Í dag, laugardaginn 22.mars klukkan sex verður opnuð sýning eftir þýsk-íslensku myndlistarkonuna Claudiu Hausfeld í Gallerí Úthverfu á Ísafirði. Sýningin, sem ber nafnið „The Stone is God but does not know it, and it is the not knowing that makes it a Stone“, er unnin út frá hlut sem er ekki til staðar, einsog segir í tilkynningu. „Erfiðleikarnir við að gera eitthvað aðgengilegt án þess að sýna það ásamt hugmyndinni um að allt sé að hluta til hulið okkur vegna takmarkana í skynjun okkar eru kjarni verksins. Texti um eða myndir af hlut gera í raun hlutinn ekki sýnilegan heldur búa til nýjan hlut sem er í eðli sínu upplifun áhorfandans og vekur því spurningu um hvort að verk án áhorfanda sé til.“ Sýningin er opin fram til 13.apríl.