sjöundi apríl tvöþúsund og sautján. þú að verða átján. bíður mín á stoppistöð í Stokkhólmi. blómarós í hvítri kápu. við tölum um allt og hlæjum saman í strætó með stefnu á sýningu í útjaðri borgarinnar. ég nýt hverrar mínútu. svo gaman að fá að vera með þér! skoða málverk með augunum þínum næmum á smáatriðin.
síminn byrjar að titra í hendinni á þér. amma að stela tíma frá kærastanum?
þú hristir höfuðið: „Árás á Áhléns í miðbænum!“ ég hristi höfuðið. botna ekki neitt í neinu. skyndilega breytist dagurinn okkar – í kvikmynd – í slow motion meðan skilaboðum fjölgar. flýtum okkur heim.
allir strætisvagnar hafa verið teknir úr umferð. við göngum og göngum. erum langt frá miðbænum. langt frá hryðjuverkunum. tvær konur sem leiðast í kaldri golu í skringilegri kvikmynd með þyrlugargi.
hetjan í myndinni er leigubílsstjóri. hann stoppar og opnar afturdyrnar. ylurinn streymir á móti okkur. hann lofar að finna leið – krókaleið. heim. þú sofnar við öxlina á mér. ástin hennar ömmu.