Platan – óperan, verkið – Tommy með The Who er svínslega metnaðarfull tilraun Pete Townshend til þess að konfrontera kynferðisofbeldi sem hann varð (hugsanlega) 1 fyrir í æsku – eins konar metaævisaga í tónum og textum þar sem gítarleik er skipt út fyrir kúlnaspil og rokkheiminum fyrir einhvers konar Lísuíundralandískum sósíal-realisma – sem nær epískum hæðum í rokkslagaranum sem allir þekkja, „Pinball Wizard“. Í Tommy er popptónlistin tekin alvarlega sem listform – textarnir eru ljóðrænir, byggingin narratíf, tónlistin í senn tilraunakennd og grípandi, útsetningarnar vandaðar og margbrotnar en samt er þetta einhvern veginn ennþá beinskeytt rock’n’roll, meðhöndlunin öll mjög persónuleg og prósessinn sjálfsagt verið sársaukafullur fyrir Townshend og kannski fyrir hina líka.
Ég hlustaði talsvert á The Who þegar ég var unglingur en ekki á Tommy, af einhverjum orsökum. Líklega bara þeim að hún rataði aldrei í plötusafnið mitt (þetta var fyrir Spotify – meira að segja fyrir Kazaa, fyrir PirateBay). Og þótt ég þekkti helstu slagarana hafði ég ekki nokkra hugmynd um það fyrren nú að ástæðan fyrir blindu, heyrnar- og málleysi Tommys væri kynferðisofbeldi. Og það kom, að ég best veit, ekki fram fyrren löngu seinna að Townshend hefði sjálfur (hugsanlega) verið þolandi slíks ofbeldis sem barn (ég heyrði fyrst um það þegar hann var gripinn með barnaklám – sem hann sagðist hafa halað niður í rannsóknarskyni, fyrir sjálfsævisögu sína að mig minnir).
Vandamálið er svo að rokkóperan, verkið, platan Tommy er alveg hryllilega tilgerðarleg – útsetningarnar of útsettar, harmurinn melódramatískur, narratífan of mikið úti um allt og alltof löng og ljóðrænan kjánaleg, symbólisminn hipsumhaps – og megnið af plötunni hálfgert drasl fyrir vikið. Hún stendur ekki undir öllum þessum metnaði nema augnablik og augnablik í senn. Og þar sem hún er verst er hún skelfileg. Lög einsog „Do you think it’s alright“ og „Fiddle about“ hljóma meira einsog þau séu úr söngleiknum Lease en eitthvað sem á heima í frægðarhöll rokksögunnar. Því miður.
Að vísu sýnist mér á sumum Youtube klippum að þessi lög hafi ekki öll verið jafn kjánaleg live.
Eiríkur Örn Norðdahl, ritstjóri Starafugls, ætlar næsta árið að hlusta á 100 efstu plöturnar af lista Rolling Stone frá 2003 yfir 500 merkustu plötur allra tíma – á meðan hann hleypur, hjólar eða keyrir – og reyna að hafa á þeim einhverja skoðun. Tommy með The Who hlustaði Eiríkur á meðan hann keyrði í útilegu á ströndinni við Hagakot í Ísafjarðardjúpi. Og svo aftur nokkrum dögum síðar við einhverja matseld.
1. | ↑ | Ég er ekki að vera kvikindislegur með þetta „hugsanlega“, ekki að gera lítið úr fullyrðingum Townshend – staðreyndin er sú að hann telur sjálfur bara hugsanlegt að hann hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi þegar hann var mjög ungur, en man það ekki og veit ekki hvað gerðist. |