Á móti mér hjóla, um það bil á nákvæmlega sama stað og hvítvínsstelpurnar í gær, tveir menn á einu, tvöföldu, hjóli. Það eina sem ég heyri af samtali þeirra þegar þeir bruna framhjá er „Scheiße“. Ég held í nokkrar mínútur að ég sé í falinni myndavél.
En að mörgu leyti er Airwaves ein stór falin myndavél. Beðið er eftir að ég trompist við einhvern gesta, til dæmis þessa sem getur ekki hætt að segja hópnum frá því að hún hafi víst verið í bústaðarferðinni þegar þau voru 17 ára, „Ó mæ god, manstu ekkert eftir því??!?“ – bjórdós í andlitið. Djók. Samt ekki.
Ég íhugaði lengi hvort að ég ætti að fara á, og fjalla um, upplestur hæstvirts ritstjóra Starafugls en svo fékk ég aulahroll. Það væri of súrrealískt grín.
En aðal djókið er hversu mikið af góðum listamönnum eru á hátíðinni.
Ómur frá tónleikum Geisla í Hörpu fær mig til að langa að skipta ullarkjólnum út fyrir síðkjól og fá mér hanastél. Að því er virðist er fólkið hinum megin í húsinu að lifa draum minn. Ekki að ég hafi aðgang, vantar VIP stimpilinn. En Geislar hjálpa mér að þykjast mikilvægari en ég er, þvílíkur er klassinn á þeim. Somersby í dós verður að duga.
Alice Boman er fáguð á annan hátt, sönn sænskum uppruna sínum hvað varðar færni í að búa til heilalím en hefur vit á að gera sín ástarlög talsvert einlægari en hið meðal-beibí-sull. Einfaldar laglínur í bland við gullfallegar harmóníur og heill hellingur af krútti.
Hún á þó ekkert í næstu söngkonu. Emilie Nicolas tókst það sem svo fáum tekst á hátíðum, nefnilega að skila frammistöðu sem og ef um tónleika með henni einni væri að ræða. Uppbygging tónleikanna, hljóðgæðin, framkoman og nýting ljósanna voru öll til fyrirmyndar en það sem mestu skiptir er hvað tónlistin sjálf var sjúklega fersk. Note to self: kaupa diskinn!
Ylja kom einnig skemmtilega á óvart með ljúfum en áhrifamiklum tónleikum. Þau eignuðu sér rýmið vel, sköpuðu nána stemningu í annars kuldalegum salnum og sýndu góða breidd tónlistarlega. Djöfull er gaman að vera til þegar maður hefur svona flottar konur til að syngja fyrir mann! „Scheiße!“