Andrými – samkomustaður orðlistafólks

Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO býður í dag til samkomu þar sem fólki gefst tækifæri til að hittast og spjalla um orðlist, bókmenntir og bókmenntalífið í borginni. Samkomurnar, sem hafa hlotið nafnið ANDRÝMI, verða á barnum í Tjarnarbíói annan miðvikudag í mánuði hverjum og standa yfir frá kl. 20 –22. Andrýmið er vettvangur þar sem bókmenntafólk kemur saman og gefur sér tóm til að ræða málin.

Á fyrstu samkomunni sem haldin er í dag, miðvikudaginn 12. mars, verður boðið upp á lauflétta dagskrá og tilboð á barnum. Þorsteinn Guðmundsson, grínisti og rithöfundur, flytur stutta hugvekju, og Margrét Bjarnadóttir, sem gaf út sína fyrstu bók Líf mitt, til dæmis hjá grasrótarforlaginu Tunglinu í fyrra, les upp. Alla jafna verður þó ekki um skipulagða dagskrá að ræða því Andrýmið er fyrst og fremst hugsað sem staður til að spjalla og viðra hugmyndir.