Kanverska konan eftir Sadeo Watanabe.

Erindi kanverskrar konu : Prédikanir á föstu

Við erum hastarlega slitin úr sambandi við mögulegan áhrifamátt prédikunar eins og hún verkar í heiminum þegar við kynnumst ekki erlendum straumum og stefnum. Það er nákvæmlega af sama meiði og að kynnast erlendum listum, leikhúsi, tónlist; það eflir okkur sem neytendur lista og þroskar. Fram að því að kvikmyndin Málmhaus leit dagsins ljós s.l. haust hafa býsna eintóna myndir birst af íslenskum prestum t.a.m. í íslenskum bíómyndum. Og kannski höfum við almennt í huga einhverja eina útgáfu af prédikun kirkjunnar; hátíðlegt orðfæri, siðferðisumvöndun, eitthvað fjarrænt og óskiljanlegt. Ég skal ekki segja hvað það er sem megi almennt halda fram um „íslensk einkenni“ prédikunarinnar. Flestir prestar leggja mikla vinnu í prédikun sína; kjósa að glíma við textann – vilja koma einhverju erindi til skila. En textarnir eru misjafnir og tekið með mismiklum feginleik. Guðspjall síðasta sunnudags er einn af „erfiðu“ textunum. Einn þessara þar sem WWJD? virkar ekki sem prófsteinn eða afleiðslutæki.

Út af flestum guðspjallatextum er nefnilega einfalt að leggja í hinar jákvæðu og uppbyggilegu áttir – því að Jesús er svo góður gæi. Sagan af kanversku konunni birtir okkur aftur á móti mynd af hinum harkalega gyðinglega Jesú Matteusar. Og það þykir mörgum prédikaranum nú heldur verra. Þá þarf að hafa fyrir því.

Aftur á móti er spurning hvort prédikaranum er nokkur vorkunn að takast á við það erindi kirkjunnar sem fagnaðarerindið er. Leikarinn dregur ekki af sér þegar hans hlutverk verður „erfiðara“ – rithöfundurinn veigrar sér ekki við tilvistarvandanum; fréttamaðurinn leggst ekki í kör og forsætisráðherrann stingur ekki af til útlanda.

Í skugga Sigurbjörns

Íslenskur prédikunarkúltúr virðist á stundum staddur á svipuðum slóðum og bókmenntirnar fyrir á að giska 20 árum; hann er að reyna brjótast undan skugga þess sem setti öll viðmið tuttugustu aldarinnar. Í kirkjunni var það Sigurbjörn Einarsson á meðan Laxness skyggði bókmenntirnar. Á öðrum sunnudegi í föstu þetta árið fengum við dæmi um prédikun kynslóðar sem mótaðist af þeim risa í prédikuninni, nálgun Hjálmars Jónssonar dómkirkjuprests. Af fastmótuðum vana hefur hann prédikunina á guðspjallatextanum sjálfum, hinu klassíska formi sem Sigurbjörn hafði svo fullkomið vald á að það varð hér á landi (og er enn í handbók presta) að nokkurskonar reglu. Vissulega er nokkuð síðan menn fóru að brjóta formið upp – það gerði Sigurbjörn sjálfur – en eldri kynslóð presta virðist nokkuð stöðnuð í þessu formi. Í tilviki Hjálmars, þegar fengist er við Matt.15.21-28 leiddi það af sér að upphaf prédikunarinnar varð nánast að afsökunarbeiðni yfir því að vera fjalla um textann um kanversku konuna og þau eftirminnilegu samskipti sem henni og Jesú fara á milli.

Kanverska konan: Miskunna þú mér, herra, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda. (Jesús svarar engu). Lærisveinar: Láttu hana fara, hún eltir oss með hrópum. Jesús, við hana: Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt. Kanverska konan (leggst á hnén): Herra, hjálpa þú mér! Jesús: Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana…

