Enn önnur tónlist vikunnar á föstudegi og ekkert fáránlega langt viðtal? Hvað er í gangi? Eru laugardagar bara betri til til viðtalsbirtinga? Það gæti verið. En svo er líka margt annað á seyði. Það eru allir að horfa á Eurovision og skrifa um það á feis. Það hefur enginn tíma til að svara viðtölum, hvað þá að lesa þau. Eurovision svalar þorsta áhugafólks um tónlist ágætlega, sérstaklega þar eð það veitir svo mörg skemmtileg tækifæri til vandlætingar. Þar sem enginn þarf að hlusta á útvarpið lengur eða horfa á sjónvarpið lendir fólk æ sjaldnar í því að upplifa eitthvað sem það er ekki líklegt til að fíla, og því hefur verið nokkur skortur á færum til að vandlæta. Sjáið bara internetið, þar er nánast ekkert um vandlætingu? Þessvegna er Eurovision svona gagnlegt. Það sér okkur fyrir stöffi að vandlætast á. Það er svona „megaritual“ og þjónar því hlutverki vel.
Og þar sem allir eru á kafi í megaritúalnum, þá verður ekkert viðtal núna. En í staðinn koma hér nokkrir hlekkir á athyglisvert og/eða skemmtilegt sem einhverjir gætu hafa misst af (líklega ekki þeir sem lesa þetta vefrit þó, það fólk fylgist allt svo vel með).
Fyrst þetta:
Þetta var Stitches. Hann er einhver svona Flórídarappari sem segist vera átján ára og er allur vaðandi í andlitstattóveringum og syngur (rappar/öskrar) bara um morð og kókaín. Mjög margir á internetinu eru í því að pósta laginu hans þessa dagana og láta einhver orð fylgja. Kannski er hann svona vandlætingarmegaritúal eins og Eurovision, sem gefur fólki færi á að sýna hvað það er gáfað með því að vandlæta það með tungu kyrfilega í kinn. Eða kannski fíla allir þetta bara geðveikt vel. Ég er ekki viss. Lagið er allavega frekar grípandi. Ótrúlegt að drengur sem ólst upp á götunni og lét tattóvera á sér andlitið hafi afrekað svona. Vel gert, Stitches.
Nema hvað. Lagið hans Stitches virkar ágætlega sem inngangur að greinaröð sem Questlove úr Roots er að skrifa fyrir Vulture bloggið. Það er nokkuð merkileg greinaröð, sem segist fjalla um „hvernig hip hop brást svörtu ameríku.“ Þegar hafa birst þrjár færslur í röðinni – sem mun telja alls sex þegar yfir lýkur – og eru þær allar nokkuð magnaðar. Questlove er góður músíkant og sömuleiðis hygginn hugsuður sem virðist tigna allar helstu kenningar Foucaults og félaga sem kenndir eru við 20stu aldar póststrúktúralisma og beita þeim sem greiningartólum á þann jarðveg sem hann sjálfur sprettur úr af mikilli natni. Greinarnar eru í lengri kantinum, en allrar athygli verðar fyrir fólk sem hefur annað borð áhuga á menningu og samspili hennar við samfélag. Mæli ég því með að svoleiðis fólk bara lesi þær, en þeir sem vilja sýnishorn mega vita að trommarinn knái fjallar í greinunum nokkuð ítarlega um hvernig hip hop tónlist fer frá því að vera valdeflandi fyrirbæri í menningarheimi svartra Bandaríkjamanna, yfir í að vera jafnvel einskonar kúgunarafl, í það minnsta storkin gildra. Svona „regluverk rotnar alltaf“ pæling, sem er frekar glúrin. Hér eru greinarnar:
Nr. 1 When the People Cheer: How Hip-Hop Failed Black America
Nr. 2 Mo’ Money, Mo’ Problems: How Hip-Hop Failed Black America, Part II
Nr. 3 Questlove’s How Hip-Hop Failed Black America, Part III: What Happens When Black Loses Its Cool?(þriðja greinin er sérstaklega skemmtileg, fólk sem er að flýta sér eitthvað gæti t.d. bara kýlt á hana til að byrja með).
Af sama meiði, en úr allt annarri átt, þá hefur hin ágæta bell hooks lýst því yfir að Beyonce okkar sé terróristi sem beitir ægivaldi sínu til þess að kúga svartar bandarískar stúlkur og láti þær óttast eigin líkama og ófullkomnun. bell er mjög klár og það er gaman að hlusta á mál hennar. Hérna má lesa úrdrætti úr spjallinu og sömuleiðis horfa á allt erindi bell hafi maður vilja til og áhuga á (auðvitað hefur maður það).
Hér er skemmtilegt aukaefni, sem gott er að horfa á og hafa í huga til hliðsjónar við greinar Questlove (og líka Stitches myndbandið).
Þetta var Wacka Flocka Flame, með lagið Hard In Da Paint. Líklegt má telja að Questlove sé ekki nema svona temmilega ánægður með framgang og boðskap Wacka, telji hann jafnvel hluta af vandamálinu. Lagið er samt grípandi og skemmtilegt.
Þarna mátti svo sjá hinn sívinsæla Gucci Mane, en hann er e.k. læriföður Wacka Flocka og var um skeið mikill bandamaður hans (glöggir geta meira að segja séð Wacka bregða fyrir í myndbandinu). Þeir voru hinsvegar orðnir óvinir síðast þegar ég vissi. Þeir gætu samt hafa samið frið síðan, það er oft erfitt að fylgjast með þessum gæjum.
Þetta var svo vinur okkar Rich Homie Quan með tímamótalagið Type of Way. Magnað lag, skapað af miklu listfengi. Þetta lag þykir mér jafnvel virka sem e.k. andsvar við því sem Questlove hefur verið að halda fram, enda tekur Homie stef og þemu úr groddarappi Gucci og nálgast það af einhverju melódísku listfengi, einfaldleiki og harka Gucci verður í margeinfölduðum meðförum Homie að einhverju alveg nýju og jafnvel allt öðru en hiphopi, einskonar rókókó r&b eða sálarmúsik, svona nýstárlegu tjáningarformi. Vel má vera að pælingar Questloves séu frekar mikið svona gamall karl að kvarta meira en nokkuð annað, að í hip hopi eigi sér stað stöðug og góð þróun/endurnýjun og listformið sé alls ekki hætt að vera skapandi og eflandi tjáningarform.
En Questlove er samt örugglega miklu fróðari um þetta en ég. Síst vildi ég hvítskýra (e. „whitesplain“) eitthvað fyrir honum.
Nú, hafi maður engan áhuga á hip hop tónlist er samt margt annað vert að skoða þarna. Til dæmis getur maður lesið frábæra og langa grein um hljómsveitina Blur og plötuna Parklife og fyrirbærið Britpop og hvernig það varð beint og óbeint til þess að Bretland er glatað núna. Hér er hún:
A British Disaster: Blur’s Parklife, Britpop, Princess Di & The 1990s
Svo má hlusta á frábæra nýja EP plötu frá BATHS (BATHS gerir raftónlist sem er með söng og frekar svona mjúk og grípandi og mjög skemmtileg) hérna.
Og svo er íslenska EXTREME JAÐAR útgáfan Ladyboy Records búin að vera ótrúlega virk í útgáfu á fráhrindandi meistaraverkum upp á síðkastið. Gott er að hlusta og tékka hér – og svo er líka sniðugt að kaupa eintak eða borga fyrir niðurhal ef maður er í stuði til að styðja listir.