áður, og þó að þessi síðasta hugmynd gæti hljómað væmin, voru skilgreiningar mínar frekar neikvæðar og þegar allt kemur til alls virðist fegurðin vera ansi hættulegt og slæmt fyrirbæri. Ef maður hefur í huga að fegurðin er eitthvað algjörlega óraunverulegt, þá getur maður aldrei treyst henni, því hún svíkur manni alltaf að lokum … og það hljómar fullkomlega örvæntingarþrungið. Hvernig væri hægt að koma sér fram úr á hverjum morgni, ef manni væri ekki kleift að trúa á fegurðina? Ég er ekki með neitt ákveðið svar en hægt væri að spyrja þunglyndan mann að þessu – vinsamlegast gerið það, takk!

Á hinn bóginn, ef maður skilur fegurðina sem einhver raunveruleg og ákveðin gæði, þá ýtir hún að manni yfirborðslegri siðfræði og, að lokum, fasisma. Sennilega er það enn verra en hitt.

Augljóslega er lífsnauðsynlegt fyrir mannveruna að hafa alltaf fegurð nærri sér, hvernig fegurð sem er, eitthvað sem getur veitt manni innblástur. Sennilega er hún einfaldasta leiðin – ef ekki hreinlega eina leiðin – til þess að finna merkingu og tilgang í þessari tilveru. En fegurðin verður hrikalegur einræðisherra ef hún opnar ekki landamærin sín. Reyndar finnst mér ekkert hollara en undrun og sérstaklega kímnigáfan til þess að skilja betur fegurðina án þess að firrast. Margir myndu eflaust játa það að lífið sé einfaldlega ljótt án undrunar og kímni, þannig að kannski stikar þetta tvennt bestu leiðina til fegurðarinnar. Og ef til vill, einu leiðina til að vera hamingjusamur.

En nú ætla ég að tjá mig aftur á ævintýralegan hátt, því þegar allt kemur til alls finnst mér ekkert fegurra en hugmyndin um að ganga til skógar og hitta eigin örlög augliti til auglitis.

Elías Knörr er ljóðskáld.

Starafugl bað sextán listamenn úr ólíkum listgreinum og á ólíkum aldri að svara til um afstöðu sína til fegurðarinnar. Svörin munu birtast eitt á dag næstu daga á meðan enn eru nokkur til.