Fyrir margt löngu veitti góður maður mér aðgang að tónlistarforritinu Reason. Ég gat aldrei lært almennilega á forritið og það eina sem ég gat gert ágætlega var að búa til trommur og takta. Ég útbjó því allmarga þétta takta í góðu samstarfi við eigið innsæi og hugmyndarflug. Og velti um leið fyrir mér hvort einhvers séns væri á að ég gæti slegið í gegn sem tónlistarmaður – sem hefði reyndar engu öðru að flagga á tónlistarsviðinu en afskaplega föstum töktum. Það dugði ekki til. En nokkrir vinir mínir urðu hrifnir. Taktarnir voru svo þéttir og skemmtilegir. Sumir þeirra minntu á tilkomumikla hergöngumarsa í ókunnu fasistaríki í sci-fi mynd, aðrir minntu meira á reykmettaða Lynch-íska stemmningu á næturklúbbi í svalri stórborg og enn aðrir minntu á gömlu japönsku tölvuleikina sem hvert okkur saug inn um augu og eyru hér fyrir tuttugu árum síðan eða svo.
notum endaþarmsstíla
massadrullufína
innflutta frá Kína“
– Bragðarefir
er hægt að hamstra sjarma?
Er sjarmi eitthvað sem að
þú setur í shawarma?
Hamstra sjarma
Lagið „Tipp topp“ sver sig í ætt við tónlist Súkkat eða jafnvel Megasar (minnir mig að nokkru leyti á „Greip og eplasafi“ en það er kannski bara vegna þess að Svavar syngur um „púðursykur og rjóma“). Textinn er jafn grátbroslegur og stemmningin á Hlölla eftir miðnætti: „Sá glitta í skottið á þér niðri á Hlölla. Hvað ertu að gera? Ertu að detta í slölla – við eitthvað gerpi sem á ekkert gott skilið?“ Að mínu mati er lagið „Tipp Top“ eitt af bestu lögunum á plötunni. Væri ég plötusnúður á skemmtistað myndi ég klárlega setja það á hinn svokallaða play-lista.
Ég hélt að í laginu „Föstudagsmessa“ ætlaði Svavar Pétur að hvíla föstu taktana og leyfa gutlandi gítarnum að njóta sín líkt og hann væri allt í einu orðin að einhverjum rómantískum suður-amerískur trúbador, „Hey amigo, föstudagsmessa.“ Þá reiðir Reason (eða hvað það er sem Svavar notar) skyndilega til höggs líkt og vegið sé úr launsátri. Og taktarnir úsast inn og rafmagnsgítar þar ofan á. Lagið keyrir allt í einu af stað eins og sportbíll. Þetta lag kom virkilega á óvart. Þarna eru að koma inn taktar og tónar sem hver Reason notandi gæti verið stoltur af.
„Ég kem með kremið“. Hér erum við aftur komin til Íslands: „Hjónabandssæla í ofninum og Haukur á fóninum. Og allt í orden.“ Það hafa ekki allir þor eða ímyndunararfl í að sletta á dönsku í sínum textasmíðum. En hví ekki? Til hvers vorum við eiginlega að læra alla þessa dönsku í öll þessi ár? Svo ekki sé minnst á þá list að ríma.
Lagið „Landspítalinn“ sver sig í ætt við hina kanadísku strauma sem liðu yfir heimsbyggðina með tilkomu Arcade Fire. Lagið er kannski einskonar (skop)stæling á hinum kanadíska stíl.
Lagið „Lúxuslíf“ hefst á línunni: „Hraunbiti bráðnandi í sólinni.“ Og ég er reyndar mjög hrifin af þessu lagi. Ég verð heltekin af löngun til að kaupa mér bíl með góðum græjum og keyra svo á honum í kringum landið. Þetta er svona lag sem getur látið hversdaglega og leiðinlega hluti virka áhugaverða og spennandi. Líkt og áfengi.
það er enginn heima ég er aleinn í kotinu.
Má ég fá mér púðursykur og rjóma?
Ekki fella dóma, ekki kalla mig róna.“
– Tipp topp
Textar Svavars eru skemmtilegir. Þeir vísa í þennan hversdagslega íslenska raunveruleika þar sem menn segjast vera ýmist ótrúlega nettir eða viðbjóðslega leiðir. Þá fer talsvert fyrir mat í textanum, allt frá Hlölla að hraunbitum, kjúklingabringum og heimabökuðum hjónabandssælum. Vísanirnar í textunum jarðtengja hlustandann sem þekkir vel orðfærið eða hlutina sem fjallað er um. Bæði textar og tónar Svavars eru lausir við alla tilgerð. Og hann getur alveg blandað saman allt að því rómantísku gítargutli við takt sem hefði sómað sér vel í skotbardagaatriði úr Star Wars og það hljómar fínt – allt í orden.
Segja má að Sorrí sé tvenns konar stuðplata. Þegar litið er yfir verkið í heild sinni er „keyrslan“ þétt og hressandi – en um leið fjallar platan að miklu leyti um stuð. Á plötunni er fólk nefnilega í allskonar stuði. Og við fáum að sjá margar hliðar stuðsins: fyrirganginn, svitann og gleðina. En líka þynnkuna og vitleysisganginn – og svo má líka alveg vera í mínimalísku stuði undir teppi heima hjá sér að hlýja sér á tánum, eins og í laginu „Ég kem með kremið“.
Það er góð tilfinning að komast í verk sem tengja við heldur grámyglulegan hversdaginn hér á Íslandi um leið og þau varpa á hann talsvert skærara og litríkara ljósi en gengur og gerist. Ekkert Sorrí neitt með það – bara flott og takk fyrir.
Hægt er að streyma öllum lögunum á plötunni, horfa á myndböndin og/eða panta sér geisladisk – á heimasíðu prinsins.