Hjálmar er almennt lúnkinn penni og liðugt skáld, kvikur og hress persóna og vanur ýmsum aðstæðum úr pólitík og ræðumennsku í gegnum árin. Af því má ætla að vinaleg innleiðsla hans í upphafi prédikunarinnar, á nokkurskonar talmáli, eigi að skila nánd. Hann viðurkennir vanda sinn gagnvart textanum; þetta sé ekki sá Jesú sem við viljum halda í frammi og oft blöskri honum viðbragðið sem lýst er. Það er og vel að persónuleg skoðun hans og allflestra sem mæta þessum texta öðlist samhljóm og að sköpuð séu tengsl þannig í upphafi, en þessi viðleitni leiðir síðan ekki neitt. Hjálmar opnar raunar allskyns þræði en heldur engum þeirra til streitu og eftir því sem á líður verður algjörlega ljóst að hann ætlar sér að komast hjá því að fjalla um vanda textans; veita innsýn í meðhöndlun kirkjunnar á honum á fræðilegum nótum eða leggja út af honum á einhvern uppbyggilegan hátt. Það sé fljótafgreitt að varpa fram þeirri niðurstöðu að „Jesús sé fyrir alla“ – og að það sé kjarni sögunnar, án þess raunar að nokkur rök fylgi sem hjálpi til við túlkun eða skilning sögunnar í þá átt.

Erindi prestsins óljóst

Nú er það ekki hlutverk rýni sem þessarar að benda á í hvaða átt hefði mátt halda heldur að velta vöngum yfir formi og uppbyggingu. Því mætti segja að sá útgangspunktur sem Hjálmar velur, viðbrögð Jesú í guðspjallasögunni, sé ástæða þess að prédikunin nær ekki flugi sem sjálfstæð íhugun því Hjálmari líkar ekki viðbrögðin. Aftur á móti má benda á að til er fjöldi prédikana sem taka annan vinkil á aðstæðurnar og fókusera á konuna og kjark hennar eða á þjóðfélagshópa sem samsvara henni í hversdegi samtíðarinnar. Að einhverju leyti mætti því segja að „glíman við textann“ leiði af sér frjóari hugleiðingar ef annar útgangspunktur er valinn. Til að nefna dæmi um túlkun sem studd er af öðrum textum dagsins hefði t.d. verið hægt að ræða „glímuna við Guð“ og höfnunartilfinninguna sem tengist bænalífi og bænasvörun mannsins, í tengslum við frásöguna af Jakobsglímunni (lestur dagsins úr Gamla testamentinu) því að aðrir textar dagsins eru vissulega hugsaðir út frá því að samhengi sé á milli þeirra og guðspjallsins. Jakob krefur Guð um blessun, rétt eins og kanverska konan og hlýtur náð fyrir trú sína á svipaðan hátt. Í stað þess að einbeita sér að því að samsvörun sé á milli forföður Ísraelsþjóðarinnar og kanversku konunnar í þessu tilliti varpar Hjálmar því fram að kanverska konan sé útlendingur – sem er í sjálfu sér góðra gjalda vert ef við ætluðum að fara ræða xenophobiu, útlendingahatur – en þá yrði hann líka að beintengja þá umræðu við raunverulegar aðstæður í nærumhverfi okkar, ef við ættum að læra eitthvað nýtt af útleggingunni. Það er með öðrum orðum ekki hvatt til neinnar breytni með íhugun um textann, gagnvart útlendingum heldur snýr prédikarinn sér að því að tengja söguna starfi Guðmundar góða Arasonar á minningardægri hans.

„(Guðmundur góði Hólabiskup) mætti ofríki valdsmanna á sinni tíð, en hann hélt ótrauður áfram í fótspor frelsarans, ferðaðist um landið, blessaði, skírði og helgaði. Eins og Kristur ef einhver var hjálpar þurfi. Eins og sá er og sá reynist sem kærleikurinn knýr til góðra verka.“ – HJ úr Mikil er trú þín.

Computer says „no“

„Margir hafa einhvern tíma verið í sporum kanversku konunnar. Fundið sig máttlausa gagnvart ytri aðstæðum, hvort sem þar eru veikindi eða annar vandi, svo sem þeir sjá barnið sitt hverfa inn í heim neyslu og sinnuleysis. Hvað eru móðir og faðir ekki tilbúin að leggja á sig? … Fólk berst við að ná rétti sínum, en kerfið, sem sett er til verndar og öryggis fyrir lífið í landinu, virðist stundum verka öfugt. „Computer says no!“ “ Úr Mikil er trú þín/HJ.

