Nærmynd af Pietu eftir Michaelangelo.

Hvað er fegurð? – 2. svar

stefanboulter

Stefán Boulter.

 

„Fegurra en hið fagra eru rústir hins fagra“.
– Auguste Rodin

Að fjalla um fegurðina er álíka hættulegt og að ganga inn á jarðsprengjusvæði þar sem ekkert bil er milli sprengja. Maður er dauðadæmdur í hverju skrefi. Vinur minn sagði að þegar maður segði eitthvað vera fallegt, þá hyrfi fegurðin. Það er eitthvað til í því. En eins og góður stóisti vil ég fjalla um þá fegurð sem við getum haft áhrif á eða skapað. Náttúruleg fegurð er óháð skoðunum okkar og ekki ætla ég að eyða púðri í hana. Innst inni þykjumst við vita hvar fegurðin er þótt smekkur okkar sé ólíkur. Hún veitir okkur vellíðan og huggun. Nú þykir það voðalega smart, jafnvel gáfulegt, að þykja það sem er ljótt vera fagurt og það sem er fagurt, ljótt. Sérstaklega á þetta við í myndlist og byggingarlist. Áratugum saman hefur sú fagurfræði ráðið ríkjum að óaðlaðandi og mannfjandsamlegt umhverfi sé í lagi. Þetta er líklega ein ástæða almenns þunglyndis á Vesturlöndum, klisjan um  að andinn sé ofar efninu. Það sé í lagi þótt umhverfið sé óaðlaðandi, kalt og ljótt, það búi nefnilega yfir „innra gildi“, sem erfitt sé að koma auga á. Okkur er talin trú um að hlutir búi yfir innri fegurð rétt eins og manneskjur. En skynfæri okkar upplifa oft eitthvað allt annað og ljúga ekki. Heilu hersveitirnar af rétthugsandi listspekúlöntum hafa predikað að einhver annar en við sjálf séum dómbær á hvað sé fagurt og hvað ekki. Svo eru þeir sem segja að allt sé fallegt, það fari bara eftir því frá hvaða sjónarhorni sé horft. Ég hef aldrei meðtekið þá kenningu. Hún er í senn hol, ábyrgðarlaus og ávísun á hörmungar.

Ég ætla að gerast svo djarfur að halda því fram að hið ljóta sé ætíð auðveldara en hið fagra í listsköpun. Fegurðin krefst visku, kunnáttu og umfram allt annað, samkenndar. Fegurðin sprettur ekki af sjálfu sér, í mannlegu umhverfi blossar hún ekki upp úr engu. Við þurfum að hafa fyrir henni og standa vörð um hana. Listmálarinn Renoir spurði hvers vegna listin mætti ekki vera falleg, næg væru víst óþægindin í heiminum. En til að skapa fegurð þarf athyglin að flytjast frá hæpinu í kring um listamanninn til listaverksins sjálfs, frá hugmyndunum til þess sem er gert. Fegurðin á ekki séns þar sem íronían tröllríður öllu, þaðan er svo stutt í biturðina og hún er ekki falleg. Fegurðin liggur alltaf vel við höggi kaldhæðninnar eins og dæmin sanna.

Margar borgir í Evrópu voru lagðar í rúst í seinna stríði, forljótar kassabyggingar voru reistar í þúsundatali á rústunum, hið mannlega var máð út. En með tímanum kom í ljós að ljótleikinn olli almennri vannlíðan og bágum efnahag. Menn tóku upp á því að endurbyggja borgir stein fyrir stein eins og þær voru fyrir stríð. Og viti menn, með fegurðinni kom velsæld, efnhagur batnaði, túrismi jókst og fólk naut þess að búa þar sem áður var auðn. Þetta er bein sönnun þess að fagurt umhverfi gerir líf okkar betra og það sé því rétt að hafa fegurðina að markmiði. Við erum ekki vélmenni, heldur næmar tilfinningaverur.

Móteitrið við ljótleikanum er ekki enn meiri ljótleiki, eins og virðist hafa verið trendið í samtímamyndlist í fjölda ára. Þar telst hið fagra syndsamlegt, heilu flokkarnir af listamönnum hafa gerst undirgefnir þrælar þeirrar mýtu að hægt sé að gera heiminn betri með því að endurspegla einungis það sem er ljótt. En kannski þurfa listamenn að sýna smá hugrekki og lyfta sér upp úr volæðinu og hreinlega benda á nýja leið í sinni list, í stað þess að staðfesta í sífellu hvers konar heimi við lifum í. Það er hin risastóra klisja, við vitum það nú þegar: barnaníð, stríð, neysluhyggja, heimsendir er örugglega handan við hornið. Ef eitthvað þykir fagurt í listum þá er það gagnrýnt sem innihaldsrýrt, yfirborðskennt, plat, sölumennska, fortíðarþrá, nefndu það! Í dag ríkir fagurfræði þess listamanns sem vill að allir þjáist með sér, oft á tíðum í tilgerðarlegri og sjálfskipaðri óhamingju, og krossfesti helst sjálfa sig.

Fallegt viðfangsefni í listinni gerir ekki listaverk fallegt, það er ljóst. Auðvitað eru til dæmi um að fegurð sé notuð í neikvæðum tilgangi. Fallegar myndatökur Leni Riefenstahl voru notaðar til að upphefja nasismann.Við getum því miður ekki haft stjórn á dómgreind fólks eins og Leni. Það að vondum manni þyki eitthvað fallegt, gerir hins vegar ekki sjálkrafa það sem honum þykir fallegt, ljótt. Svoleiðis rökleysur ganga ekki upp – en hafa engu að síður verið notaðar til að gera hið fagra grunsamlegt. Ég hef minni áhyggjur af því að fegurðin sé notuð af harðstjórum. Heilbrigð skynsemi ætti að sjá í gegnum það. Umhugsunarverðari er áróður ljótleikans sem haldið er að okkur í lýðræðisríkjum.

Að sjálfsögðu þarf viðfangsefni lista ekki alltaf að vera fagurt. En eitthvað gróteskt og ljótt sem  jafnframt er illa gert hefur lítið með fegurð að gera, á meðan vel gert verk með gróteskar skírskotanir upphefur viðfangsefni sitt. Sumum verður alltaf í nöp við fegurðina, vegna trúarofstækis, eigin vanmáttar og öfundar. Þegar listsköpun kemur einungis úr huganum, en ekki frá hjartanu, hættir fegurðin og listin líka.

Stefán Boulter er myndlistarmaðurstefanboulter.com

Starafugl bað sextán listamenn úr ólíkum listgreinum og á ólíkum aldri að svara til um afstöðu sína til fegurðarinnar. Svörin munu birtast eitt á dag næstu daga á meðan enn eru nokkur til.