Þessi skrif eru ekki beinlínis ætluð sem dómur um verkið Konan við 1000° sem sýnt er í Kassanum í Þjóðleikhúsinu um þessar mundir í leikstjórn Unu Þorleifsdóttur. Vert er þó að taka það fram að undirrituð var að mörgu leyti afar ánægð með sýninguna og naut hennar sem áhorfandi og greinandi. Þá er það frá.
Sýningin var eins og röð af gömlum ljósmyndum, enda fjallar hún um endurminningar konu sem hefur lifað langa ævi. Þess vegna mun þessi umfjöllun vera á svipaða leið, lestur á stökum eftirminnilegum myndum. Og nú byrjar fyrstu persónu frásögnin. Ég kom inn í leikhúsið algjörlega væntingalaus, hafði ekki lesið bókina og haldið mig frá umfjöllun um þessa nýju túlkun á henni í fjölmiðlum. Ég tók upp þvælda glósubók og penna sem gaf ekki frá sér of mikið krafshljóð og byrjaði að skrifa niður hvaða myndir ég upplifði sterkast á meðan ég horfði á sýninguna.
Það fyrsta sem mætir mér eftir að ljósin koma upp er tregafull tónlist og bleik, fjólublá og svört blómabreiða á sviðinu ásamt háum trésúlum vinstra megin og skáskotnum svölum aftast. Herbjörg, aðalpersóna verksins er framarlega á sviðinu. Í kringum hana standa aðrar persónur verksins á ýmsum stöðum í leikmyndinni og nærvera þeirra er óþægileg, þær virðast þrengja að henni. Þessi opnun á verkinu kom mér strax inn í höfuðið á Herbjörgu og fékk mig í lið með henni það sem eftir lifði verksins.
VIRÐINGARLEYSI
Herbjörg hímir ein í bílskúr á elliárunum og þegar hún fær heimsókn frá barnabarni sínu er átakanlegt hvernig afkomandinn notar röddina í samtalinu. Hún talar við ömmu sína eins og krakka og það slær mann að upplifa þennan virðingarsnauða talanda frá sjónarhóli „þolandans“ sem er einfaldlega gömul manneskja en ekki ofvaxið, hrukkótt barn. Það var áhrifaríkt að sjá Herbjörgu skella á sig þvældri „gömlukonuhárkollu“ öðru hverju, sem skekkti upplifun mína á henni sem konu sem gæti gert hlutina ein og óstudd.
KARLMENNSKA
Snemma í verkinu sést dæmi um það hvernig svalirnar eru notaðar á óraunsæislegan hátt til túlkunar. Faðir Herbjargar stendur niðri á gólfinu og ofríki afa hennar sést á því að hann stendur keikur uppi á svölunum. Það er ljóst að sonurinn getur aðeins tapað gegn honum. Klæðnaður Herbjargar er við fyrstu sýn druslulegur en skírskotar í sjálfsmynd hennar. Buxurnar hafa snið eins og klassískar kvensparibuxur fyrir eldri konur, en þær hafa rönd niður eftir leggnum eins og buxur úr einkennisbúningi karls. Hún leitar í karlmennskuna eftir styrk því það að vera kona hefur ekki lukkast vel fyrir hana í fortíðinni.
ÁST
Þegar ég sé móður Herbjargar og föður hennar standa saman og raka blómabreiðunni á sviðinu saman eins og heyi, nær sú súrrealíska samsetning að toga mig inn í rómantíkina hjá þeim og mér leið eins og mig langaði ekkert frekar en að leggjast niður í blómin og finna ylinn sem stafaði af ást elskendanna.
MINNINGAFANGELSI
Það er harla sjaldan sem Herbjörg kemur líkamlega nálægt minningunum sínum á sviðinu en þegar fyrrverandi eiginmaður hennar sofnar í ölæði getur hún ekki stillt sig um að nálgast hann. Þegar hún ætlar að ýta við eða strjúka honum þá grípur hann í handlegg hennar og brýtur hana að vilja sínum. Þetta kveikti sömu tilfinningu og þegar minningar grípa mann heljartaki og maður getur ekkert gert annað en að velta sér upp úr þeim og finna til sársauka og eftirsjár.
KVENLEIKINN
Önnur minning af allt öðrum toga er þegar unglingurinn Herbjörg kemst í kynni við persónu sem ég kýs að kalla „flauelskonuna“. Kona sú var í djúpfjólubláum flauelskjól með vefjarhött og lunkin með varalit. Hún kennir Herbjörgu ýmislegt um kvenleikann með sinni dimmu og mjúku rödd sem umlukti mig með grófri ljóðrænu sinni. Mér fannst ég finna lykt af varalit úr snyrtikassa mömmu, þungan ilmvatnskeim og tilfinninguna að kúra upp við barm móður og ömmu. Fyrir mér var þetta kjarni kvenleikans eins og hann var hafður fyrir mér þegar ég var barn.
Hér lýkur upptalningunni á mínum uppáhaldsmyndum úr sýningunni, sem lýsa jafnframt nokkrum sterkustu þemum verksins. Nú er ekkert eftir að gera nema ná sér í eintak af bókinni og kynnast Herbjörgu og fortíð hennar enn betur en hér gafst tækifæri til. Takk fyrir mig.