Það er vissulega þarft verk, fyrst að kirkjan leitast við að koma sér upp hefðum sem minna á kirkjusögulegar persónur, að minna á arfleifð Guðmundar góða og þá afstöðu sem hann stendur fyrir þegar kemur að samskiptum hins veraldlega og kirkjunnar. Aftur á móti má velta því fyrir sér hvort að kontrapunktur Hjálmars – sterkasti hluti prédikunarinnar – þar sem afstöðu Jesú er líkt við ósveigjanleika veraldlegra kerfa, snýst ekki í höndunum á honum þar sem hann leikur sér með „Computer says no“-hugtakið. Það er að segja; hetjur dagsins, Jakob, kanverska konan og Guðmundur góði eru allt persónur sem láta ekki bjóða sér „Computer says no“-hugsanaganginn. Eins hefur Hjálmar á þessum tímapunkti dregið inn enn eina persónuna sem rís upp gegn valdi rétthugsunarinnar, Ragnheiði Brynjólfsdóttur biskups, með því að fjalla um uppsetningu óperu um sögu hennar, og því fer maður að búast við því að andóf og sannfæring, bænahiti, verði einhverskonar útkoma þeirra þátta sem opnað hefur verið á í prédikuninni. En nei. Í raun vendir Hjálmar kvæði sínu í kross algjörlega óvænt og fer að barma sér yfir „kirkjulegu baráttumáli“ – í raun einhverskonar rétttrúnaði sem lagt er upp með að kirkjunnar þjónar reyni að hafa í frammi sem oftast og víðast – sem varðar aðgang kirkjunnar að ungmennum í gegnum skólastarf, í ljósi þess að í menningarheimi „rétttrúnaðar“ – þar sem ríkisvald og trúarsiður hefur ekki aðskilist á sama hátt og í hinni vestrænu Evrópu – uppfræði gyðingar og múslimar börn sín um trúarbrögðin með afgerandi hætti án þess að skammast sín. Og það er á þessum nótum, þar sem prédikarinn fer að höfða til „villuráfs æskunnar“ og samtímans, að þeir þræðir sem hafa verið lagðir fram fara að flækjast hver fyrir öðrum.

Tilvistarspekingurinn Camus blandar sér í málið

Þegar hér er komið í prédikuninni líður manni nokkuð eins og að Hjálmar sé að verða kominn í gegnum „punktana sína“ frekar en að heildstæð prédikun sé að líta dagsins ljós, með upphafi – miðju – endi og samhengi. Að loknu innskotinu um skólamálin er vikið orði að pistli dagsins – um samhjálpina (sem ég myndi að vísu túlka sem texta um mátt bænarinnar) – og því að nú standi yfir föstutíð. Hún er ekki íhuguð í neinu sem fyrirbæri út af fyrir sig, heldur sem forleikur fagnaðar á páskum og hversu rétt áhersla sem það kann að vera miðað við áheyrendur eða söfnuðinn, þá er eins og á það sé minnst af skyldurækninni einni saman. Að vísu er það svo að sumir prédikarar líta svo á að í prédikuninni sé tækifæri prestsins til að ræða við söfnuðinn, því að í messuforminu sjálfu sé enginn annar „staður“ fyrir almennar tilkynningar. En að mörgu leyti er það ljóður á prédikuninni sjálfri sem sjálfstæðum texta og túlkun að t.d. föstutíðinni sé blandað inn án þess að prédikunin sé að takast á við boðskap textans til mannsins í því samhengi. Í tilviki þess innskots í prédikun Hjálmars má segja að þráðurinn frá kanversku konunni til einhverskonar niðurstöðu eða lokaorða sé algjörlega slitinn (a.m.k. er mér ógerlegt að sjá tengslin þar á milli.)

