„Þú meinar klukkan átta? Salóme er ekki sýnd klukkan sex í dag.“ Ég er stödd í Bíó Paradís á vitlausum degi. Ókei. Nýtt plan. Sjá East India Youth á Kaffibarnum. Röðin er út fyrir horn Laugavegs og Bergstaðastrætis alla leið kringum Le Bistro. Ég reyni samt en stranda við innganginn, um 20 manneskjum frá því að komast inn. Tel mig sjá kappann þar sem hann spjallar við þann sem er nýbúinn. Ekki beint það sama. Kemst að því síðar að East India Youth aflýsti og spilaði aldrei – kannski var þetta einhver annar.
Ókei. Nýtt plan. Mr Silla er á Bravó og ég næ meirihlutanum af settinu hennar. Miðað við þröngar aðstæður og lítið hljóðkerfi hljómar hún stórkostlega. Byrjar á angurværð og færir sig svo lag fyrir lag í átt að hreinni hamingju. Langt síðan mér hefur liðið svona vel í sálinni eftir tónleika.
Hoppa inn á Bunk Bar þar sem Mamiko Dís, sem lítur út eins og ódýr útgáfa af Leoncie, syngur yfir upptöku sem hún spilar af símanum sínum í gegnum kerfið. Það er fullt af fólki en aðeins handfylli virðist vera kominn til að hlusta, enda bæði upptökur og söngur ósannfærandi og snauð af votti af frumleika. Ég gefst upp eftir tvö lög.
Ég dríf mig á Dillon að sjá Brain Police en þeir eru korter of seinir á svið og næ ég því aðeins fyrstu þremur lögunum. Feitasta bassasánd í heimi er enn á sínum stað en hljóðkerfið er ekki nógu kraftmikið til að söngvarinn geti yfirgnæft hljóðvegginn sem bandið byggir svo vel. Þeir eru alltaf góðir en hafa oft verið í meira stuði.
Jaakko Eino Kalevi er hinsvegar kominn til að djamma, nær flottum hljómi á Kex Hostel. Ég er komin til að hitta Bretann eftir að hafa skilið hana eftir heima alla vikuna hingað til. Hún er hrifin af innréttingunum og skrifar skilaboð frá Shakespeare með seglum á vegginn sér til skemmtunar. Ég er upptekin af Finnunum og þessu undarlega sulli popps og framúrstefnulegrar raftónlistar, hálf hissa á sjálfri mér að fíla þetta.
Bretinn segist ekki vilja neitt kraðak og ekkert brjálað djamm, er ekki með armband og því eru Mammút og The Knife úr sögunni. Ókei. Nýtt plan. Við stefnum á off venue pöbbarölt og förum aftur inn á Dillon þar sem ITCOM eru að sveifla sér af burðarbitunum í loftinu og öskra. Okkur er skemmt. Fáum okkur bjór og horfum á Dimmu líka, sáttar við að slamma svolítið og Bretanum líst vel á fjölda „víkinga“ í húsinu. En rölt er ekki rölt nema áfram sé haldið.
Boston er tómur fyrir utan tvo tónlistarmenn sem eru líka leiklistarfólk, úrvinda eftir gigg helgarinnar. Þreytan lekur af starfsfólki og kvöldið ekki byrjað. Við höldum áfram.
Bunk Bar er líka hálf tómur en andrúmsloftið er notalegt svo við fáum okkur annan.
Erum þá komnar í stuð og Bretinn heimtar Karaoke. Þannig að við eyðum næstu klukkustundum í að furða okkur á fullum strákum í jakkafötum, fullkomlega laglausum en geggjað hressum og appelsínugulum gellum að öskra Gaggó Vest, fullum manni sem tekur My Way tvisvar í röð og konu sem byrjaði kvöldið ágætlega syngjandi en versnar með hverju laginu. Með öðrum orðum því versta við Íslenskt djamm.
Endum rúllandi inn á Bar 11, hristum af okkur minningar af brestandi röddum og smeðjulegum pikk-öpp línum yfir Billy Jean. Hér er bæði kraðak og brjálað djamm. Úps. „Welcome to Iceland.“