Ég er á bókamessu í Gautaborg, á fínu þriggja turna fjögurra stjörnu hóteli hinumegin við götuna frá tívolíinu Liseberg í hverfi þar sem er varla hægt að fá matarbita fyrir minna en 180 SEK (3000 kall – matur á veitingastöðum í Svíþjóð er almennt miklu ódýrari en á Íslandi). Morgunverðurinn er dásamlegur – ég missti af honum en ég veit að hann er dásamlegur því ég hef gist hérna áður. Þegar ég vaknaði keypti ég mér samloku í sjoppu handan götunnar og fór svo út að skokka. Ég veit ekki nákvæmlega hvert ég hljóp – upp með ánni og svo eitthvað uppeftir. Þrjá kílómetra í burtu og þrjá kílómetra til baka. Með The Clash í eyrunum. Ég var mjög upptekinn af umhverfinu og þurfti að minna mig 3-4 sinnum á að hlusta nú á tónlistina, hugsa um tónlistina – hvað er að gerast í þessari tónlist, hugsaði ég, og fór svo aftur að hugsa um fólkið í kringum mig, húsin, göturnar, bílana.
Eftir því sem ég færðist upp ána varð umhverfið „eðlilegra“ og þegar ég var kominn tvo kílómetra frá Gothia Towers og bókamessunni leið mér næstum einsog ég væri kominn í breskt verkamannahverfi. Ég hélt mig hafa séð kaþólska kirkju – en sé nú að Sankt Pauli tilheyrir sænsku þjóðkirkjunni, þrátt fyrir nafnið. Ég hljóp fram hjá finnskri hvítasunnukirkju. Það er ekki mikið af „hvítum“ verkamannahverfum í Svíþjóð – sú þjóðfélagsstaða, sem eitt sinn tilheyrði hvítum Svíum, svo hvítum Finnum (það þótti svo ófínt að vera finnskur í Svíþjóð á níunda áratugnum að margar fjölskyldur, meðal annars fjölskylda konunnar minnar, skiptu um eftirnöfn til að hljóma „sænskari“), en tilheyrir nú að mestu þeim sem eru kallaðir (og kalla sig) „rasifierade“ – það er að segja, kynþáttavæddir. Og var ekki líka eitthvað seventís við þetta hvíta breska verkamannahverfi, hvað sem það nú heitir – það voru plaköt og upphengd A4 ljósrit með löngum ræðum um borgarastjórnina og alþjóða gjaldeyrissjóðinn, öll merkt sænska kommúnistaflokknum.
Og ég náði þremur kílómetrum rétt við stóran kirkjugarð – það var grátt, skýjað og farið að kólna en mér var hlýtt af hlaupunum og ég reyndi hvað ég gata að einbeita mér að músíkinni. Þegar ég sem sagt áttaði mig sem sagt á því að þetta var músíkin. Ég var að hlaupa í gegnum einhvers konar ígildi tónlistarinnar. Bæði er ekkert óeðlilegt að hún veki með manni athygli á umhverfinu, bókstaflega – hún er sósíalkrítísk – og það er heldur ekkert óeðlilegt að hún skapi umhverfið að hluta í eigin mynd. Hún bæði segir sannleikann og býr hann til.
Eiríkur Örn Norðdahl, ritstjóri Starafugls, ætlar næsta árið að hlusta á 100 efstu plöturnar af lista Rolling Stone frá 2003 yfir 500 merkustu plötur allra tíma – á meðan hann hleypur, hjólar eða keyrir – og reyna að hafa á þeim einhverja skoðun. The Clash með The Clash hlustaði hann á hlaupandi í Gautaborg.