Yfirleitt næ ég ekki að klára heila plötu á hlaupunum – ekki nema platan sé óvenju stutt eða ég hlaupi óvenju langt. Flestar plötur fara yfir 40 mínútna múrinn og ég hleyp yfirleitt 30-40 mínútur. Þá hlusta ég á restina á meðan ég teygi mig og læt plötuna kannski ganga líka þegar ég kem úr sturtu. Star Time með James er hins vegar tæplega 300 mínútur að lengd. Fjögurra diska safn. Það er nær því að vera á lengd við vinnudaginn minn en skokktúrinn.
Ég hlustaði ekki á hana alla. Ætli ég hafi ekki hlustað á svona 100 mínútur – og það meira að segja á shuffle. Lögin spanna 30 ára feril, frá því um miðjan sjötta áratuginn fram á miðjan níunda. Bróðurpartinn af þeim hef ég heyrt áður og mörg þeirra auðvitað ótal sinnum.
En hvað segir maður um James Brown? Hvað hugsar maður um James Brown? Allt sem ég hef lesið um hann gefur til kynna að hann hafi verið mjög óvenjuleg mannvera – á köflum jafnvel frekar vond mannvera. Ekki að það komi tónlistinni við. En mikilmennskubrjálæðið – sem hlýtur líka að vera einhvers konar tengslaleysi, ómeðvitund um eigin smæð – án þess væri James Brown ekki James Brown. Án þessa yfirgengilega blinda bletts, þessa karaktersbrests sem hefur áreiðanlega gert bæði honum og fólkinu í kringum hann lífið leitt upp á hvern einasta dag meðan hann lifði. Mér finnst það þess virði að hugsa um það – og raunar hefur mér verið hugleikið upp á síðkastið almennt hvers listaverk geta verið virði í þjáningu og jafnvel mannslífum.
Öll listaverk krefjast einhverra fórna – þótt það sé ekki nema bara vinnutími, höfuðverkur, gremja – og ekki bara fyrir listamanninn sjálfan. Listamenn og fólk í listakreðsum leggur sig oft fram um að kanna alls kyns siðferðismörk – þessar könnunarferðir kosta alls kyns sár, en þær geta líka verið forsenda mikilvægra listaverka sem segja heiminum eitthvað sem hann má helst ekki vera án (ég hafna altso algerlega þeirri hugmynd að listin sé bara til gamans, það er hún ekki). En hvar liggur grensan? Hverjar eru reglurnar? Er einhver ásættanlegur fórnarkostnaður – er það bara sami fórnarkostnaður og í öllum öðrum mannlegum samskiptum? Ég óttast að það sé jafnvel hálf siðlaust að velta þessu fyrir sér.
Hvað um það.
Við skulum hlýða á tóndæmi.
Þetta lag – sem ég man ekki til þess að hafa heyrt áður, þótt það geti reyndar verið – er (einsog mikið af þessu) dásamlegt og var gefið út í miðri kynlífsbyltingu 1968. Það er kannski engra mannslífa virði en það er samt nokkuð gott. Textinn er … dásamlegur. Kannski er það eina orðið sem á við. Klámfenginn. Svívirðilegur. Frjálslegur. Kannski þau líka. En platan er ríflega 70 lög í viðbót. Ég veit ekki hvernig maður hanterar þannig plötur, finnst eiginlega ósanngjarnt af Rolling Stone að hafa slíkar plötur með á listanum. Um 300 laga plötur skrifar maður ekki plötudóm, maður skrifar ævisögu. Og ég hef ekki tíma til slíks.
Eiríkur Örn Norðdahl, ritstjóri Starafugls, ætlar næsta árið að hlusta á 100 efstu plöturnar af lista Rolling Stone frá 2003 yfir 500 merkustu plötur allra tíma – á meðan hann hleypur, hjólar eða keyrir – og reyna að hafa á þeim einhverja skoðun. Star Time með James Brown – eða þriðjung hennar – hlustaði hann á hlaupandi um Hrábæjarskóg í Västerås.