Listamenn sem mála píkur á veggi grunnskóla ætti að fangelsa fyrir kynferðislega áreitni við börn. Þetta sagði sænski þingmaðurinn Margareta Larsson, sem svo vill til að er einnig mamma kærustu formanns flokksins, Jimmie Åkesson. Ummælin féllu í umræðu um ungmennapólitík sem fram fór í sænska þinginu í gær og var strax mætt af hörku af þingmanni Vinstriflokksins, Lars Ohly, sem sagði hugmyndir af þessu tagi eiga heima í Þriðja ríkinu. Viðbrögðin við ummælum Margaretu Larsson hafa verið mikil síðasta sólarhringinn og hafa meðal annars listaverk (af píkum, aðallega) flætt inn á Twitter og Facebook.
Án þess að þingmaðurinn hafi sérstaklega vísað til hennar má þykja víst að gagnrýnin hafi beinst að sænska graffitilistamanninum Carolinu Falkholt sem fyrr í ár fékk fríar hendur til þess að mála vegg gagnfræðiskólabyggingar í Nyköping. Málaði hún umtalaða og alræmda mynd af píku. Aðspurð um hvort hún skildi pólitík Larssons sagði Falkholt við sænska Aftonbladet: „Einhvers staðar vona ég að hún skilji ekki sjálf hvaða pólitík hún leggur stund á – að hún vilji í raun og veru að Svíþjóð verði breytt í kúgandi alræðisríki sem fangelsi listamenn.“