Við viljum vera virkur þátttakandi í að byggja upp og styrkja samfélag okkar, styðja og auka þekkingu, hæfni og lífsgæði einstaklinga og þjóðfélagshópa. Við viljum sinna menningu þjóðarinnar enn betur en gert hefur verið, í útvarpi, sjónvarpi og á vef. Við erum staðráðin í að efla innlenda dagskrárgerð. Sér í lagi þarf að bæta framboð á íslensku leiknu efni og gæðaefni fyrir börn á íslensku enda verður á næstu árum gerð enn ríkari krafa um að Ríkisútvarpið bjóði nýjum kynslóðum Íslendinga upp á vandað íslenskt efni þegar erlent afþreyingarefni á erlendum tungumálum er á hverju strái. Einnig er nauðsynlegt að gera átak í varðveislu þjóðararfsins og miðlun hans úr gullkistu Ríkisútvarpins. Þar er samtímasaga Íslendinga skráð og að henni verður að hlúa. Við höfum þegar hafið undirbúning að úrbótum á þjónustu við landsbyggðina og stefnum að auknum fréttaflutningi og dagskrárgerð utan höfuðborgarsvæðisins samhliða öflugri svæðismiðlun. Þannig styrkjum við hlutverk RÚV sem útvarp allra landsmanna.