Skyndilega er kveðið upp úr um að franski tilvistarheimspekingurinn, kommúnisti sem síðar leit á sig sem anarkista og var afstöðulaus í trúarbrögðunum, Albert Camus myndi eiga síðasta orðið í prédikun dagsins. Vissulega er áhugavert að heyra hvaða svar hann eigi við þessum spurningum um ósveigjanleika kerfisins, hranalega framkomu Jesú við örvæntingu kanversku konunnar, miskunnarleysi Brynjólfs biskups – og aðkomu Gideonmanna að dreifingu Nýja testamentisins í skólum landsins! Að sögn Hjálmars taldi Camus það gæfu sína í lífinu að „vera með“ öllu í stað þess að vera á móti og finna öllu allt til foráttu. Camus mun hafa byrjað ungur á því að dást að fegurð lífsins, ekki fyllst beiskju þó hann hafi alist upp við erfið kjör. Hann hafi sloppið við að sligast af öfund og illkvittni, en það séu alvarlegustu mein hvers þjóðfélags. Það er og vel, ágætur boðskapur – og spurning Hjálmars í því samhengi fullgild – hvort „þeir meginkvillar hindri velferð og lífshamingju í okkar landi?“ Við getum jú vissulega tekið undir með Camus, almennt – en hvert er verið að beina sjónum okkar á lokasprettinum? Hvaða spurningu biður Hjálmar okkur um að íhuga?

Stendur lokaspurningin í tengslum við guðspjallið eða aðra texta dagsins?

Það er kannski djúpt í árinni tekið að segja að þessi „illkvittni Jesús“ sem kallar konuna hund – og Hjálmari líkar ekki nógu vel við – staðfesti sjálfan sig fullkomlega sem ímynd meinsemda þjóðfélagsins, þegar rýnt er í innihald prédikunarinnar í ljósi lokaorða Camus. Það var ekki það sem Hjálmar vildi koma á framfæri. En það var ekki heldur ljóst á nokkurn hátt hvað hann ætlaði að takast á við í textanum. Út frá prédikuninni Mikil er trú þín er að mínu mati ekkert hægt að segja um „birtingarmynd guðfræði íslensku þjóðkirkjunnar“ – nema að því leyti sem hún þjónaði tilgangi sínum til yfirferðar á nokkrum atriðum sem komu prestinum í hug. Sem betur fer leið messan í heild ekki fyrir það – og ef þetta væri til þess bær messurýni fengi Kári Þormar og Dómkórinn fjórar sálmabækur fyrir tónlistarflutninginn, umgjörð messunnar var glæsileg að vanda og virkjun safnaðarmeðlima þegar kom að lestrum er jákvæð þróun. Undirspil í almennri kirkjubæn og tilbreytingin sem felst í sungnum bænasvörum, sýndu að Hjálmar hefur tileinkað sér þessa nýbreytni nokkuð áreynslulaust. Útvarpsmessan var því ánægjuleg útvarpsreynsla á heildina litið. En kjarni hennar – prédikunin sem hér er miðað við að rýna í – var þrátt fyrir að ganga upp sem léttur en þenkjandi hluti messunnar, ruglingslegur á köflum og stóðst rökfræðilega og guðfræðilega ekki þær væntingar sem gera má til þjálfaðra prédikara þegar kemur að glímunni við snúnari guðspjallatextana í textaröðum A & B.

Camus sagði einhverju sinni yfir að eina leiðin til þess að fást við ófrjálsan heim (lögmálsins) væri að verða svo algjörlega frjáls (fagnaðarerindið) að tilvera manns ein og sér væri byltingartilraun. („The only way to deal with an unfree world is to become so absolutely free that your very existence is an act of rebellion.“) Trú kanversku konunnar og einurð lýsa þesskonar frelsi. Ástæðan? Augljóslega sú að niðurstaða Hjálmars var ekki í neinum tengslum við þá þræði sem höfðu verið dregnir fram í framvindu prédikunarinnar. Ef Hjálmari langaði til að klykkja út með einhverju gáfulegu frá Camus í lokin sem stendur í raunverulegu samhengi við söguna um kanversku konuna þá hefði hann getað snarað fram einhverju sem lýsir átökum hennar við lögmálshyggju lærisveinanna, í stað þess að vega að orðræðu samfélagsins, sem er harkaleg um þessar mundir af gildum ástæðum. Heimspekingurinn Albert Camus lýsti hlutskipti manneskjunnar á margbreytilegan hátt, og það hefði ekki tekið langan tíma að finna eitthvað sem stæði í röklegum tengslum við guðspjallatexta dagsins. Kanverska konan var nefnilega kjarkmikil, beinskeytt – og okkur til eftirbreytni.